06.04.1923
Neðri deild: 35. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í C-deild Alþingistíðinda. (2196)

30. mál, stjórnarskipunarlög

Bjarni Jónsson:

Jeg hefi heyrt það borið fram fyrir því frv., sem hjer liggur fyrir til breytinga á stjórnarskr., að það væri til sparnaðar. Jeg hafði hugsað mjer, eftir undanfarandi margra ára baráttu um stjórnarskrána, að hún mætti bíða nokkur ár, meira að segja til 1940, þegar sambandslögin verða athuguð. — En þó að breyting á stj.skr. væri nú ekki látin bíða svo lengi, þá mátti að minsta kosti fresta henni fram yfir 1930, og láta stjórnarskr. óhreyfða þetta árabil.

Tillögur þær, sem fram hafa komið til breytinga, einkum þær, sem fyrst komu fram, eru alóþarfar; en sumar af tillögum hv. þm. Str. (MP) eru góðar og hafa áður komið til athugunar í þinginu; en fyrst þær voru ekki teknar þá til greina, er ólíklegt, að þær komist fram nú. Og fyrst farið var að bera fram aðrar breytingar á stjórnarskr., þá var ekki nema sjálfsagt, að þessar, sem rjettlátari eru, kæmu líka. Hvað ætla þeir svo að spara með þessu? Ein ráðherralaun eða því líkt, í hæsta lagi. Og hvað kostar það, ef stjórnarskrárbreyting verður samþykt? Kosningar fara fram hvort sem er, munu þeir svara. En það getur enginn látið sjer detta í hug, að nýkosið þing gangi að þessu breytingabraski, sem þessi deyjandi samkunda kann að samþykkja. Svo þarf aftur nýjar kosningar, og hefi jeg reiknað með, að þannig mundi ganga að minsta kosti 5 sinnum — koll af kolli, — eftir fyrri ára reynslu. Síðast þegar gengið var frá stjórnarskránni var það aðeins tilviljun, að samkomulag náðist.

Það er litið svo á af þingmönnum, að þingið sje óþarflega langt, og þó játa þeir, að nú sjeu hinir mestu vandræðatímar, sem yfir þjóðina hafi komið á síðari árum. Er þá lausnin sú, að reka þingmenn heim? Að forðast að þingið sitji til þess að hjálpa þjóðinni út úr vandræðunum og segja í öðru orðinu, að á þeim tímum, sem nú eru, sjeu þingmenn óþarfir og að þeir geri ekkert, — það er dálaglegur vitnisburður, sem þessir þingmenn gefa sjálfum sjer með því. Jeg vil ekki gefa sjálfum mjer þann vitnisburð. Jeg vil ekki sitja heima auðum höndum og horfa á aðgerðaleysi og ólag þeirra, sem með völdin fara. Jeg tel mig geta gert þjóðinni meira gagn á þingi en heima.

Hvað kostar svo hver kosning? Það, sem greitt er af opinberu fje, mun láta nærri 7–10 þús. krónum til kosningakostnaðar. En þar með er minst talið. Jeg hefi í útreikningi mínum bygt á, að í landinu væru 30 þús. alþingiskjóendur; en búast má við, að ekki taki nema helmingur kjósenda þátt í kosningum. Jeg hefi reiknað þeim 15 þús. dagsverk til kosninga, dagsverkið hefi jeg reiknað samkvæmt meðalverði allra meðalverða á kr. 9.80. Vera má, að það lækki á næsta 5 ára bili, en jeg hefi lagt riflega í. Þó það geti ekki talist, að menn eyði nema einu dagsv. til kosninga í kaupstað — og tæplega það — þá verður það meira víðast í strjálbygðum sveitum, þar sem allir þurfa að fara af heimilinu á kjörstað, og jafnvel skiftast á að vera heima. Jeg held því, að ekki sje hægt að telja þennan reikning óvarlegan, þvert á móti; jeg geri ráð fyrir að reiknað sje með lægstu tölum. Samkvæmt þessu yrði kostnaður við almennar kosningar alls 150 þús. kr. Ef til vill má ráðast á einhverja af þessum reikningsliðum. En þá er enn eitt, sem jeg gæti talið á móti og bætt við, en það er bifreiðakostnaður í bæjum við flutning kjósenda á kjörstað, og jafnvel í sveitum; svo er tímatöf þingmannaefna og annara, kaup „agitatora“ o. s. frv. Þannig kemur ýmislegur aukakostnaður; svo að þó jeg reikni kaupið hátt, þá er mjer óhætt að segja, að mínar tölur sjeu ekki nema 1/3–1/2 af þeim raunverulega kostnaði.

Fimm aukakosningar kosta því alls, eftir reikningi mínum, 750 þús. kr. Væri sú upphæð látin standa á vöxtum með 6% til 1940, mundi hún þá verða 2025000 kr. Þetta er nú allur sparnaðurinn, sem á að koma.

