16.03.1923
Neðri deild: 21. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 961 í C-deild Alþingistíðinda. (2760)

39. mál, vörutollur

Jón Baldvinsson:

Það er rjett að rifja upp, hvað nú er verið að gera í þinginu og á hverju bólar. Hjer er samtímis verið að verðlauna innlenda framleiðslu og setja verndartoll á innflutta vöru. Það, sem jeg á hjer við, eru verðlaun á gráðaosti, sem nýbúið er að samþykkja, og beiðni sú um styrk til sölu á nokkrum hluta af kjöti landsmanna. Jeg er ekki fráhverfur því að styðja þetta, en tel ranga og óþarfa ásælni af bændum að leggja verndartolla á innflutta nauðsynjavöru. Hjer liggur fyrir t. d. brtt. um að leggja háan toll á grænmeti, sem einkum kaupstaðafólk kaupir mikið af. Þetta er óþarfi og breytir litlu um tekjur fyrir ríkissjóðinn, en gerir nauðsynlega vöru of dýra. Sama má segja um toll á nýjum ávöxtum, og enn fremur um ost og egg. Það er 10 aura verðmunur á góðum útlendum eggjum og innlendum eggjum, sem þó má ekki treysta að sje góð vara. Hitt get jeg látið hlutlaust, þótt tollaðar sjeu niðursuðuvörur. Þær eru meira keyptar af efnamönnum, og snertir það minna almenning.

Til þess að gera auðveldari samþykt á tollunum samkv. frv. þessu, við hv. fjárhagsnefnd verja því, er þar vinst á tekjum, til lækkunar á útflutningsgjaldinu. Jeg tel ekki fráleitt að lækka nokkuð útflutningsgjaldið, en hitt vil jeg láta sitja í fyrirrúmi, að hægt sje að leggja niður sykurtollinn.

Mjer finst varla geta komið til mála, að þetta frv. gangi gegnum þingið óbreytt og greiði þess vegna fyrst um sinn atkvæði móti því, en geri þó ráð fyrir því, ef það heldur áfram, að gera síðar nauðsynlegar brtt. við það.

Hv. 2. þm. Skagf. (JS) var að harma það, að nefndin hefði felt úr frv. tollinn á niðursoðinni mjólk. Jeg skil ekki, hvernig honum hefir getað dottið í hug að halda honum fram, þegar um svo mikla nauðsynjavöru er að ræða. Hvaða gagn er Reykjavíkurbúum að því t. d., þótt nóg mjólk sje til norður í Skagafirði eða austur í Árnessýslu, með þeim samgöngum, sem nú eru.

Þessi atvinnugrein, niðursuða á mjólk, er ekki til hjer enn þá, en verið getur, að einhverjir hafi í huga að koma slíkum iðnaði á fót. Að vísu hefir verið gerð tilraun í þessa átt einhversstaðar uppi í Borgarfirði, og „flöskumjólk“ þaðan er hið eina, sem komið hefir á markaðinn af innlendri niðursoðinni mjólk; en hún er þó miklu dýrari en útlend mjólk.

Háttv. sami þm. (JS) hjet góðu um það, að þó þessi tollur kæmist ekki á nú, þá mundi það verða á næsta þingi; en þá verður eitt af tvennu, að ástæður breytast frá því, sem nú er, eða ranglæti verður beitt við fjölda fólks í landinu. Jeg skal ekkert fullyrða um, nema það geti átt sjer stað, að þessi mjólkurframleiðsla komist hjer á í framtíðinni sem innlendur iðnaður; en það er alls ekki komið að því enn þá, og þess vegna er engin ástæða til að tolla útlendu mjólkina, til verndar því, sem ókomið er, þegar sá tollur leiðir aðeins til þess að auka dýrtíðina í landinu.