10.03.1923
Neðri deild: 17. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í B-deild Alþingistíðinda. (298)

29. mál, ritsíma og talsímakerfi

Frsm. (Þorsteinn Jónsson):

Það gleður mig, að hv. þm. Barð. (HK) skuli nú vera með frv.; en það þurfti hann aldrei að óttast, að jeg væri svo duglegur fyrir kjördæmi mitt, að jeg fengi símalínu þessa lagða á undan öllum öðrum símalínum, sem áður var ákveðið að leggja. En jeg vildi fá viðurkenningu fyrir því, að hjer væri um rjettmæta kröfu að ræða, og loforð um, að síminn yrði lagður strax og ástæður leyfa.

Mjer þótti leitt, að hæstv. atvrh. (KIJ) skyldi ekki minnast á símana til Brekku og Loðmundarfjarðar, þegar hann mintist á þær línur, er fyrst þyrfti að leggja. Sími er nú alstaðar á Austfjörðum nema í Loðmundarfirði, og er því eðlilegt, að þessi hreppur verði illa staddur í atvinnusamkepni. því að svo mikið er nú undir símanum komið. Þessi hreppur er háum fjöllum girtur á alla vegu og verður að sækja prest. lækni og alla verslun til Seyðisfjarðar. Annars vil jeg taka það fram, að frá minni hálfu er engin togstreita um símalagningar. Veit jeg, að landsstjórn og landssímastjóra er sæmilega vel treystandi að ákveða, hvar mest er þörf fyrir nýjar símalínur. En það hygg jeg, að eins mikla nauðsyn beri til þess að leggja símalínu til Brekku og Loðmundarfjarðar sem til nokkurra annara staða, sem enn eru símalausir.