27.03.1923
Neðri deild: 30. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í D-deild Alþingistíðinda. (2980)

107. mál, baðlyfjagerð og útrýming fjárkláða

Stefán Stefánsson:

Mjer þótti gott að heyra orð hæstv. atvrh. (KIJ) og allar undirtektir hans í þessu máli, þótt jeg hins vegar telji mjög vafasama þá ályktun hans, að handvömm ein hafi valdið, hvernig baðanirnar reyndust á sumum stöðum.

þá vil jeg víkja að því, er hv. 2. þm. Húnv. (ÞórJ) tók fram, að þar sem þetta baðlyf hafi verið notað, hafi það komið fyrir, að fjeð hafi drepist af því, en færilúsin ekki. Að vísu er þetta fremur ólíklegt, en þó er mjer kunnugt, að í nágrenni við mig kom það fyrir, að nokkrar kindur drápust af böðuninni. Stjórnuðu þó lærðir baðstjórar frá dýralækni böðununum, svo því verður naumast um kent, að undirbúningur hafi verið ónógur eða þekkingarleysi hafi hjer um ráðið. Lá nærri, að 2 kindur dræpust af þessum ástæðum hjá mjer. Bólgnaði önnur þeirra bæði á kviði og nárum eftir baðið og virtist vera með hitaveiki í nokkra daga. Líkt var að segja um hina kindina, þó ekki væru eins mikil brögð að því.

það er og alkunna, að þessi baðlyf eru mjög misjöfn ár frá ári, þótt frá sömu verksmiðju sjeu og með sömu merkjum. Bæði hefir reynslan sýnt þetta, og svo hefir maður umsögn efnarannsóknarstofunnar, að svo er, og líkurnar benda á, að þetta verði svo áfram, meðan baðlyfin eru ekki búin til hjer innanlands. Það er því bráð nauðsyn, að farið sje að vinna að innlendri baðlyfjagerð, og það því fremur, þar sem hr. Gísli Guðmundsson gerlafræðingur telur það fullvíst, að baðlyfin geti bæði orðið tryggari og ódýrari á þann hátt.

Sem merki þess, hve þetta baðlyf, er síðast var notað, var misjafnt að gerð, þá voru sem botnfall í sumum ílátunum smáhratörður, illuppleysanlegar, að líkindum samanrunninn harpix, og þegar svo óvandlega er frá gengið, er ekki undarlegt, þótt reynslan verði dálítið misjöfn.

Jeg ætla svo ekki að orðlengja meira um þetta, en vildi aðeins geta um reynslu okkar í þessu efni og taka það fram, að það var ekki af þekkingarleysi, eða á annan hátt baðstjóranum að kenna, að slys varð á stöku stað af notkun baðlyfjanna.