09.03.1923
Neðri deild: 16. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í B-deild Alþingistíðinda. (191)

52. mál, berklaveiki

Frsm. (Pjetur Ottesen):

Eins og getið er um í greinargerð við frv. þetta. er það komið til landbúnaðarnefndar frá atvinnumálaráðuneytinu, en samið af Magnúsi Einarsyni, dýralækni í Reykjavík.

Það er orðið nokkuð langt síðan raddir fóru að heyrast um það, að vart hefði orðið við berklaveiki í nautgripum hjer á landi. Það mun þó nokkurnveginn víst, enda álit dýralækna, að mikil brögð hafi ekki verið að því til þessa. T. d. fullyrðir dýralæknirinn í Reykjavík, að á Suðurlandi sje veikin alls ekki til, og byggir það á því, að í þau 26 ár, sem hann hefir verið dýralæknir hjer, hefir hann aldrei orðið var við hana. Í 18 ár hefir hann haft á hendi kjötskoðun hjer í Reykjavík og skoðað á þann hátt kjöt af milli 10 og 20 þúsund stórgripum, en hingað koma nautgripir til slátrunar hvaðanæfa af Suðurlandi, og hefir hann aldrei fundið hinn minsta vott af þessari veiki. En aftur á móti kvað dýralæknirinn á Akureyri nokkuð oft hafa orðið var við berkla í nautgripum þar nyrðra, svo að ætla má að einhver brögð sjeu að veikinni í Eyjafirði. Úr öðrum landshlutum hefir heldur ekki heyrst um, að nein veruleg brögð væru að þessari veiki, fyr en á síðastliðnu ári, að dýralækninum í Reykjavík var skýrt frá sjúkdómi, sem komið hefði upp í kúm í Neðri-Hvestu í Arnarfirði. Af þessari lýsingu var dýralækninum það strax ljóst, að hjer væri um berklaveiki að ræða, og hana illkynjaða. Sneri hann sjer strax til atvinnumálaráðuneytisins og fjekk því þegar framgengt, að dýralækninum í Stykkishólmi, Hannesi Jónssyni, var falið þá þegar að fara þangað vestur og rannsaka sýkina. Hann brá þegar við og framkvæmdi rannsókn þessa. Og kom það þegar í ljós, að allar kýrnar á bæ þessum, 3 að tölu, voru sýktar. Varð það að samkomulagi milli dýralæknis og bóndans að slátra einni kúnni, þeirri sem verst var haldin, og kom það í ljós, er kýrin var krufin, að hún var gagnsýrð af berklaveiki. Til þess enn betur að ganga úr skugga um, að hjer væri um berkla að ræða, voru meinsemdir úr kúnni sendar hingað suður til frekari rannsóknar, og staðfesti sú rannsókn fullkomlega ályktun Hannesar dýralæknis um veikina. — Á næsta bæ við Neðri-Hvestu rannsakaði dýralæknir 1 kú, og reyndist hún ósýkt, en nautgripir af bæjum þessum ganga saman. Þetta er þriðja kýrin, sem drepin hefir verið í Neðri-Hvestu, eftir því sem nú er upplýst, aðframkomin af berklaveiki, en það var fyrst 1917, sem veikinnar varð þarna vart.

Í brjefi dýralæknisins til stjórnarráðsins um þetta mál, sem þessar upplýsingar eru teknar úr, ásamt skýrslu Hannesar dýralæknis. segir hann um upptök veikinnar á þessum bæ:

„Hvaðan fyrsta kýrin hefir fengið veikina er ekki vitað; óvíst hvort hún hefir fengið hana af öðrum nautgrip eða frá berklaveikum manni; en hvort sem nú kann að vera, þá virðist það auðsætt, að fyrsta kýrin, hver sem hún hefir verið, hefir sýkst af manni, sem komið hefir með nautaberkla í sjer frá útlöndum, því að um sýkingu frá útlendum nautgripum getur ekki verið að ræða, þar sem þeir hafa ekki verið innfluttir í manna minnum. — Samkvæmt nýjustu rannsóknum eru þrjár tegundir berklabaktería: 1. Typus humanus. 2. Typus bovinus og 3. Typus avium, og eru þær nefndar svo af því, að nr. 1 er sjerstaklega eitruð mönnum. nr. 2 nautum og nr. 3 fuglum. Það er talið fremur sjaldgæft, að menn sýkist af nautum (Typ. bovinus), og enn sjaldnar að naut taki veiki af mönnum (Typ. human.), en hvorttveggja getur átt sjer stað, og virðist hjer vera eitt dæmi því til sönnunar. — En úr því að einn nautgripur er þannig sýktur, getur veikin borist frá honum hröðum skrefum til annara nautgripa“. o. s. frv.