Frá þessu mundu einhverjir vilja draga þingkostnað annaðhvert ár og ein ráðherralaun. Þessum frádrætti hefðu flm. breytinganna átt að gera ráð fyrir; en jeg geri það ekki. Á meðan þrefið um stjórnarskrána stendur yfir, má búast við þingi á hverju ári. Auk þess, sem hjer hefir verið talið, verður hiti og ófriður um alt land, sem sprengir ýms nauðsynjamál, af því að þau dragast að óþörfu inn í deilurnar. Þetta tel jeg með afleiðingunum. En þeir ættu að taka það til athugunar að stofna ekki að þarflausu til margra ára ófriðar um stjórnarskrána.

Jeg hefi ekki enn talið það til, að rent er blint í sjóinn um áhrif og afleiðingar af þessum breytingum. Í raun og veru yrði einn ráðherra einvaldur um fjármálin. Jeg hefi ekki reiknað kostnaðinn, sem af því leiðir, ef tekið yrði upp aftur tveggja ára fjárhagstímabil. Það fer alt eftir því, hvernig tekst að velja þennan eina ráðherra, sem í rauninni verður hið eina fjárveitingavald. Því að hvað þýða tveggja ára fjárlög, þegar einvaldsráðherra vantar fje? Eina ánægjan af þessu stjórnarfyrirkomulagi væri þá sú, ef tækist að finna góðan einvald, því að það telur háttv. 1. þm. Skagf. (MG) besta fyrirkomulagið. En þjóðfulltrúaskipulagið hefir verið tekið upp í heiminum vegna þess, að einveldið hefir gefist illa. Fulltrúunum líðst ekki lengi óreiðan, og auðveldara er að losna við þá heldur en einvaldinn, ef þeir gefast illa; og þá fær þjóðin sjer aðra nýja í staðinn.

Það eru yfirráð þjóðfulltrúanna yfir fjenu og meðvitundin um að þjóðin beri sjálf ábyrgð á meðferð fjárins, sem alt veltur á. Það er sú heilbrigða fjárglöggvi. En gömul reynsla okkar hefir sýnt, að lítið verður úr henni, þegar fjárlög eru sett til tveggja ára í senn. En sú fjeglöggvi, sem telur aurana og hundruðin til listamanna, fátækra námsmanna og sjúkra, ætti að vita, að það er glapræði og dýrt spaug að fá einum manni í hendur fjárvaldið í tvö ár, eða svo mörg, sem þingmönnum kemur saman um.

Eitt er það, sem þarf að vera ljóst fyrir mönnum, að meira þarf til heldur en að setja lögin. Þjóðin þarf að hlýða þeim og bera virðingu fyrir þeim. En til þess að hún geri það, þurfa þingmennirnir sjálfir að virða sín eigin verk, en vera ekki sífelt að hræra í þeim eins og griðka með þvöru í grautarpotti. Þessi árlega grautarþvara þingsins er það, sem orsakar og eykur alla ólöghlýðni í landinu. Ef stjórnarskráin sjálf fær ekki einu sinni að vera í friði, eftir aðeins fjögra ára reynslu, án þess að hrært sje í henni, þá er ekki von að virðing sje borin fyrir lögum hjer í landi.

Hvað gera Englendingar í þessum efnum? Hversu langt er síðan að „magna charta“ var gefin þjóðinni. Og þó að þeir síðan hafi komið fram nauðsynlegum breytingum á sínu stjórnarfari, þá hafa þeir þó sjeð grundvallarlög sín í friði, og eigi leyft sjer að hafa þau að leiksoppi á hverju ári.

Þessar stjórnarskrárbreytingar, með þinghald annaðhvert ár, eru einhverjar þær fráleitustu tillögur, sem komið hafa fram á seinni árum. Reynsla síðustu ára, sem þinghald var annaðhvert ár og tveggja ára fjárlög, sýnir ljóslega, að þetta var fullerfitt. Allir vita, að stjórnin þurfti þá oft að fara með fje án lagaheimilda; hún gat ekki annað. Þegar þannig reyndist, að yfirlit gat ekki fengist yfir fjármálin um tveggja ára bil, þá var hallast að þinghaldi á hverju ári.

Nú lúka allir upp einum munni um, að þessir tímar sjeu hinir alverstu neyðartímar. Þá á ekki að fækka þingunum, eins og hvatt er til með þessum breytingum, heldur lengja þau; þá draga þau úr vandræðunum.

Sá tveggja milj. kr. kostnaður, sem leiðir af endurnýjaðri stjórnarskrárbaráttu, fer bókstaflega í súginn; og væri því fje betur varið til þess að lengja starfstíma þingsins til að styðja stjórnina í því að fara betur með fjármálin og gefa sjer lengri tíma til að vinna að málunum.

Slík vinnubrögð, sem þetta frv. ber vott um, eru vond vinnubrögð og dýr. Hjer er unnið illa vegna tímaskorts, til stórskaða fyrir þjóðina. Það tekur oft tvö ár að koma á þarflegum lögum, sem hægt hefði verið að ljúka við á einu þingi, ef tveimur vikum hefði verið bætt við þingtímann, og varið til löggjafarstarfs.

Þessi eilífi sparnaðarósparnaður, sem hjer er hafður í frammi, ásamt þeim sparnaðarjarmi, sem háður er árlega hjer í þinginu, er til vandræða og minkunar fyrir þjóðina.