30.04.1923
Neðri deild: 53. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í C-deild Alþingistíðinda. (2158)

149. mál, löggiltir endurskoðendur

Flm. (Bjarni Jónsson):

Jeg dáist enn að þessum hv. þm. (ÞorstJ). Hann segir, að jeg hafi tekið alt aftur. Það var af því, að hann nefndi sjerstaklega launin árið 1919, og jeg sagðist ekki hafa haft þann reikning fyrir mjer; þess vegna væri sú tala ósönnuð. En það eru annars ósannindi, að jeg hafi afturkallað nokkuð. Þetta sýnir aðeins, hvað hv. þm. (ÞorstJ) er vitur í ályktunum sínum; hann slær því föstu, að allar tölumar sjeu áætlaðar, þó að jeg hafi sagt það um þessa einu tölu. Jeg hjelt, að honum gengi aðeins gott til, að verja vin sinn, skólastjórann. En honum ferst allklaufalega, er hann segir, að jeg hafi ráðist að látnum manni. Hvernig fer hann að því að yfirfæra ræðu mína á hann? Það er einmitt þessi hv. þm. (ÞorstJ) sjálfur, sem er að reyna að klína þessum ávirðingum Sambandsins á fyrverandi forstjóra þess. Mjer datt ekki Hallgrímur Kristinsson í hug. Jeg beindi miklu frekar ræðu. minni til skólastjóra Samvinnuskólans, Jónasar Jónssonar; og hann hefir ekki yfir neinu að kvarta. Hann hefir ráðist að mjer í hv. Ed., og vildi jeg óska, að hann hefði átt sæti í sömu deild og jeg.

Annars þarf þessi hv. þm. (ÞorstJ) ekki að standa á milli okkar; hann er ekki maður til þess. Hann þarf ekki að láta eins og hæna á eggjum, þó að minst sje á Sambandið og aðeins af góðum huga varað við að gera það, sem rangt er og óheppilegt fyrir almenning.

Það eru örþrifaráð hv. þm. (ÞorstJ), þegar hann er að verja vin sinn, skólastjórann, að koma þá öllum sökum Sambandsins yfir á dáinn mann.