27.03.1923
Neðri deild: 30. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í D-deild Alþingistíðinda. (2971)

105. mál, innlendar póstkröfur

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Jeg get vel tekið undir það með háttv. flm. þessarar till. (MJ), að þetta fyrirkomulag yrði mjög handhægt útgefendum blaða og bóka, til að ná inn andvirðinu. Það vita allir, hversu þetta er erfitt víða um land, og er jeg því fyllilega sammála háttv. flm., að ef þetta væri hægt, mundi það greiða mikið fyrir slíkum viðskiftum úti um landið. En jeg hygg, að þetta verði ekki eins auðvelt og háttv. flm. álítur það vera.

Í fylgiskjalinu stendur, að póstmenn telji þetta auðvelt í framkvæmdinni. Jeg skal að vísu ekki rengja þessi ummæli, en jeg hefi líka talað við aðalpóstmeistara um þetta, og annan póstembættismann, og telja þeir, að hækka þurfi laun brjefhirðingamanna, ef þessi störf bætist við þá. Það gefur og að skilja, að með aukinni ábyrgð fylgi, að launin þurfi að hækka að einhverju leyti. Einnig þykir þeim vafasamt, að allir brjefhirðingamenn, þeir sem nú eru, sjeu þessum starfa vaxnir, og þurfi því að skifta um brjefhirðingamenn á nokkrum stöðum. Þetta mál virðist því ekki vera eins auðvelt og háttv. flm. till. hugði.

En enda þótt brjefhirðingamenn þeir, sem nú eru, hafi getað sint þeim störfum, sem felast í stöðu þeirra, hingað til, þá er þó óvíst, að margir þeirra sjeu færir um að hafa þá skýrslugerð á hendi, sem innheimta póstkrafna hefir í för með sjer. Þetta skiftir vitanlega ekki miklu máli, en er þó til óþæginda, ef víkja þarf frá mönnum, er lengi hafa gegnt þessari litlu stöðu. Auk þess er líklegt, að kaupa þurfi peningaskápa handa brjefhirðingamönnunum, þar sem þeir oft og tíðum myndu hafa allmikla peninga undir höndum.

Þetta, sem jeg nú hefi frá skýrt, eru aðalmótbárurnar gegn því, að till. gangi fram, og legg jeg það á vald þingsins að dæma um það, hvort þyngri muni á metunum, þessar mótbárur, eða nauðsynin á að gera innheimturnar greiðari. Jeg hefi ekki skýrt frá þessum mótbárum sökum þess, að jeg sje persónulega á móti till., heldur vegna þess, að jeg vildi skýra háttv. þm. frá áliti póststjórnar og þeim vandkvæðum, sem gætu verið á því, að till. gengi fram.