17.04.1923
Efri deild: 42. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í C-deild Alþingistíðinda. (2061)

123. mál, skipun prestakalla

Jónas Jónsson:

Aðeins lítil athugasemd. Meining mín með till. var sú, að gefa þeim mönnum, er vilja spara á þessu, tækifæri til þess að athuga málið frá þessari hlið.

Viðvíkjandi spaugi hv. frsm. (JM) skal jeg taka fram, að jeg álít það ekki meiri móðgun fyrir Mosfellssveitarmenn, þó þeim væri fenginn sami prestur og Kleppsbúum, heldur en að söfnuðir hjer í Reykjavík og í Hafnarfirði hafa notað sama prestinn og gegnt hefir á Kleppi. Það er ekki meiri smitunarhætta heldur en að menn geti orðið líkþráir vegna þess, að Haraldur prófessor Níelsson hefir prjedikað í Laugarnesi samhliða því, sem hann hefir haft kenslu í háskólanum og söfnuð hjer í bænum. Þetta er ekkert spaug. Annaðhvort er, að menn vilja spara eða spara ekki. Háttv. allshn. hefir auðsjáanlega enga löngun til að fylgja kjörorði því, sem hæstv. forsrh. gaf í sinni fyrstu ræðu í fyrra.

Ef þessi upphæð, 1000 kr., er ekki nema fyrir ferðakostnaði, þá eru dýrar ferðir þeirra Mosfellssveitarmanna, sem eru hjer daglega á ferð. Þeir ættu þá að hafa fleiri þúsund króna tekjur á ári.

Presturinn yrði heldur ekki upp frá á hverjum sunnudegi. Í mörgum kirkjum er ekki messað oftar en 2.–4. hvern sunnudag, og fólk sættir sig við þetta. Það ætti Mosfellssveitarmönnum líka að nægja. En það eru sjálfsagt til þeir menn, er álíta, að svo lítið sje til af embættum hjer á landi, að ekki væri úr vegi, þótt einu laufi væri bætt á þann meið.