10.03.1923
Neðri deild: 17. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í B-deild Alþingistíðinda. (296)

29. mál, ritsíma og talsímakerfi

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Jeg stend ekki upp til að mæla gegn frv., því að eftir þeim upplýsingum, sem jeg hefi fengið, er þessi lína nauðsynleg. Jeg stóð upp til þess að þeir, sem hlut eiga að máli, verði ekki fyrir vonbrigðum, þó að þeir verði að bíða nokkuð lengi eftir því, að línan verði lögð, ef frv. verður samþykt. Þeir mega ekki búast við, að hún komi þá og þegar, því að margar aðrar línur hafa verið samþyktar, er verða að ganga fyrir. Á jeg hjer aðallega við 4 línur: milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar, Stykkishólms og Grundarfjarðar, frá Blönduósi til Bólstaðarhlíðar og frá Sauðárkróki að Víðimýri. Þessar línur verður að leggja strax þegar efni leyfa. Jeg bjóst við, að auðið mundi að leggja þessar línur á næsta ári, en varð þó að kippa fjárveitingum til þeirra í burtu úr fjárlagafrv. Jafnvel þó að fje væri fyrir hendi, býst jeg ekki við, að hægt verði að leggja þessar línur á einu ári, heldur verði að jafna því niður á 2 ár. Má því enginn furða sig á, þó að línan, sem hjer um ræðir, verði að bíða nokkuð lengi, til 1926 eða jafnvel til 1927.