09.05.1923
Efri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1717 í B-deild Alþingistíðinda. (1863)

124. mál, friðun á laxi

Guðmundur Ólafsson:

Mjer þykir álit landbn. um hitt laxafriðunarfrv. svo gott, að ekkert liggi á að samþykkja frv. þetta. Því ef dagskrá nefndarinnar í því máli verður samþykt, þá verður þetta mál að bíða hvort sem er, enda ekki óviðkunnanlegt, að álits sýslunefnda sje leitað um þessi efni. (Forseti: Á að skoða þetta sem ósk um, að mál þetta verði líka tekið af dagskrá?). Nei. Jeg var aðeins að ræða um málið eins og það lá fyrir og láta í ljós það álit mitt, að ef lög um þessi efni verða endurskoðuð í heild fyrir næsta þing, þá má þetta frumvarp gjarnan bíða.