27.03.1923
Neðri deild: 30. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í D-deild Alþingistíðinda. (2977)

107. mál, baðlyfjagerð og útrýming fjárkláða

Flm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg þarf ekki að láta mörg orð fylgja tillögu þessari. Á síðasta þingi lá svipuð tillaga fyrir háttv. deild, og var þessu máli þá svo komið, að þegar var byrjað á rannsóknum um innlenda baðlyfjagerð. Var stjórninni sett í sjálfsvald að nota þau baðlyf, er hún teldi heppilegust, við baðanir síðastliðið haust.

Síðan hefir þessum rannsóknum verið haldið áfram. Hæstv. atvrh. (KIJ) hefir ritað bæði Gísla gerlafræðingi Guðmundssyni, er framkvæmdi þessar rannsóknir, og Magnúsi Einarssyni, dýralækni í Reykjavík, og er það aðallega af svari Gísla Guðmundssonar, að sjeð verður, hvað gert hefir verið í málinu síðan í fyrra. Hann telur yfirleitt engin vandkvæði á því að gera innanlands örugg og áreiðanleg baðlyf, og hefir hann haldið áfram rannsóknum í því efni. Í vetur fjekk hann nokkrar kláðakindur til þess að gera tilraunir á þeim, og hefir hann reynt baðlyfið stig af stigi á þeim, svo að hann gæti sjeð, hvaða tegund reyndist best. Telur hann, að innlend baðlyf muni verða töluvert ódýrara en danska baðlyfið, sem keypt var síðastliðið haust, en það er þó ekki dýrt í samanburði við þær tegundir baðlyfja, er menn notuðu mest áður. Hann býst við, að þessum rannsóknum verði lokið í ágústmánuði næstkomandi. Því ber landbúnaðarnefnd fram þessa till., að stjórnin láti halda þessum tilraunum áfram og geri síðan undirbúning undir algerlega útrýmingu fjárkláðans.

Á síðastliðnu hausti var keypt baðlyf frá Danmörku, eitthvað um 40 smálestir. Þetta baðlyf var gert eftir sjerstakar rannsóknir, og mátti búast við, að sjerstaklega vel væri frá því gengið. Það var flokkað í 4 flokka, A, B, C og D, og var B-tegundin keypt hingað. Gísli Guðmundsson og efnafræðingur ríkisins rannsökuðu baðlyf þetta, og telur efnafræðingurinn það allgott, en sá galli sje þó á því, að uppleysingin sje ekki sem æskilegust. Gísli gerlafræðingur tók einnig fram, að baðlyfinu væri vant í þessu efni. Þetta baðlyf hefir nú verið reynt víða og hlotið æðimisjafna dóma. Þannig hefir fje drepist sumstaðar af böðuninni, en hvernig á því stendur, og hvort það hefir orðið fyrir handvömm, skal jeg ekki leggja neinn dóm á. En það er víst, að fje hefir sumstaðar drepist af þessu, og segja sumir menn, að lúsin hafi þó lifað eftir. Þetta eru engin meðmæli með baðlyfinu og gefur ekki þá raun, að tiltækilegt sje að kaupa það framvegis.

En þá er á það að líta, að þetta er ekki besta tegundin. A-tegundina telja menn mjög góða og að hún hafi alla þá kosti, sem krafist verður af góðu baðlyfi. En sú tegund er miklu dýrari, kostar kr. 1,40 lítrinn í Danmörku, en þessi tegund ekki nema 65 aura, og var hún seld í Landsversluninni fyrir kr. 1,25 lítrinn.

Er þá sýnilegt um fjárhagshlið þessa máls, að æðimikið ódýrara yrði að nota innlend baðlyf, þegar trygging er fengin fyrir því, að það sje gott og óyggjandi, heldur en að nota þessi dönsku baðlyf, þegar svona mikill kostnaður þarf að leggjast á þau. Því að besta tegundin yrði þá svo dýr, að mönnum yrði ókleift að kaupa hana, enda ekkert því til fyrirstöðu, að auðið sje að búa til eins gott baðlyf hjer á landi.

