03.04.1923
Neðri deild: 32. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í C-deild Alþingistíðinda. (1928)

17. mál, afnám yfirskjalavarðarembættisins við Þjóðskjalasafn Íslands

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

Hæstv. forsrh. byrjaði með því að þakka meiri hl. nefndarinnar fyrir vel unnið starf, og var það fallega gert af honum. Þessi ánægja hæstv. forsrh. hlýtur þó að vera nokkuð beiskju blandin, þar eð meiri hl. hefir orðið algerlega að umsteypa frv. stjórnarinnar og búa til nýtt frv. í þess stað. (Forsrh. SE: Nú finst mjer minni hl. vera kominn í mótsögn við sjálfan sig). Það er engin mótsögn. Niðurstaðan var að vísu sú sama í raun og veru. En því verður ekki neitað, að frv. er nýtt eins og það kemur frá nefndinni. Það er því ófagur vitnisburður, sem meiri hl. hefir gefið með þessu um vandvirkni stjórnarinnar, að hann hefir ekkert getað notað úr frv. stjórnarinnar, jafnvel þótt hann vildi komast að sömu niðurstöðu. Þetta á jeg við með því, að gleði stjórnarinnar hljóti að vera dálitið beiskju blandin. Mjer finst, að jeg geti eins vel þakkað hæstv. forsrh. fyrir ræðu hans, því hann þræddi nákvæmlega alt, sem hann hafði áður sagt við 1. umr., og bar ekki nein ný rök fram.

Hann talaði um, að það hefðu verið afvegaleiddir menn, sem um þetta mál hefðu fjallað áður. Þá hafa verið afvegaleiddir menn í mentamálanefnd áður hjer í þinginu 1919, eins og t. d. Einar Arnórsson, Stefán Stefánsson, Jörundur Brynjólfsson, Pjetur Þórðarson og Einar Jónsson. Og þá hefir meiri hl. þingmanna í þessari hv. deild verið afvegaleiddur, því að þeir fjellust á álit þessa meiri hluta.

Þar sem hv. frsm. meiri hl. (MG) sagði, að deildarmenn mundu með atkvæði sínu skera úr um, hvoru megin rökin væru, þá vil jeg benda honum á, að þetta er dálítið óvarlega mælt, því að þó að þetta kunni nú að ganga honum í vil, þá hefir hann vafalaust oft þóst verða hins gagnstæða var. Hann hefir ugglaust stundum þóst hafa rökstutt mál sitt vel, og orðið þó undir, er til atkvæðagreiðslu kom. Það er hver blindur í sjálfs sín sök, og svo einnig í því að meta rök sjálfs sin og andstæðinganna.

Hæstv. forsrh. var að hrekja orð mín um, að það væri einkenni á sjálfstæðri þjóð að hafa sem fjölbreyttust söfn, og taldi, að við værum ekki færir um það, eins og stórþjóðirnar. En þetta hefi jeg aldrei sagt. Jeg sagði, að slík söfn væru einkenni á menningu þjóðarinnar, en talaði ekkert um sjálfstæði (eða Suverænitet) í stjórnmálum. Hjer er heldur engu líku saman að jafna við stórþjóðirnar, þó að við höfum forstöðumann fyrir hvoru þessara safna; aðrar þjóðir hafa sæg af mönnum, þar sem vjer höfum aðeins einn, og er þetta því ekki sambærilegt. Það er líkast því sem hæstv. forsrh. geti ekki hugsað nema í öfgum, að ef ekki sje hægt að komast af alveg án forstöðumanns, þá viljum við hafa sæg af specialistum. Jeg efast ekki um, að betra sje að hafa fleiri menn, ef hægt væri, eins og annarsstaðar er gert. En hitt eru öfgar og í hálfgerðu óráði talað, að við sjeum að apa eftir stórþjóðunum, þó við höfum tvo forstöðumenn fyrir söfnunum.

Þá var það ein fjarstæðan hjá hæstv. forsrh., er hann sagði, að jeg hefði ekkert talið sameiginlegt með söfnunum. Jeg taldi það þó til, að þau væru undir sama þaki, og er það sjálfsagt allmikilvæg röksemd. Hann talaði og um það, að bæði þessi söfn væru fróðleiksbrunnar miklir, og er það satt; en það sannar raunar ekki neitt af því, sem hann vildi sanna, því fróðleiksbrunnarnir eru svo margvíslegir, að engum dettur í hug, að sami maður geti gripið yfir þá alla. Og eru rök hans yfir höfuð átakanleg dæmi þess, þegar menn eru að verja það, sem er óverjandi. Væri honum því nær að játa hreinskilnislega, að frv. væri borið fram sem játning þess, að við hefðum ekki efni á að hafa forstöðumenn fyrir söfnum okkar, þó að það væri slæmt og mikill skaði, heldur en að halda fram þeirri fjarstæðu, að söfnunum sje eins vel borgið, þó að þau vanti forstöðumenn.

