02.03.1923
Neðri deild: 10. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 947 í C-deild Alþingistíðinda. (2745)

39. mál, vörutollur

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg er sammála háttv. flm. þessa frv. um það, að nauðsyn sje á því að hefta innflutning óþarfrar vöru. Við frv. þetta get jeg þó eigi felt mig að öllu leyti; finst mjer það ganga of langt í sumu, en of skamt í öðru. Með svona lágum tolli er eigi hægt að hefta innflutning á dýrri vöru, svo sem t. d. niðursoðnum fiski og kjöti. Aftur á móti er tollur á niðursoðinni mjólk óhæfilegur, því dósamjólk er nú mikið notuð í kaupstöðum, sökum þess, að íslensk mjólk er ófáanleg. Tel jeg því rjett að sleppa niðursoðinni mjólk, uns farið er að sjóða niður mjólk í landinu sjálfu, er nægt gæti til neyslu innanlands, en þess mun langt að bíða.