24.03.1923
Efri deild: 26. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í C-deild Alþingistíðinda. (2078)

102. mál, bankaráð Íslands

Flm. (Jónas Jónsson):

Svo sem kunnugt er, þá höfum við Íslendingar haft eitt bankaráð. Er það bankaráð Íslandsbanka.

Nú höfum við samt sem áður 3 banka, Íslandsbanka, Landsbankann og veðdeild Landsbankans, sem líka er einskonar banki. Auk þess höfum við marga sparisjóði víðs vegar um landið, og í útsýn nýjan eða nýja banka.

Frumkvæðið að þessari hugmynd, að setja á stofn slíkt bankaráð, sem hjer er gert ráð fyrir, er komið frá einum starfsmanni við Landsbankann, og kom fram fyrir 2 árum, þótt ekki væri opinberlega. Áleit hann, að bönkunum væri mikill styrkur að svona löguðu ráði, er skipað væri fulltrúum atvinnuveganna og bankarnir gætu ráðfært sig við.

Þetta frv. gefir ráð fyrir einu bankaráði, og sje fjármálaráðherra formaður þess. Hafi það yfirumsjón með öllum bönkum og sparisjóðum hjer á landi, og marki aðallínurnar í starfsemi þeirra.

Ef frv. þetta verður að lögum, nær það þó ekki fyrst um sinn til Íslandsbanka, sem hefir bankaráð, skipað eftir sjerstökum lögum. En þar sem landið hefir mikilla rjettinda að gæta í bankanum, þar sem það, auk annars, hefir lagt mikið fje í hann, þá er ekki ólíklegt, að skjótt þætti hagfeldara að fella hann undir sömu ákvæði og aðra banka, og yrði þá núverandi bankaráð lagt niður.

Þegar stofna skal nýtt bankaráð, virðist rjettast að snúa sjer til atvinnufjelaga landsins. Þessu ráði hefir líka verið beitt. Landsstjórnin hefir einatt leitað ráða til atvinnufjelaganna, þegar hún hefir haft til framkvæmda eitthvað, er snertir atvinnu eða verslun landsins. Hjer er því aðeins gengið lengra fram á þessa braut, þar sem farið er fram á það, að stjettafjelögin ráði aðalstefnu og starfi peningabúðanna. Þá gæti það orkað tvímælis, hvernig skifta ætti þessu starfi milli atvinnufjelaganna.

Hjer er sú leið farin, að skifta því jafnt milli sveita og kauptúna, tveir fyrir hvorn aðalaðilja. Sýnist rjett að gera þessa tvo aðalþætti íslensks þjóðlífs jafnrjettháa. Fremur gæti þó verið ágreiningur um það, hvernig skifta ætti innbyrðis. í kauptúnunum er lagt til, að það sjeu tvær aðalstjettirnar, sem skipi sinn fulltrúan hvor: vinnuseljendur og vinnukaupendur. En fyrir sveitirnar sjeu það Búnaðarfjelagið og Samband Íslenskra samvinnufjelaga, sem skipi fulltrúana.

Þá er gert ráð fyrir því, að bankaráðið starfi kauplaust. Fordæmi frá bankaráði Íslandsbanka sýnir, að illa hefir gefist að hafa bankaráð launað af bankanum. Bankaráð Íslandsbanka hefir oftast haft lítið að starfa, en töluvert há laun.

Hjer er gert ráð fyrir því, að það sje borgaraleg skylda að taka sæti í ráðinu, eins og menn nú t. d. eru skyldir að taka sæti í bæjarstjórn. Auðvitað yrðu þau fjelög, sem mennina kjósa, sjálfráð, hvort þau launuðu þá eða ekki.

Þörfin fyrir, að lánsstofnanir hjer á landi starfi í samræmi er augljós. En mikið hefir brostið á, að svo hafi verið. Jafnvel þeir, sem álíta, að samkepni sje allra meina bót, eru óánægðir með samkepni á þessu sviði, eða milli bankanna. Óskir velflestra landsmanna munu því mætast á þessu sviði, bæði þeirra, sem óska eftir sem mestu samræmi í störfum þjóðarinnar, og eins hinna, sem halda á lofti samkepninni.

Eins og nú er, þá stendur annar aðalbankinn höllum fæti, eða er í hálfgerðum vandræðum. Veðdeildin svo að segja getulaus og megnt ólag á ýmsum sparisjóðum úti um landið. Jafnvel eru sumar sveitir í mesta vanda staddar með sparisjóði sína. — Þá hefir og komið frv. fram í Nd. um stofnun nýs banka, og sýnist vera talsverður áhugi fyrir því máli þar. Sýnist því varla geta orkað tvímælis um það, að þörf sje á því að koma heildarskipulagi á allar þessar lánsstofnanir, þannig að þær starfi í sem bestu samræmi við þarfir atvinnuveganna.

Óhætt er að fullyrða, að hjer er jafnt um hagsmuni atvinnuveganna sem bankanna að ræða. Og telja má víst, að töp bankanna hefðu eigi orðið jafnstórfeld og komið er fram, hefðu fulltrúar atvinnuveganna haft hönd í bagga um það, hvernig lánin hefðu verið veitt.

Þar sem frv. þetta er fjármálalegs eðlis, vil jeg leyfa mjer að óska þess, að það, að umr. lokinni, gangi til fjhn.