Hæstv. ráðh. spurði, hvers vegna jeg hefði kallað þetta samsteypuembætti „toppfigúru“ og sagði, að þá væru allir yfirmenn „toppfigúrur“.

Já, það er satt, orðið er ljótt. En „toppfígúru“ nefni jeg þann mann, sem er settur yfir svo mikil og óskyld störf, að hann verður að ,viðundri‘ milli þeirra og kraftar hans dreifast svo, að hvergi koma að eiginlegu gagni. En svo mundi hjer fara um þennan yfirmann beggja safnanna, eins og háttv. þm. Dala. (BJ) sýndi fram á. Þyrfti svo að minsta kosti mjög hæfan mann fyrir það safnið, sem yfirmanninum væri síður kunnugt, og jafnvel fyrir þau bæði. En þessu mundi von bráðar verða breytt aftur í gamla horfið. Hæstv. forsrh. mintist á störf við söfn erlendis og taldi, að það verk, sem þessum eina forstöðumanni væri ætlað hjer, væri ekki mikið, í samanburði við stjórn á stórum söfnum þar. Jeg vona, að hann skilji það, að hjer er tvent alls ósambærilegt. Það er ekki stærð eða bindafjöldinn, sem mestu veldur um vandann að stjórna safni, og jeg efast ekki um, að einn maður gæti vel stjórnað safni, sem hefði eins mörg númer og þessi tvö söfn eiga. En það sem erfið leikunum veldur, er, að hjer er um tvö óskyld söfn að ræða. Jeg tek dæmi. Það er auðveldara að kenna 20 mönnum sömu fræðigrein heldur en 3 sína greinina hverjum. Eins er um söfnin. Það er ekki stærðin, sem veldur, heldur það, að þau eru ólík, eins og sýnt hefir verið. Jeg sný því ekki aftur með það, að ófært er að leggja niður skjalavarðarembættið, eins og meiri hl. leggur til.

Jeg sagði ekki beinlínis, að það ætti að fara illa með þjóðskjalavörðinn; en hæstv. forsrh. ætti að geta skilið, að þegar maðurinn er búinn að verja miklum hluta æfi sinnar í þágu svona embættis, og slíkt frv. kemur fram, sem gengur út á það, að starfið sje ekki merkara eða meira en það, að það sje mátulegt aukastarf fyrir annan mann, þá felst í því hin megnasta lítilsvirðing við starf hans. Hæstv. forsrh. vildi ekkert leggja upp úr reynslunni. Það, sem sker úr um þetta mál, er þó einmitt það, hvernig söfnunum vegnaði undir sameiginlegri stjórn áður og hvernig þeim hefir farnast nú, síðan þau voru aðskilin.

þá er að ræða um það, sem háttv. frsm. meiri hl. (MG) hjelt fram, að sameina aftur bæði söfnin undir eina stjórn. Og held jeg því fram, að það muni aðeins verða til þess, að skipaður verði maður fyrir annað safnið, og venjul. frekar bókasafnið, af því það er stærra; og kemur þá að því, sem jeg sagði, að Þjóðskjalasafnið verði haft í seli. Þá sagði háttv. frsm. meiri hl., að minni hl. hefði talið þessi safnstörf jafnfjarskyld og störf presta og lækna o. s. frv. En jeg sagði þetta ekki, heldur hitt, að ef ekki þyrfti að færa betri rök fyrir sínu máli en meiri hl. gerði, þá mætti eins halda fram sameiningu þessara embætta eins og sameiningu þjóðskjalavarðar- og landsbókavarðarembættanna, af þeirri einföldu ástæðu, að á þann hátt má öllu halda fram.

Áður en jeg lýk máli mínu vildi jeg skjóta þeirri spurningu til hæstv. forsætisráðherra, hvort ekki væri rjett, að eftirlit væri haft með því, að safninu væri stjórnað lögum samkvæmt, áður en farið væri að hugsa um að koma þessari breytingu á. Í lögum um stjórn Landsbókasafnsins, frá 1907, er það ákvæði, að nefnd manna, skipuð fulltrúum embættaskólanna, mentaskólans og skjalavarðar, skuli vera með í ráðum um bókakaup til safnsins og fleira. En þessu ákvæði hefir ekki verið fylgt síðan 1919. Það má því kallast að seilast um hurðina til lokunnar að fara að koma með þetta frv. nú, áður en nokkuð er gert til þess, að farið sje eftir þeim reglum um meðferð safnsins, sem nú gilda.