02.05.1923
Neðri deild: 55. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í C-deild Alþingistíðinda. (2502)

4. mál, embættaskipun

Forsætisráðherra (SE):

Jeg skal fara fljótt yfir sögu. Um grískudósentinn er það að segja, að þó embætti hans hefði verið lagt niður, þá hefði samt sem áður orðið að fá kenslu í þessari grein. Sama er að segja um próf. Guðmund Finnbogason. Embætti hans er stofnað með lögum á hans nafn. Og hverjir eru svo þessir aðrir staðir í kennaraskipun háskólans, sem spara má á? Á ef til vill að fella burt íslenskukennarann eða kennarann í sögu? Jeg býst nú við, að hefði stjórnin komið með frv. í þá átt, þá hefði það tafarlaust verið skorið niður, og mjer þykir mjög eðlilegt, að þjóðin vilji ekki missa þessi embætti. Alt öðru máli er að gegna um sýslumannsembættin. Tímarnir eru svo breyttir, eins og svo oft hefir verið tekið fram, að hagsmunum almennings er í engu misboðið, þó þau verði sameinuð á þann hátt, sem hjer er farið fram á. Það er ómótmælt, að sýslumennirnir hafi of lítið að gera í ýmsum sýslunum, af þeim störfum, sem eðlilegt er að þeir fáist við, en engin hagsýni að láta svo dýra embættismenn eyða tíma sínum í skýrslugerðir og smáskrifarastörf. Og það er engin hagsýni í því, að hafa margar skrifstofur, þegar hægt er að hafa þær fáar. En í litlu þjóðfjelagi verður að kappkosta það, að hafa fáar yfirmannastöður, en skipa þær sem bestum mönnum, og við getum ekki búist við því, að hafa alt af yfirfljótanlegt af mönnum, sem skara fram úr.

Það er heldur ekkert hlægilegt atriði, að sannað er, að sýslumenn, sumir hverjir, geta komist af með hálfan mann sjer til aðstoðar, en þurfa, eins og nú er því fyrir komið, að greiða honum fult kaup. Sjeu laun hans áætluð 3000 kr., þá leiðir af því, að 1500 kr. er kastað á glæ. Þetta verður hv. 1. þm. Skagf. (MG) að skilja, og hann má ekki láta tilfinningar sínar fyrir Skagafirði hlaupa með sig í gönur. Það er þá heldur ekki rjett, að það sem sparist, sje ekki nema munurinn á launum löglærðra og ólöglærðra manna, því verði embættin stærri, þá hafa sýslumennirnir nóg að starfa, og þá er hægt að komast af með eina skrifstofu, þar sem þær eru nú tvær, og munar það ekki svo litlu í starfslaunum, ljósi, hita og húsnæði. Þetta sjer hver maður með heilbrigðri skynsemi, enda mun það reynast svo, að erfitt verður hv. 1. þm. Skagf. (MG) að vinna mál þetta með rökum. Og síst ætti þeim mönnum, sem halda, að hægt sje að spara á einu dósentsembætti alt sem spara þarf í landinu, síst ætti þeim að finnast lítið til um þá upphæð, sem við þetta sparaðist. Hv. 1. þm. Skagf. (MG) ætti samkvæmt sinni röksemdaleiðslu að koma með tillögur um að smækka embættin, og búta t. d. Ísafjörð og Ísafjarðarsýslu í tvö embætti. Því sje ósparnaður í því, að setja saman, þá leiðir af því, að það er hagsýni að kljúfa sundur. En hvað mundi þessi sami hv. þm. (MG) hafa sagt, ef stjfrv. hefði gengið út á það, að kljúfa sundur sýslumannaembættin. Nei, jeg er þess fullviss, að þó frv. verði felt að þessu sinni, þá mun það verða tekið upp síðar og sigra hjá þjóðinni. Og jeg er þess fullviss, að þá verður það sannað mál, að vjer verðum fyrst og fremst að spara með því að fækka embættum og koma þeim í nýtt horf. Viðvíkjandi útreikningunum, sem fram voru færðir, þá hefði jeg óskað þess, að þeir hefðu fremur staðið í nál., því það er eðlilega erfitt að átta sig á margbrotnum tölum í miðjum umræðum. Annars skiftir það litlu máli, hvort reiknað er með tölum frá 1921 eða 1922, aðeins ef samræmisins er gætt. Jeg hefi minst svo oft á skrifstofufje sýslumanna. Jeg get enn bent á, að mjög alvarleg óánægja er hjá sýslumönnum yfir því, hvað lágt það sje. Og jeg hefi áður, hjer við umr., lagt fram í þinginu reikning frá mjög sparsömum og samviskusömum embættismanni, sýslum. í Stykkishólmi, sem sýnir það, að hann hefir orðið að greiða í skrifstofufje um 1200 kr. úr sínum eigin vasa. Sannarlega eiga sýslumenn kröfu hjer, að betur sje farið með þá en þetta. Og úr því laun lækna hafa verið bætt svo stórlega, þá býst jeg við einnig, að rjettmætar kröfur sýslumanna, um skrifstofufje, verði teknar til greina.

Nei, um þetta mál alment stoðar ekkert að reyna að neita því, að hjer sje um stórmikinn sparnað að ræða, um það að leggja niður 9 embætti. Háttv. 1. þm. Skagf. (MG) var eitthvað að tala um hlátur í þessu sambandi. Já, hann getur verið viss um það, að þjóðin mun hlæja dátt, þegar hún heyrir rökfærslur hans í þessu máli, þegar hún heyrir það, að hann og þeir aðrir ýmsir, sem altaf eru látlaust að gaspra um sparnað, þora ekki að horfa framan í hann, þegar komið er með hann í alvöru. Nei, svo sannarlega segi jeg yður, þessir menn ættu ekki að tala um sparnað, þessir menn ættu að þegja, þegar hann er á ferðinni. (MG: Skil vel, að ráðherrann vilji helst að jeg þegi, því þá rek jeg þetta ekki ofan í hann aftur). Nei, ef aðeins væri um mig að ræða, væri best að þingmaðurinn talaði sem mest um þetta. Því mótmæli hans verða mjer hjer bestu meðmæli.