22.03.1923
Neðri deild: 26. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 985 í C-deild Alþingistíðinda. (2776)

39. mál, vörutollur

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg skal geta þess, að nefndin hefir í hyggju, ef hún fær þessar brtt. samþyktar, að bæta við enn einni tegund ávaxta, vínberjum. Það var aðeins fyrir gleymsku, að þau voru ekki tekin með. Jeg er hv. þm. Str. (MP) ósamþykkur að því er snertir nytsemi nýrra ávaxta fyrir oss. Jeg tel mjög lítið gagn að þeim. Má vera, að sjúklingar noti þá eitthvað, en aðallega munu þeir fara í börn og unglinga. Er það leiðinleg sjón að sjá börn standa á götum úti og eta skemda ávexti, sem hafa verið keyptir ránverði. Því auðvitað er það, að helmingur þeirra ávaxta, sem hjer eru seldir, eru meira eða minna skemdir, svo illa sem þeir þola geymslu. Vil jeg sjerstaklega mælast til þess, að till. nefndarinnar verði samþyktar að því er þetta snertir.

Viðvíkjandi því, sem hv. frsm. minni hl. (JakM) talaði um tollana, þá vil jeg taka það fram, að jeg lít svo á, að verði þessi tollhækkun á vefnaðarvörutegundunum ekki samþykt, þá verður naumast auðið að lækka útflutningsgjaldið. Það var einmitt tilætlun nefndarinnar að skifta á þessu. Háttv. frsm. minni hl. (JakM) tók það rjettilega fram, að slíkir tollar yrðu aldrei rjettlátir. Jeg er honum fyllilega samdóma um það. En hjer ber á að líta, að þessa tolls gætir svo lítið, að varla er ómaksins vert að gera slíkt veður út af honum.

Mjer þykja merkilegar þær umræður, sem hafa orðið um heytollinn, og líkastar deilunni um skegg keisarans. Innflutningur á heyi er nú sáralítill. En borist hafa sagnir um það, að í ráði sje að auka hann að mun, og fyrir það átti að byggja með þessu.

Jeg veit ekki, hvort háttv. þm. Borgf. (PO) hefir í hyggju að svara því, sem háttv. frsm. minni hl. (JakM) skaut að honum um slægjuafnotin. Jeg get frætt háttv. þm. (JakM) á því, að það var viðvíkjandi aukaútsvarsálagningu, sem orð hv. þm. Borgf. (PO) fjellu í fyrra. Kvað hann tekjustofninn eyðilagðan með þessu, en ekki jarðirnar Jörð þarf ekki að skemmast neitt, þó selt sje burt af henni heyið í stórum stíl, ef til dæmis er um flæðiengi að ræða. Þá er þetta ágætis tekjugrein fyrir bóndann, sem sjálfsagt er að hagnýta sjer. Getur hann haldið jörðinni í fullri rækt fyrir því, þótt hann selji það hey.

Háttv. 1. þm. Reykv. (JakM) sagði, að lækkun útflutningsgjaldsins yrði að koma niður í beinum sköttum. Hann veit þó, hversu erfitt það var hjer fyrir skemstu að halda í horfinu um þann eina eiginlega beina skatt, sem vjer höfum, tekju- og eignarskattinn. Jeg sje því ekki, hvernig hann getur búist við þessu. Og hvernig myndi þá sækjast að koma á nýjum sköttum? Sami háttv. þm. kvartaði undan því, að vörutollurinn myndi gera það að verkum, að smásalarnir hættu að standast samkepni við þá stærri. Það kvað við annan tón hjá honum er tóbaksfrv. sæla var á ferðinni; þá taldi hann fært vegna smásalanna að hækka tollinn.