23.03.1923
Efri deild: 25. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1115 í C-deild Alþingistíðinda. (2949)

69. mál, bæjarstjórn á Seyðisfirði

Jónas Jónsson:

Það gladdi mig mjög að heyra af hv. 4. landsk. þm. (JM), að ríkið ætti meira að ráða en bæjarfjelagið. Það var mín skoðun á frv., sem kom fram í dag. Hins vegar er jeg ekki sannfærður um, að hann hafi á rjettu að standa í þeirri kenningu sinni, að það sje óhugsandi að leyfa bæ að nota lóðir sem skattstofn meira en gert er. Hann segir, að ríkið megi af engu missa. En það er ekki fullkomlega rjett að segja, að ríkið eigi ekkert eftir, ef bæjum sje veitt heimild til að leggja skatt á lóðir. Menn verða að greiða neysluskatt, hvort sem þeir eiga lóðir eða ekki, og sömuleiðis skatt af eignum sínum, hvort sem það eru lóðir eða aðrar eignir, og get jeg ekki betur sjeð, en að ríkið hafi úr miklu að moða. Þetta er því ekki rjett kenning, þar sem ríkið á samt sem áður eftir alla mögulega óbeina skatta, tekjuskatt og eignaskatt af öllum öðrum eignum.