09.04.1923
Efri deild: 35. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í C-deild Alþingistíðinda. (2048)

123. mál, skipun prestakalla

Flm. (Björn Kristjánsson):

Háttv. 5. landsk. (JJ) sagði, að þingið ætti að hafa það fyrir höfuðreglu, að forðast alla aukningu embætta, er bakaði ríkissjóði útgjöld. Það er alveg rjett hjá háttv. þm., en hjer stendur svo sjerstaklega á, að það er alveg óhjákvæmilegt.

Þá talaði háttv. þm. um, að þetta mál gæti orðið til þess að ýta undir skilnað ríkis og kirkju. En jeg er þeirrar skoðunar, að þess verði langt að bíða. Og tel það alveg frágangssök, að stórir söfnuðir gætu þá haldið sjer saman, nema helst í stærri kaupstöðum. Um það myndu líka verða alllangvinnar deilur, og yrði því langt fyrir þetta hjerað að vera prestlaust þangað til þær væru útkljáðar.

Að hjer sjeu eins mörg messuföll og háttv. þm. gat um, getur vel verið rjett. En hann veit líka, að það er misjafn sauður í mörgu fje og að prestarnir eru mjög misjafnir, og því mjög illa sótt kirkja til sumra þeirra. Er því alls ekki hægt að leggja messuföllin sem mælikvarða á þetta mál.

Þetta hjerað vill fá prest, og finnur sárt til þesarar skiftingar, því að hún gerir söfnuðunum nær því ókleift að ná í prestsþjónustu; virðist það óhjákvæmilegt að láta prestakallið halda sjer.

Þá hjelt háttv. þm. (JJ) því fram, að prestarnir hjer gætu þjónað upp frá, af því að nóg væri um ferðir. En jeg er ekki viss um, að þær ferðir verði svo haganlegar, að þær verði altaf, þegar prestsins er þörf.

Er þetta því ekki hægt, nema ef um reglubundnar ferðir væri að ræða. En hjer stendur einmitt ekki svo á.

Hvað snerti það, að þetta gefi fordæmi, þá er því til að svara, að svo er alls ekki, því að hjer eru hvergi dæmi þess, að einn söfnuður sje 12 þúsund manns, sem aðeins skiftist á tvo presta, eins og hjer í Reykjavík; getur því ekki verið hjer um fordæmi að tala.

Að öllu þessu athuguðu sje jeg ekki aðrar leiðir en að prestakallið fái að halda sjer framvegis eins og það hefir verið hingað til.