Þegar gætt er fjárfjöldans í landinu og hve mikið baðlyf þarf á hverja kind, er þetta engin smáræðisupphæð. Samkvæmt búnaðarskýrslunum 1920 voru hjer á landi um 580 þús. fjár. Ef notað er danska baðlyfið, blandað 1:40, og 3 lítra þarf að meðaltali á hverja kind, verður það alt að 45 smálestum. En eftir þeim áætlunum, sem gerðar hafa verið um innlenda baðlyfið, munar þetta 27 þús. kr. árlega. Hjer er því ekki að ræða um neina smáupphæð, auk þess sem það er fyrir öllu, að örugg trygging sje fyrir því, að baðlyfið sje óyggjandi. Aftur er kostnaðurinn við rannsókn og undirbúning þessa máls hverfandi í samanburði við þetta. Gísli Guðmundsson hefir áætlað, að 3000 kr. muni þurfa til þeirra framkvæmda og kaupa á hráefnum og körum við tilbúning baðlyfsins. Ekki veit jeg, hve miklu af þessu er þegar eytt, en Gísli telur, að ekki þurfi að leggja meira fram til undirbúnings þessa en gert hefir verið, annað en til uppihalds kláðakindunum, er jeg nefndi. Þegar kemur til, að þetta nýja baðlyf verði reynt á hausti komanda, býðst hann til að selja það til reynslu á sinn eiginn kostnað, svo að ríkissjóður þarf ekki að verða fyrir útlátum til þess. En af danska baðlyfinu, er keypt var í fyrrahaust, liggur mikið eftir óselt hjá Landsverslun, sem sjálfsagt er að nota. Mætti nota það að hausti, með nákvæmum leiðbeiningum, jafnframt því sem nýja baðlyfið verður reynt, því að ófært er að láta svo mikið verðmæti fara til ónýtis, en hins vegar ætti það að geta komið að notum með góðri fyrirsögn, svo það ætti ekki að valda skaða.

Nefndin leggur, svo sem tillagan ber með sjer, sjerstaka áherslu á, að baðlyfjagerðin verði innlend. Og þegar trygging er fengin fyrir því, að baðlyfið sje örugt, liggur næst fyrir að undirbúa algerða útrýmingu fjárkláðans. En í því máli þarf stjórnin mikillar aðstoðar og leiðbeiningar frá dýralækni.

Á síðasta þingi lýsti landbúnaðarnefnd því, hvernig hún vildi, að þessum útrýmingarböðum yrði hagað. Jeg skal ekki endurtaka það, en einungis geta þess, að hún taldi sjálfsagt, að fjáreigendur borguðu sjálfir baðlyfin. Ríkissjóður þarf samt að kosta miklu til. Það þarf eftirlitsmenn í hverju hjeraði, er hafi fengið nákvæma tilsögn og leiðbeiningu hjá dýralækni, svo að ekkert fari í handaskolum, þegar svo mikið er í húfi.

Á síðasta þingi komu fram raddir um það, að þessi útrýmingarböðun þyrfti ekki að fara fram um alt land. Jeg skal ekkert um þetta segja; legg það algerlega á vald stjórnarinnar og dýralæknis. En þó efast jeg um, að útrýming geti orðið trygg með öðru móti.

En skaði sá, er menn eiga jafnan á hættu að verða fyrir meðan pest þessi liggur í landi, er ekki eina atriðið í þessu máli, heldur verður að líta á fleira. Jeg gæti ímyndað mjer, að þessi sjúkdómur sje ein ástæðan til þess aðflutningsbanns, sem er á lifandi fje hjeðan til Bretlands, og má þetta ekki vera því til fyrirstöðu lengur. Getur vel verið, að fleiri ástæður sjeu til þessa banns, þó að jeg viti það ekki, en fjárkláðinn mun þó eiga sinn þátt í því.

Jeg vænti þess, að háttv. deild taki þessari tillögu vel, og hæstv. stjórn geri alt, sem í hennar valdi stendur, til þess að undirbúa málið, svo að það komist sem fyrst í framkvæmd og verði lagt fyrir næsta þing, eins og nefndin gerir ríka kröfu til.