26.02.1923
Neðri deild: 6. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í C-deild Alþingistíðinda. (2538)

15. mál, afnám biskupsembættisins

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Þar sem þetta mál, sem hjer er um að ræða, heyrir ekki undir mig, þá skal jeg ekki þreyta háttv. deild með mörgum orðum, eftir þá löngu ræðu, sem háttv. þm. N.- Ísf. (SSt) var nú að ljúka við, og sem sumum háttv. deildarmönnum mun sjálfsagt hafa þótt helst til orðmörg.

Jeg verð að byrja með því að lýsa yfir því, að mjer finst hálfundarlegt, hvernig háttv. deildarmenn hafa tekið þessum sparnaðarfrv., sem stjórnin hefir nú komið fram með. Í gærdag, þegar skarða skyldi sýslumenn landsins, þá stóðu hv. þm. upp, hver á fætur öðrum, og sögðu: Nei, ekki þessa, heldur Reykjavíkurembættismennina! Og í dag, þegar ræða er um einn embættismanninn hjer í Reykjavík, gella menn enn við og segja: Nei, ekki þennan, heldur hina! Hvar eru þessir hinir, sem á að láta hverfa úr sögunni? Mundi ekki ávalt einhver stíga fram og gerast talsmaður þess embættis, sem afnema ætti og segja: Alt annað heldur, aðeins ekki þetta!

Jeg verð að segja það, að ef háttv. deild ætlar sjer að halda uppteknum hætti í þessu efni, þá er eins rjett að hætta strax öllu sparnaðarhjali.

Það hafa nú tveir háttv. þm. haldið því fram, hver á fætur öðrum, að ekki væri um neinn sparnað að ræða með þessum frv. stjórnarinnar, þar sem ekkert væri með þeim sparað í bili.

Hv. síðasti ræðumaður kom víða við, dvaldi lengi við biskupsljómann, en lagðist síðast við kútinn, og skal jeg ekki fylgja honum alla þá leið.

Það var þó sjerstaklega hv. þm. N.-Ísf. (SSt), og að nokkru leyti háttv. 4. þm. Reykv. (MJ), sem knúðu mig til að standa upp, þótt þetta mál snerti mig ekki beinlínis. Þeir vildu halda því fram, að sparnaðurinn af þessu frumvarpi kæmi ekki fram fyrri en eftir nokkur ár, eins og þetta væri eins dæmi um sparnaðarfrv. stjórnarinnar. Þeir vita þó, að það getur ekki komið til mála að kasta mönnum, sem sitja í embættum, út á gaddinn. Embættismenn, sem verða að víkja úr embætti af því, að það er lagt niður, eiga að lögum heimtingu á biðlaunum, þangað til þeir komast í annað embætti, eða þá eftirlaunum, meðan þeir lifa; svona er það altaf og svona var gert ráð fyrir í tillögum sparnaðarnefndar á síðasta þingi. Það er því gersamlega rangt hjá háttv. þm. N.-Ísf. (SSt), að ætlast hafi verið til á þinginu í fyrra, að kasta embættismönnum út á gaddinn; slíkt kom ekki til mála. Grískudósentinn, sem þá var aðallega talað um, átti jafnvel að halda fullum launum.

Það er annars undarlegt, hvernig tekið hefir verið í þessi frv. stjórnarinnar, þegar fyrsta frumvarpið, um fækkun sýslumanna, kom til umræðu, þá var viðkvæðið: Nei, það á ekki að byrja á sveitaembættunum, þið eigið að brytja niður óþörfu embættin í Reykjavík. En svo, þegar kemur að þeim, þá hljómar alstaðar: Nei, það má ekki leggja niður þetta embætti. Einhversstaðar og einhverntíma verður þó að byrja, ef mönnum er í raun og veru ant um sparnað og alt tal um hann er annað en tóm orð.

Alt skraf háttv. þm. (SSt) um, að engar raddir hafi heyrst fyr um afnám biskupsembættisins, er ástæðulaust, og verður því hvorki sagt nje sannað, að þær hafi eigi þjóðarviljann að baki sjer. Því að fyrir 40 árum kom inn á Alþingi tillaga um afnám biskupsembættisins, en var þá feld hjer í deildinni með 10:9 atkv., eða eins atkv. meiri hluta. Og sat þó á þeim árum skörungur mikill í biskupsembætti, að sögn hv. 4. þm. Reykv. (MJ).

Það var annars eitt atriði sjerstaklega í ræðu háttv. þm. (SSt), sem jeg verð að fara dálítið inn á og mótmæla. Hann sagði, að stjórnin væri að feta í fótspor erlends valds í því að níða niður vald biskups, og að biskupsembættið væri og hefði ætið verið þjóðlegasta embætti landsins. Jeg verð að mótmæla þessu hvorutveggju. Það er ekki sögulega rjett. Útlenda valdið reyndi til að leggja alt undir sig, sem innlent var, það lagðist engu síður á verslega valdið, og biskuparnir sumir hjálpuðu þar dyggilega. Þá mótmæli jeg því einnig, að biskupavaklið hafi ætíð komið fram sem þjóðlegasta innlenda valdið, og biskupsembættið þjóðlegasta embættið hjer á landi. Var það kannske þjóðlegt á dögum þeirra biskupa, sem ekki hugsuðu um annað en að kúga og fjefletta almenning? Jeg vil spyrja hv. þm. N.-Ísf. (SSt) hvort mikill helgiljómi standi af Jóni Gerrekssyni og Ólafi Rögnvaldssyni, og hvort margar helgar endurminningar sjeu bundnar við nöfn þeirra? (SSt: Hverjir sendu þá?) Það gerði útlenda valdið. Þeir voru verkfæri þess. En jeg skil vel, að hv. þm. N.-Ísf. (SSt) þyki sárt, ef biskupsembættið verður lagt niður, af því að hann hefir verið þjónandi prestur full 40 ár, og vorkenni honum því, að honum falli þetta þungt.

Háttvirtir ræðumenn (SSt og MJ) hafa gert mikið úr andlegu forræði biskups, og það er satt, hann á að hafa það. En jeg segi ekki meira.

Það má koma því fyrir með konungsúrskurði, hvernig embættinu skuli skift, og má vel vera, að meira beri að leggja til vígslubiskupanna en gert er ráð fyrir í frv. Vil jeg svo ekki orðlengja þetta meira, en vænti þess, að þingmenn ræði málið með rökum, en eigi með tilfinningahjali.