23.03.1923
Efri deild: 25. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1112 í C-deild Alþingistíðinda. (2945)

69. mál, bæjarstjórn á Seyðisfirði

Frsm. (Jón Magnússon):

Eins og sjest í á nál., hefir nefndin viljað láta kaupstaðinn yfirleitt ráða þessu máli. Þó hún hins vegar sje ekki ánægð með þær breytingar á bæjarstjórnarlögunum, sem frv. hefir í sjer fólgnar, og telji þær ekki til bóta. Skal jeg þá nefna þær breytingar á gildandi bæjarstjórnarlögum, sem frv. þetta fer fram á.

Fyrsta breytingin er sú, að í stað orðanna: „3 dögum á undan kjördegi“ komi: „3 dögum á undan fyrsta kjördegi.“ Í lögunum stendur, að kjósa eigi einhvern fyrsta virkan dag eftir nýár. Manni gæti dottið í hug, að hjer væri talað um fyrsta dag, sem gæti verið kjördagur eftir 1. janúar. En með breytingunni er meint, að kjörskráin skuli alveg fullbúin 3 dögum áður en fyrst er kosið. Þetta ákvæði er því dálítið þrengra en í lögunum, en virðist ekki hættulegt, þó að það hefði staðið óbreytt, því að það hefði ekki verið verra en við alþingiskosningar, því að þá verða menn oft að sætta sig við að kjósa eftir kjörskrám, þó að þær sjeu orðnar nær því ársgamlar.

Önnur breytingin er á þá leið, að bæjarstjórn veiti lögregluþjónum embætti og veiti þeim líka lausn. En það hefir verið venja, að bæjarstjórnin veiti embættin, en bæjarfógeti víki þeim frá.

Þetta hefir þótt heppilegra, því að á þennan hátt hefir lögreglustjóri meira vald yfir lögregluþjónunum En nefndinni hefir þó þótt rjett að láta bæjarstjórnina ráða þessu. Því að það gæti valdið misklíð, ef t. d. lögreglustjóri setti einhvern frá, en bæjarstjórn veitti honum strax stöðuna aftur.

Þriðja brtt. er sú eina, sem nefndin hefir alls ekki getað fallist á, og hún er sú, að af öllum lóðum, bygðum og óbygðum, skuli greiðast 4% af virðingarverði. En áður mátti taka alt að 2%. Ef svo mikið yrði tekið, eins og frv. fer fram á, gæti varla verið um skatt að ræða, heldur í rauninni eignarnám, þegar menn verða að borga skatt af eign sinni, sem svarar nálega bankavöxtum, því að á lóðunum hvíla ýms önnur gjöld, svo að þau mundu nema öll um 5%. Nefndin leggur því til, að þessi grein frv. verði feld.

Jeg hefi ekkert að athuga við 5. gr. frv., og ekki þá 6. heldur, en með 7. gr. getur verið efamál, hvort ekki sje eins rjett, að kjósendur alment kjósi endurskoðanda, eins og bæjarstjórnin sjálf Jeg legg þó enga áherslu á þetta atriði.