20.03.1923
Neðri deild: 24. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í C-deild Alþingistíðinda. (2441)

86. mál, mælitæki og vogaráhöld

Eiríkur Einarsson:

Jeg hefi ekki fylgst eins vel með í umræðum um þetta mál eins og skyldi, og bið afsökunar á því, en jeg vildi ekki láta undir höfuð leggjast að lýsa því yfir, að jeg er þessu frv. samþykkur í öllum höfuðatriðum þess, enda þótt jeg álíti, að orðalag þess sje víða eigi eins ítarlegt sem æskilegt væri, einkum að því er lýtur að tryggilegum og löglegum frágangi á þeim hlutum, er um ræðir og jeg tel miklu skifta að sje í lagi, sem sje löggilding allra mælitækja. Þegar litið er á það, að svo er til ætlast, að lögreglustjórar eða sýslumenn taki að sjer þessi verk, og það skín víða í gegn í frv., að þetta eftirlit megi þeir fela öðrum (hreppstjórum), þá má af því draga þá ályktun, að eftirlitið geti orðið allmisjafnlega nákvæmt. Það liggur og á lausu, hvort hjer er um innlend eða útlend tæki að ræða; álít jeg að oft sje hið innlenda smiði ekki eins nákvæmt, og því muni ekki eins auðvelt að ganga úr skugga um, að þau tæki sjeu rjett. Hygg jeg svona lagað eftirlit geti orðið til þess, að tækin verði ónákvæmari og lakari. Lögreglustjórar eru nú ekki margir í landinu og við því búið, að fela verði eftirlitið ýmsum öðrum, og ef til vill misjafnlega hæfum mönnum. Jeg er samþykkur því að leggja niður þessa dýru stofnun, en vil tryggja betur eftirlitið en hjer er gert ráð fyrir, og álít rjett, að í þetta frv. væru sett ákvæði, er feli í sjer reglur um yfireftirlit, eða yfirskoðun á gerðum lögreglustjóra og annara löggildingarmanna, og álít það eftirlit hvergi betur komið en í höndum stjórnarráðsins, eða með öðrum orðum, hjá landsstjórninni.

Þrátt fyrir þetta, að þau ákvæði yrðu sett í lögin, að bæði kaupendur og seljendur gætu skotið ágreiningsmálum um vogaráhöld undir úrskurð stjórnarráðsins, ætti samt sá sparnaður, sem af niðurlagning þessarar stofnunar leiðir, að geta notið sín að mestu.

Jeg vona að hv. deildarmenn hafi skilið, hvað jeg á við, að jeg álít það mikils vert öllum almenningi, að vel og tryggilega sje frá þessum málum gengið, ef óánægja kynni að koma upp einhversstaðar; álít ekki nóg gagnvart almenningi að leggja niður þessa stofnun, eins og frv. gerir ráð fyrir, nema vel sje um rjett allra hlutaðeigenda búið, auk sparnaðarins. Og án alls lasts um kaupmennina er þar vitanlega misjafn sauður í mörgu fje, og altaf til í landinu „Bátsenda pundarar“, og nauðsynlegur lagarjettur og reglur, er tryggi viðskiftaöryggi í landinu.