26.02.1923
Neðri deild: 6. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 779 í C-deild Alþingistíðinda. (2536)

15. mál, afnám biskupsembættisins

Forsætisráðherra (SE):

Háttv. 4. þm. Reykv. (MJ) byrjaði hina snjöllu hugvekju sína með því, sem jafnan mætir öllum sparnaðartilraunum, að hjer sje um svo lítilfjörlegan sparnað að ræða, að ekkert vinnist við hann. Þessar mótbárur hafa heyrst áður. Hjer er þó farið fram á að leggja niður 9 hálaunuð embætti, en það er ekki talið neitt; þjóðina munar það engu. Svo mörg voru þau orð.

Háttv. þm. (MJ) sagði, að aðalástæðan til sparnaðar væri sú, að bjarga þjóðinni úr því öngþveiti og þeirri fjárhagskreppu, er hún væri nú komin í. Það er auðvitað, að afnám þessara embætta myndi lítið bæta úr vandræðum í bráðina; gengi krónunnar myndi t. d. lítið hækka í svipinn af þeirri ástæðu. En hjer er að ræða um enn mikilvægari sparnað: að sníða þjóðinni framtíðarstakk, sem væri henni hentari og hollari en sá embættastakkur, sem nú er hún í.

Þá mælti hv. þm. (MJ) merkileg orð: að eðlilegast væri að snúa sparnaðinum að þeim embættum, sem nýlega væru sett á stofn. Það lýsir harla miklu vantrausti á Alþingi, ef helst mætti spara og auðveldlegast mætti komast af án þeirra embætta og stofnana, sem það hefir nýlega sett á fót. Eftir þeirri kenningu lægi þá nær að skera niður háskólann. Miklu meiri líkur eru til þess, að ástæða sje til að breyta því, sem gamalt er orðið og úrelt, heldur en því, sem fyrir skömmu er komið á.

Eftir þessar almennu athugasemdir vjek hv. þm. (MJ) að frv. Kvað hann hjer vera að ræða um elsta og virðingarmesta embætti þjóðarinnar, og skildist mjer öll röksemdafærsla hans fólgin í þessu eina atriði. Jeg tók það fram sjálfur, að þetta embætti ætti sjer mikla og merkilega sögu. En sú saga er gömul. Ef unt er að koma embættum fyrir á annan og haganlegri hátt, verður það sögulega að sjálfsögðu að víkja.

Það er og rangt, að eftir þetta höfum vjer engan biskup. Nú eru 3 biskupsembætti á landi hjer, en einungis farið fram á að afnema eitt þeirra. Biskupsembætti verða því til eftir sem áður, en aðeins með kirkjulegu valdi.

Þó að einhver embætti eigi sína sögu, má ekki af þeirri ástæðu búa til einskonar forngripasafn embætta. Embættin verða að eiga rót í nútímanum, þau verða að hlýða kröfum hans, en ekki fortíðarinnar Embætti það, sem hjer ræðir um, hafði fyr á tímum afarmikið vald, andlegt og veraldlegt, og stafar ljómi sá frá þeim tímum, sem enn er yfir embættinu. Nú er lítið sem ekkert eftir af veraldlegu valdi biskupsembættisins og af því valdi stafar nú enginn ljómi. Biskup er nú í raun og veru ekki annað en skrifstofumaður, sem sækir alt til stjórnarráðsins og á svo að leggja alt undir samþykki þess. Hinni íslensku kirkju er því engin minkun eða vansi, þó að þessar litlu leifar veraldlegs valds sje tekið af biskupi. Jeg sje t. d. ekki, að það sje nein upphefð fyrir biskup, þó að hann fái að skifta sjer af prestsmötum og viðlíka málum. En þegar þetta er tekið frá, verða eftir biskupar, er hafa andlegt vald og forustu. Til þessa myndu jafnan veljast hinir bestu menn. Núverandi vígslubiskupar eru ljóst dæmi þess, að prestar kappkosta að kjósa mestu og bestu andans menn kirkjunnar í þessi embætti. Jeg hygg, að íslenska kirkjan þyrfti ekki að bera kinnroða fyrir forustu annars eins manns og vígslubiskupsins í Skálholtsstifti hinu forna. Og sama má segja um vígslubiskupinn norðanlands.

Háttv. þm. (MJ) gat þess, að í öðrum löndum væri verið að fjölga biskupum. Þetta getur vel verið rjett. En jeg sje enga ástæðu fyrir oss að feta í þau fótspor. Ástæðurnar fyrir því að leggja til, að þetta embætti sje afnumið, eru hinar sömu sem liggja fyrir öðrum sparnaðartillögum stjórnarinnar: að sníða í burt þau embætti, sem ekki eru nauðsynleg. Háttv. þm. (MJ) tókst ekki að sanna, að þetta embætti væri nauðsynlegt. Hann gerði enga tilraun til þess. Aðalrök hans voru þau, að þetta kæmi of mjög við tilfinningar þjóðarinnar.

