07.05.1923
Neðri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í C-deild Alþingistíðinda. (2147)

58. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. meiri hl. (Magnús Guðmundsson):

Það var gott, að hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) leiðrjetti misskilning minn á því, hvað búið hefði í huga hans. En sammála er jeg honum ekki. Það getur vel verið, að ýmsir kjósendur, sem langt eiga að, kynnu að koma kvöldið fyrir kosningadaginn á næsta bæ við, og gætu þeir þá verið komnir á kjörstaðinn í býti daginn eftir. Á sama hátt gætu og aðrir aðeins farið til næsta bæjar á bakaleiðinni kosningadagskvöldið, til að gista þar um nóttina. Það er því engin fjarstæða að lengja tímann á þann hátt, sem þm. Dala. (BJ) leggur til í varatill. sínum. Hitt er annað mál, að brtt. geta ekki komist í gegn, ef frv. er felt. Vil jeg skjóta því til hv. flm., hvort ekki muni rjett að taka málið út af dagskrá nú og að hann komi svo fram með sjálfstæðar till. þessa efnis. Auðvitað er ekki útsjeð um það, að frv. komist ekki í gegn, og verður hann að ráða við sig, hvort hann vill hætta á það eða ekki.