24.02.1923
Neðri deild: 5. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í C-deild Alþingistíðinda. (2480)

4. mál, embættaskipun

Forsætisráðherra (SE):

Samþykt þingmálafundarins í Dalasýslu hefir ekki breytt skoðun stjórnarinnar í þessu máli. Auðvitað er kjósendum þar illa við, ef sýslumaðurinn verður tekinn af þeim einum. En kjósendur háttv. þm. Dala. (BJ) eru svo hagsýnir menn, að þeir myndu ekki setja sig á móti stórfeldum sparnaði, þó að bitnaði á þeim að einhverju leyti. Annars hefðu þeir ekki kosið hv. þm. (BJ) á þing ár eftir ár, eins og jeg vona að þeir haldi áfram að gera framvegis.

Hv. þm. (BJ) mintist á starfsmenn hjer í Reykjavík. Þó að þetta frv. verði samþykt, kemur það alls ekki í veg fyrir, að starfsmönnum ríkisins hjer í bæ verði fækkað, heldur þvert á móti. Ef stjórnin þykist finna verulega sparnaðarviðleitni í þinginu, mun hún reyna að spara og koma með sparnaðartillögur á fleiri sviðum.

Satt er það, að fljótlegri er yfirferðin í stjórnarráðinu heldur en í Árnes-, Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslum, en þó mun þar ráðið stærri ráðum.

Hv. þm. (BJ) sagði þann galla á frv., að það væri sparnaðardraumur, er ekki kæmi til framkvæmda fyr en eftir langan tíma. Það er vitaskuld, að sparnaðurinn kemur hvorki í ljós í ár nje að ári. En ef mönnum er nokkur alvara á að gera embættakerfin einfaldari, verður að byrja einhverntíma og skera í burtu þau embætti, sem komist verður af án, jafnóðum sem þau losna.

Háttv. þm. drap enn fremur á, að of margir starfsmenn myndu við landsverslun, vínverslun o. s. frv. (BJ: Það sagði jeg ekki, heldur, að stjórnin þyrfti að sundurliða mannahald þar). Um þetta hafa og gengið miklar sögur. Jeg skal geta þess, að þegar jeg fór til útlanda og hr. Mogensen með mjer, var það ákveðið til bráðabirgða að byrja skyldi, þegar er hann kæmi heim, á smásölu og stórsölu. í upphafi var allmikið keypt og þurfti því marga menn við afgreiðslu. Þá var búist við, að verslunin skyldi sjálf tappa vín af tunnum, og er allmikil fyrirhöfn við það, en það drógst nokkurn tíma. Síðan var starfsmönnum fækkað um 5, og eru nú 4 menn á skrifstofu, 4 yfir vörubirgðum og 4 í búð og auk þeirra einn vikadrengur. Getur vel verið, að enn megi fækka starfsmönnum í þessari verslun, og vona jeg, að nefnd gefist kostur að athuga það mál. Jeg er því á engan hátt mótfallinn, að einfaldara skipulag komist á verslanir landsins, ef því verður við komið. Síður en svo. En nú getur þingið athugað það.

Þá talaði hv. þm. (BJ) um, að hjer væri verið að rífa niður það, sem gamalt er og íslenskt. Þetta skil jeg ekki. Til þess er ætlast, að sýslumannsembættin verði framvegis. En jeg get eigi talið, að endurminningum þjóðarinnar sje misboðið, þó að þessum embættum sje fækkað, þegar tímar breytast. Jeg er ósamþykkur því dekri við það, sem er gamalt, að ekki megi koma búskap þjóðarinnar í betra horf vegna þess eins. Að tala um virðingarleysi í þessu sambandi er hjegómi, sem jeg er hissa á, að nokkur skuli láta til sín heyra. Má vera, að þvílíkt og annað eins hafi áhrif á kjósendur, en hjer á það alls ekki við, og nær ekki tilgangi sínum.