Þá vjek háttv. þm. (MJ) að ástæðum stjórnarinnar fyrir frv. Taldi hann þær sumpart ljettvægar, sumpart villandi og sumpart beinlínis rangar.

Í upphafi gerir stjórnin grein fyrir sögu þessa máls á undanfarandi þingum. Það er mesti misskilningur hjá hv. þm. (MJ), ef hann ætlar, að þetta sje tilfært sem röksemdir fyrir frv. Hjer er að ræða um sögulegt yfirlit, og geri jeg ráð fyrir, að hv. þm., sem er sögufróður maður, muni ekki ámæla stjórninni fyrir það. (MJ: Það er sett fram sem röksemd). Hv. þm. (MJ) gat þess og, að margvíslegar hvatir muni hafa stýrt þeim mönnum, er áður fyr hafa lagt þessu máli liðsyrði. En hjer eiga svo margir merkir menn hlut að máli, að rangt er að gera þeim getsakir.

Hv. þm. (MJ) hneykslaðist mjög á því, að hjer eru talin upp lögmæt störf biskupa samkvæmt konungsbrjefi 1. júlí 1746. Jeg tók fram, að mikið af því er felt úr gildi, en í frv. eru þau atriði tilgreind, sem enn gilda. En hvernig er auðið að lýsa fyrir löggjöfum þjóðarinnar embættisstörfum biskupa, nema með því að taka fram, hver þau sjeu lögum samkvæmt. Jeg skil því ekki, hvað hefir hneykslað hv. þm. (MJ) í þessu efni, enda tók hann sjálfur fram, hve nauðsynleg væru ýms störf biskupa, svo sem vísitasiuferðir þeirra. Þar sem hv. þm. (MJ) talar um, að hvergi sje minst á andlega forustu biskups, er það ekki rjett; það er tekið fram í athugasemdum við frv., 2. lið, að biskup eigi að sjá um, að prestar kenni rjetta lærdóma þjóðkirkjunnar. Að meiri misbrestur yrði á þeirri umsjón, þó að vígslubiskupar önnuðust hana, eða þótt biskupsembættið misti það litla, sem eftir er af veraldlegu valdi, get jeg ekki skilið. Mjer kom og mjög á óvart, er hv. þm. taldi þetta lítilvægt atriði, er aðstoðarmaður gæti litið eftir. Menn myndu fremur ætla, að það væri eitt aðalstarf biskupa.

Að minnast á stjórnarskrárbrot í þessu sambandi, tel jeg hlægilegt og eigi svaravert, einkum þegar biskupar verða eftir sem áður í landi hjer.

Það er og ekki nægilegt til þess að sýna fram á, að ekki megi leggja biskupsembættið niður, þegar menn líta yfir biskuparaðirnar og benda á þá merku og þjóðnýtu menn, sem gegnt hafa þessu embætti. Það hefir engin áhrif á embættið nú. Núverandi biskup er t. d. annálaður lærdómsmaður og dugnaðar, en það hefði hann jafnt orðið, þó að hann hefði aldrei sest á biskupsstól.

Það er oft mjög gott að sýna því ræktarsemi, sem gamalt er, en það á ekki við alt af þeirri ástæðu einni, að það sje gamalt. Eitt hið elsta í heiminum, sem vjer höfum sagnir af, er syndin. Ef auðið væri að útrýma henni, býst jeg við að hv. þm. (MJ) yrði mjer sammála um, að best væri að gera það sem allra fyrst.

Þegar ákveða á, hvaða embætti eiga við nú á tímum, verður að skoða það í sambandi við nútíðina, en ekki löngu liðna tíma. Vitanlega er enginn ljómi yfir biskupsembættinu nú orðið, eða gæti verið jafnmikill eftir þessa breytingu, ef nokkur er. Jeg geri ráð fyrir, að hv. þm. (MJ) sje mjer samdóma um, að sá skuggi veraldlegs valds, sem nú er eftir, sje engin prýði á embættinu, heldur hið andlega vald þess. En sú forusta getur alveg eins verið hjá vígslubiskupum.

Hv. þm. (MJ) gerði rjettilega þá athugasemd, að skrifstofukostnaður biskups væri talinn of hár; það hefir orðið af vangá, og verður sparnaðurinn því 1500 kr. minni en talið er. En það er ekki til neins að halda því fram, að enginn sparnaður verði að þessu, þó að greiða þurfi vígslubiskupum ferðakostnað.

Slík nýmæli sem þessi eiga jafnan erfitt uppdráttar og sæta mótspyrnu. En því verður á engan hátt neitað, að hjer sje um sparnað að ræða, og því síður haldið fram, að þetta verði til tjóns og skaða fyrir þjóðina.