12.03.1923
Neðri deild: 18. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í C-deild Alþingistíðinda. (1996)

19. mál, vitabyggingar

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Aðfinsla háttv. 2. þm. Skagf. (JS) kemur mjer að vísu ekki á óvart. Þessi varnagli um ákvörðun þingsins í hvert sinn, um fjárupphæðir til vitanna, hefir tvívegis verið athugaður í nefnd: í sjávarútvegsnefnd 1917 og nú í samgöngumálanefnd. Má segja ýmislegt bæði með og móti því skipulagi, að taka vitafjárupphæðirnar árlega í fjárlögin. Hins vegar er samanburðurinn, sem hjer hefir verið gerður milli þessa vitalagafrv. annars vegar og síma- og brúarlaganna hins vegar, ekki rjettur, því að símalögin gera ráð fyrir, að Alþingi ákveði í hvert sinn fjárframlög til símabygginga, en um brúarlögin er það aftur á móti rjett, að þau fá stjórninni einræði um fjárframlögin.

Jeg held nú reyndar, að þessi ákvörðunarrjettur þingsins um fjárframlögin felist í brtt. nefndarinnar á þskj. 80, ef vel er að gáð, og svo hefir nefndin litið á. Till. bindur við borð árafjöldann til vitabygginganna, og þá um leið að miklu leyti þá árlegu fjáreyðslu. Aðalatriðið er hjer það, að láta ekki óþarfan reipdrátt milli sýslna eða sveita hamla framkvæmdum vitabygginganna í þeirri röð, sem rjettast væri og sanngjarnlegast að framkvæma þær, og fyrir það á að vera nægilega girt með frágangi þeim, sem nú er á frv. Hins vegar get jeg ekki um það sagt, hvort nefndin vill taka upp nýjar breytingar á frv. Þetta má bera undir hana af nýju, og komi fram mjög eindregin ósk um það frá deildinni, þá tel jeg líklegt, að hún athugi málið af nýju, þótt hún telji umræddan rjett þingsins sæmilega trygðan með brtt. á þskj. 80.