24.02.1923
Neðri deild: 5. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í C-deild Alþingistíðinda. (2481)

4. mál, embættaskipun

Bjarni Jónsson:

Þar sem hæstv. forsrh. (SE) mintist á virðingarleysi gagnvart því, sem er þjóðlegt, sýndi hann, að hann hefir þetta sjúkdómseinkenni á mjög háu stigi. Jeg get sagt hæstv. forsrh. (SE), að jeg held ekki kjósendaræður á Alþingi, og jeg þori að ganga á móti vilja kjósenda minna, þegar svo ber undir. En í þessu mál er jeg sammála þeim.

Hæstv. forsrh. (SE) taldi það ekki virðingarleysi fyrir endurminningum þjóðarinnar, þó að sýslumannaembættum sje fækkað. Þetta, að hræra öllu í graut, kalla jeg virðingarleysi. Það er ekki eitt, heldur alt, sem þjóðin vill láta minna sig á fortíðina. Hvert hjerað vill halda áfram að vera sjálfstæð heild, svo sem hingað til hefir verið. Þetta er vilji kjósenda, og hann er fullvalda hjer í landi. En að berja sparnaðarlóminn á móti kjósendum, tel jeg óþarfa hetjuskap. Þetta er og draumur, sem ekki rætist fyr en eftir 10–20 ár, og því ekki sparnaður, heldur sparnaðarhjal. Annars er það undarlegt að fækka sýslumönnum eftir því sem fólkinu fjölgar, og steypa saman embættum eftir að störfin eru orðin fleiri og margbrotnari. Á þessari hugsunarvillu hvílir frv.

Hæstv. forsrh. (SE) talaði um, að annað muni hafa vakað fyrir mönnum á þingmálafundinum í Dalasýslu en jeg las upp. Þetta er rangt. Dalamenn vita eins vel og jeg og hann, hvað um var að ræða. Þeir vissu, að nú átti ekki að ráða á þá eina, eins og fyr, heldur og marga aðra. En þeir eru á sama máli sem fyr; vilja ekki, að sýslumaðurinn sje tekinn frá öðrum, fremur en frá þeim sjálfum.

Hæstv. forsrh. (SE) hefir sjálfur verið sýslumaður í Rangárvallasýslu og síðar í Vestur-Skaftafellssýslu. Hann gat þá ekki um leiðindi vegna þess, hve lítið væri að gera. En ef hann ætti að taka einn 3 sýslurnar á Suðurlandsundirlendinu, hygg jeg að þær myndu verða honum ofurefli, og er hann þó duglegur maður.

Jeg hygg, að þessar sparnaðarráðstafanir hæstv. stjórnar muni einungis verða til eyðslu. Frv. þetta mun fráleitt ná samþykki þingsins, en af því spinnast langar umræður og tafir frá öðrum nytsamari þingstörfum.