17.04.1923
Efri deild: 42. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í C-deild Alþingistíðinda. (2339)

101. mál, hæstiréttur

Jónas Jónsson:

Jeg vildi gjarnan fá skýringu á greinargerð allshn. Mjer virðist það sem sje ekki ljóst, hvers vegna hv. nefnd vill vísa máli þessu til hæstv. landsstjórnar, þar sem frv. fer fram á sparnað, og beinan sparnað að því er snertir laun eins embættismanns.

Jeg vildi enn fremur beina þeirri spurningu til hæstv. forsrh. (SE), hvort hann mundi telja sig bundinn við hina eldri þáltill., um að skipa ekki í þau embætti, er losna kunna í hæstarjetti meðan önnur skipun kemur eigi á í málinu frá þingsins hálfu, eða hvort hann mundi líta á þessa þáltill. eins og þáltill. þá um svipað efni, er var til umr. í hv. Nd. í gær. Ef embættin verða veitt, þá álít jeg eigi hægt að koma fram þeim sparnaði, sem annars mætti koma fram. Hefði getað komið til mála að koma fram með brtt. við upprunalega frv. um að lögbjóða skriflegan málaflutning, en jeg sá eigi ástæðu til að koma með slíka brtt. nú, þegar háttv. nefnd vill vísa málinu til landsstjórnar.