22.03.1923
Neðri deild: 26. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 999 í C-deild Alþingistíðinda. (2783)

39. mál, vörutollur

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg vil benda háttv. 2. þm. Reykv. (JB) á það, að það er hægt fyrir hann að segjast ætla að vera á móti beinu sköttunum, uns búið er að Ijetta af öllum óbeinum sköttum. Háttv. þm. veit vel, að þeim sköttum er ómögulegt að ljetta af, nema beinu skattarnir sjeu smátt og smátt auknir, uns þeir geta alveg tekið við af hinum. Í þessu máli er því háttv. þm. á móti sinni eigin stefnu.

Misskilningur er það hjá sama háttv. þm., að orðin „niðursoðnum“ og „syltuðum“ í nál. eigi ekki við grænmeti jafnt og ávexti; ómögulegt að fá annað út úr orðunum, í því sambandi, sem þau standa, en að þau eigi jafnt við grænmeti, enda var svo ætlast til af nefndinni.

Óþarfi var af þessum háttv. þm. að bregða mjer um það, að jeg hefði borið honum kjósendadekur á brýn. Jeg mintist ekki á slíkt í ræðu minni, og hefi hvorki borið slíkt á hann nje aðra hv. þm.

Þá mintist hann á fjáraukalögin 1920 og 21. Jeg treysti mjer vel að ræða um þau við hann á sínum tíma, og skal geta þess, að hækkunin, sem þau gera á fjárlögunum frá þeim árum, er ekki meiri hlutfallslega en brauðin hækkuðu hjá honum í Alþýðubrauðgerðinni á sama í tíma.