Eins og áður er greint, er það einkum þetta sjerstaka atvik, sem hefir gefið dýralækninum í Reykjavík og atvinnumálaráðuneytinu tilefni til þess að koma nú fram með tillögur um að hefta útbreiðslu þessa voðakvilla, sem tvímælalaust mundi valda óskapatjóni, ef hann fengi að leika lausum hala og kæmist í algleyming. Landbúnaðarnefndinni var því eðlilega mjög ljúft að flytja frumvarp þetta og vinna að framgangi þessa máls.

Eins og vikið hefir verið að, er frv. samið af dýralækninum í Reykjavík, og á sú tilhögun, sem í frv. felst, að hans áliti að geta fullkomlega náð tilgangi sínum til að stemma stigu fyrir því, að veikin magnist og breiðist út. Ætti að mega vænta þess fullkomlega af bændum og búaliði, þegar vitað er, hver vá er fyrir dyrum og hvað í húfi er, að þeir gæti hinnar fylstu varúðar, og þegar fyrir koma sjúkdómstilfelli hjá nautpeningi, er vekja grun um berklaveiki, en um það ætti leiðarvísir sá, sem gert er ráð fyrir í 1. gr. frv. að atvinnumálaráðuneytið láti semja og útbýta, að gefa leiðbeiningar, að þeir leiti þá tafarlaust til dýralæknis, sem þá rannsakar eða lætur rannsaka þetta svo fljótt sem við verður komið.

Kostnaður sá, sem af framkvæmd laga þessara leiðir fyrir ríkissjóð, telur dýralæknir að trauðla geti orðið mjög mikill, ef þegar er hafist handa; útbreiðsla veikinnar sje ekki svo mikil enn sem komið er. En til varygðar, ef svo reyndist, að veikin væri mjög útbreidd á einhverju svæði, er gert ráð fyrir einangrun, en ekki niðurskurði, en komi til þess að skera niður, er gert ráð fyrir beinni þátttöku ríkissjóðs í skaðanum, með líku sniði og títt er í nágrannalöndunum, þegar svo stendur á.

Nefndin hefir ekki breytt frv. dýralæknis að öðru leyti en því, að í sambandi við þetta frv. hafði dýralæknir samið annað frv., sem landbúnaðarnefnd gat ekki fallist á og sá ekki ástæðu til að bera fram, en þar sem það frv. stóð í sambandi við þetta frv., sem hjer um ræðir, þá varð að gera nokkrar orðabreytingar, sem þó eru ekki að neinu leyti efnisbreytingar. Auk þess hefir nefndin breytt upphafi 2. gr. Í frv. dýralæknis, eins og það barst nefndinni. var gert ráð fyrir því, að dýralæknir skyldi í öllum tilfellum framkvæma rannsóknina sjálfur. En eins og þetta er orðað nú getur dýralæknir falið þetta öðrum, sem hann trúir fyrir því, og dragi það mjög úr kostnaði, ef um miklar vegalengdir væri að ræða. Það mundi ekki koma fyrir, að dýralæknir fæli öðrum en vel hæfum mönnum þessa rannsókn, en það er alkunnugt, að leikmenn geta í flestum tilfellum rannsakað, hvort lifandi gripir eru haldnir af berklaveiki eða ekki, með því að sprauta í þá tubereulini. Þó segir dýralæknir, að fyrir geti komið, að það sje ekki á færi leikmanna að skera úr um það.

Jeg vil því fyrir hönd landbúnaðarnefndar eindregið leggja til, að frv. nái fram að ganga, svo að menn sjeu ekki að öllu varbúnir að taka á móti þessum vágesti, þegar hann ber að dyrum.