28.04.1923
Efri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í C-deild Alþingistíðinda. (2083)

102. mál, bankaráð Íslands

Frsm. meiri hl. (Guðmundur Ólafsson):

Fjhn. hefir ekki að öllu leyti orðið samferða í þessu máli. Meiri hl. lítur svo á, að hjer sje um mikilsvert mál að ræða, þar sem er yfirumsjón með bönkum og sparisjóðum í landinu og að koma starfsemi þeirri sem tryggilegast fyrir. Hann hefir því komið fram með rökstudda dagskrá, þar sem hann vill vísa málinu til stjórnarinnar, til undirbúnings fyrir næsta þing. Minni hl. vill aftur á móti ekki skora á stjórnina að undirbúa málið fyrir næsta þing, og virðist því vera sæmilega ánægður með núverandi fyrirkomulag.

Þó segir minni hl. reyndar í nál. á þskj. 450, að holt muni vera að stofna konunglegt lífstíðarembætti fyrir 1 — eða jafnvel 2 — „kritiska“ endurskoðendur, sem sjerstaklega rannsökuðu rekstur banka og sparisjóða. Þetta sýnir, að þeir álíta, að ekki þurfi að flýta aðgerðum í þessu efni. Því jeg hygg, að eitthvað muni nú þurfa að laga þessa „kritisku“ endurskoðendur áður enn þeir verða færir um að „ala“ upp menn til að líta eftir sparisjóðunum, eins og þeir ætlast til. Og talsverðan tíma mundi það uppeldi taka til að geta komið að gagni.

Um bankaráð Íslandsbanka sjá þeir auðvitað ekki, að neinu megi breyta. En meiri hl. nefndarinnar getur ekki fallist á þá skoðun.

Þá skil jeg ekki í því, hvernig hv. minni hl. nefndarinnar getur komist að þeirri niðurstöðu, að veðdeildin og veðbankinn geti fullnægt lánsþörfum bænda. Önnur þessi stofnun, veðdeild Landsbankans, lánar mjög lítið eða ekkert til jarðræktar, en aðallega til húsabygginga hjer í bænum, og ríkisveðbankinn er enn ekki kominn á fót. Það verður því ekki neinn tiltakanlegur peningaaustur, sem bændur eiga að láta sjer nægja, eftir þeirri skoðun.

Vil jeg svo leggja til, að hv. deild samþykki dagskrána.