05.05.1923
Neðri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í C-deild Alþingistíðinda. (2358)

31. mál, gjaldeyrislántaka

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Jeg hefi litlu við að bæta álit nefndarinnar og ræðu hv. frsm. (MG). Stjórnin mætti á fundi hjá fjhn., og er rjett frá því skýrt í nál.

Háttv. 2. þm. Reykv. (JB) ljet í ljós, að ef dagskráin yrði samþ., þá væri viðurkent og fullnægt því, sem hann hjeldi fram, að stjórninni væri heimilað að taka gengislán. Það álít jeg líka; það er vitanlegt, að stjórnin á að gera það sem hún getur til þess að halda uppi gengi krónunnar. Og jeg er samþykkur hv. frsm. (MG) um, að mestu varði, að gengið sje í jafnvægi.

Stjórnin lítur svo á, að hún hafi lántökuheimild samkvæmt því, sem getið er um í dagskrártill. nefndarinnar, og það er því hvatning til hennar um, að taka lánið því aðeins, að henni þyki brýn ástæða til þess, og þá með þeim takmörkunum og skilyrðum, sem dagskráin getur um.