21.03.1923
Efri deild: 22. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í C-deild Alþingistíðinda. (2037)

96. mál, aðflutningsbann á áfengi

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg vil gera grein fyrir því, hvers vegna jeg get ekki greitt þessu frv. atkv. mitt til 2. umr.

Frv. virðist mjer svo fáránlegt og vanhugsað, að undrum sætir, og skal jeg taka nokkur dæmi því til sönnunar.

Hingað til hefir það ekki varðað við lög, þó maður hafi orðið kendur, ef hann var ekki á almannafæri nje spilti friði annara. En eftir frv. þessu á að sekta hvern, sem þannig hittist, eins þótt í „privat“-húsi sje, eða jafnvel heima hjá sjer, eða vitnast um að hafi verið það. Má þá, eftir ástæðum, sekta manninn strax eða síðar.

Þá er ákvæðið um, að hreppstjórar ákveði sektirnar. Fer þá öryggi að verða lítið í landinu, ef ólöglærðum mönnum skal fengið dómsvald í svo mikilsverðum málum.

Þá er það ákvæði, að hinn ölvaði skuli sæta sektum fyrir hvert brot, er svari vikutekjum hans það ár, er brotið var framið. En jeg er hræddur um, að erfitt verði að finna þær rjettu tekjur, og stundum gæti dregist að ákveða sektina, ef þessu ákvæði ætti að fylgja. Setjum svo, að maður drekki sig fullan í janúarmánuði, þá er ekki hægt að gera út um málið fyr en árið er liðið og hægt verður að reikna út vikutekjur mannsins. (JJ: Þetta er gert á Finnlandi!) Jeg sje ekki hvernig á að rannsaka þetta svo fljótt sem þarf. Svo er annað, og það er, að ofdrykkjumenn sleppa, því þeir hafa oft engar tekjur, og þá er ekki hægt að ákveða þeim neina refsingu. (JJ: Hvað borga þeir núna?).

Þá er það enn, að 2. gr. frv. þessa kemur í bága við lög nr. 25, frá 1915, sem bera í sjer viðurlög við tilbúningi áfengra drykkja. En þetta frv. ber þess hvergi merki, að þau ákvæði ofannefndra laga, sem koma í bága við það, skuli úr gildi numin.

Þá eru viðurlögin samkv. 2. gr. frv. svo há, að engri átt ná. Ef t. d. læknir, sem hefir 10000 kr. tekjur, vill sitja af sjer sektina, þá þarf hann til þess hátt á 6. ár. Ef lyfsali með máske 40 þúsund kr. tekjum yrði brotlegur, entist naumast æfin til þess að afplána refsinguna.

Jeg sje því enga ástæðu til þess, að þingið eyði tíma sínum í að lappa upp á jafnfáránleg lög með því að vísa frv. til nefndar, og teygja með því tíma þingsins.