05.04.1923
Neðri deild: 34. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í C-deild Alþingistíðinda. (1952)

79. mál, aukauppbót vegna sérstakrar dýrtíðar

Jakob Möller:

Jeg vildi aðeins gera grein fyrir, af hverju jeg hefi að nokkru leyti gengið frá till. minni um upphæð uppbótarinnar.

Jeg hafði búist við, að embættismenn í Reykjavík krefðust að halda dýrtíðaruppbótinni óbreyttri þetta og næstu ár, eins og hún hefir verið á undanförnu ári. Það er öllum mönnum vitanlegt, að verkalaun og vinnulaun öll hjer í Reykjavík hafa lítið sem ekkert lækkað enn sem komið er. Hæstv. stjórn hefir sjálf nýlega átt þátt í samningum milli vinnuveitenda annars vegar og einnar stjettar vinnuþiggjenda þessa bæjar, og studdi þá kröfur verkamanna fram til sigurs. En embættismenn og allir aðrir opinberir starfsmenn ríkisins, sem búsettir eru hjer í Reykjavík, hafa því fulla ástæðu til að vænta þess, að stjórnin sjái hag þeirra eins vel borgið og hún hefir látið sjer ant um hag verkamanna. Stjórn og þing eru þess utan vinnuveitendur embættismannanna.

Þar eð dýrtíðaruppbót þessa árs er nú áætluð 80% — þannig reiknuð í fjárlögunum — þá hefði verið full ástæða fyrir fjárhagsnefnd að taka þetta til greina, og aukauppbótin hefði ekki mátt vera minni en 20%. Við þetta var ekki komandi hjá nefndinni, og varð jeg því að sætta sig við þessa 15%.

Jeg hygg það óþarft að fara að gera háttv. þm. nánari grein fyrir ástæðum embættismanna eða sanngirni þessarar uppbótar. Þeim mun flestum vel kunnugt um kjör þeirra, eða t. d. hvernig hinir lægst launuðu embættismenn ættu að geta komist af með um 100 kr. á mánuði. Það er vitanlegt, að sumir starfsmenn ríkisins eiga við lakari kjör að búa en vinnufólk hjer í bænum. Mætti þar til dæmis bera saman kjör sumra símastúlknanna og vinnukvenna hjer í bæ.

Beri maður saman kjör hinna lægra launuðu embættismanna við iðnaðarmannastjettina til dæmis, mun fljótt koma í ljós, að iðnaðarmennirnir eru að miklum mun betur settir. Það nægir t. d. að nefna prentara þessu til sönnunar; en það voru kaupkröfur prentaranna, sem stjórnin studdi nýverið.

Jeg þykist sjá, að það muni þýðingarlítið að rökræða þetta mál mikið lengur og að forlög þess muni vera fyrirfram ákveðin, enda þótt jeg viti eigi, hver þau eiga að verða, en vona þó, að frv. verði samþykt. Ef sanngirnin ræður, verður það samþykt, en fari atkvæðagreiðslan ekki eftir því, sem menn játa vera sanngjarnt, þá verður það væntanlega áætlað gjaldþol ríkisins, sem ræður atkvæði þingmanna. En áætlunin þolir þessa hækkun uppbótarinnar. í sambandi við þetta frv. hefir komið fram tillaga um húsaleigustyrk til starfsmanna ríkisins. Get jeg vel tekið undir það með háttv. samþm. mínum, 2. þm. Reykv. (JB), að húsaleigustyrkurinn er leiðindaaðferð, og auk þess allerfitt að finna ráð til að yrði rjettlát. Þá má t. d. gera ráð fyrir, að það hafi átt sjer stað, að ýmsir embættismenn hafi selt íbúðarhús sin á stríðsárunum, og ef til vill selt þau vel, og því grætt á því, þótt þeir nú búi við háa húsaleigu, ósannar það ekki, að þeir geti verið allvel stæðir einmitt í þessu efni.

Þeir, sem enn eiga gömul hús, hafa setið af sjer gróða með því að selja þau ekki, og yfirleitt munu embættismenn hafa tapað á dýrtíðarárunum, og eins þeir, sem áttu hús sín sjálfir, og þarf því ekki að láta sjer vaxa í augun hin góðu kjör þeirra, sem nú eiga þó enn þak yfir höfuðið.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það, að dýrtíðin hjer í Reykjavík er alveg sjerstæð, og stafar það ekki af húsaleigunni einni saman; þess vegna er ekki bætt úr vandræðum með því að bæta hana upp sjerstaklega. Það er alveg rjett, sem háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ) tók fram, að öll vinnulaun eru tiltölulega hærri hjer í bænum en annarsstaðar á landinu, og það hefir afarmikla þýðingu fyrir afkomu manna, hversu há almenn verkalaun eru. Hefir þetta þá afleiðingu, að dýrtíðin er meiri og á annan veg í Reykjavík en í öðrum landshlutum, og því full ástæða til, að dýrtíðaruppbótin sje hærri hjer en annarsstaðar. Hins vegar er einnig ástæða til að veita nokkru hærri dýrtíðaruppbót í öðrum kaupstöðum, þar sem dýrtíðin er tilfinnanlegri en annarsstaðar, enda þótt viðast hvar kveði minna að því en hjer.