05.04.1923
Efri deild: 32. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í C-deild Alþingistíðinda. (2272)

116. mál, friðun á laxi

Sigurður Jónsson:

Jeg skal taka það fram, að jeg skil betur eftir þessar skýringar, hver stefna þessa frv. er. Eftir því, sem háttv. frsm. (JJ) sagði, eru ástæðurnar fyrir því aðallega tvœr. Fyrst sú, að hindra ekki göngu laxins upp í árnar, en önnur sú, að eigendur að veiðiám geti komið á hjá sjer lögbundnu skipulagi með laxaklak. Hvernig jeg muni líta á fyrra atriðið, get jeg ekki sagt, fyr en jeg hefi athugað núgildandi laxveiðilög, og borið frv. þetta saman við þau. Jeg er vel kunnugur svæði því, er háttv. flm. talar um, og veit að neðst í Laxá hafa verið hafðar kistur lögum samkvæmt. En þrátt fyrir þær, hefir lax gengið alla leið fram í Reykjadalsá, og jafnvel fram í fremstu kvíslar hennar langt fram í heiði.

Jeg get því ekki lagt mikið upp úr fylgiskjali því, er háttv. flm. hefir látið prenta með frv., þar sem mjer er líka enn fremur kunnugt, að um alllangt skeið hefir verið reipdráttur milli þeirra, er búið hafa með ánni. Og einu sinni voru laxakisturnar brotnar niður. Af þessum ástæðum tel jeg litla sönnun í skjali þessu. En hvort ekki mætti gera laxgönguna greiðari upp eftir ánni, gæti komið til athugunar.

Að endingu skal jeg taka það fram, að jeg er hinu atriðinu, um laxaklak, hlyntur. Auðvitað mega lögin ekki gefa tilefni til þess, að þeir, sem ofarlega búa við veiðiárnar, geti orðið sviftir því að ná í sanngjarna hlutdeild af veiðinni. En þá má eigi heldur svifta þá, sem neðar búa, samskonar rjetti. En staðhættir til veiðiafnota eru oft svo afarólíkir, að sama veiðiaðferð getur eigi alstaðar átt við.