10.03.1923
Neðri deild: 17. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

29. mál, ritsíma og talsímakerfi

Björn Hallsson:

Jeg skal reyna að hlýða áminningum hæstv. forseta og fara sem minst út fyrir efnið, en dálítið getur það orðið samt.

Frv. þetta er ekkert stórmál og hefir ekki mætt miklum andróðri, enda skal jeg ekki fjölyrða um það. Þessi fyrirhugaða símalína er ekki löng, eitthvað um 14 kílómetrar, frá Þórshöfn til Gunnólfsvíkur, og af þessari leið þarf ekki staura á 7–8 kílómetra svæði, svo að hjer er eiginlega að ræða um 5–6 kílómetra leið, svo að línan getur ekki orðið dýr. Að vísu þarf að leggja vír alla leið frá Þórshöfn, en þar sem meiri hluta leiðarinnar má nota staura á símalínunni, sem nú er til Þórshafnar, dregur það mikið úr kostnaði. En alt fyrir það hefir okkur flm. frv. ekki komið til hugar, að lína þessi kæmi strax, heldur yrðu aðrar látnar sitja í fyrirrúmi, sem áður eru komnar í símalögin. En við væntum þess, að þessi stutta lína verði lögð sem fyrst, þar sem hjer er um að ræða aflasælan útgerðarstað, og hins vegar rjett og sjálfsagt að styðja viðleitni manna við að auka framleiðslu eftir ýtrustu föngum.

Út af orðum hæstv. atvinnumálaráðherra um símalínu að Brekku, að honum væri ekki kunnugt um mikla þörf hennar, vil jeg taka fram eftirfylgjandi: Sími frá Egilsstöðum til Brekku á að liggja um allþjettbygt hjerað. Á leiðinni er Hallormsstaður, eða í það minsta yrði lagður sími þangað frá Brekku. Á Hallormsstað er hinn frægi Hallormsstaðarskógur og oft þar mikil ferðamannaumferð og mikil þörf fyrir síma. Hins vegar er Brekka læknissetur í Fljótsdalshjeraði, en nú er læknislaust í Hróarstunguhjeraði að heita má, þar sem læknirinn er búsettur í Borgarfirði, og væri því þýðingarmikið að hafa síma á Brekku, þar sem þess læknis er oft vitjað niður um alt Hjerað. Hæstv. atvrh. sagði, að hann teldi sjálfsagt, að síminn til Loðmundarfjarðar gengi á undan Brekkusímanum. Jeg ætla ekkert að dæma um það, hvor ganga eigi á undan. Tel gott hvað gengur og báða nauðsynlega. Veit vel, að Loðmfirðingar eru mjög einangraðir og læknislausir, en helst óska jeg, að þessir símar verði báðir lagðir sama ár. Tek jeg það skýrt fram, að jeg vil á engan hátt spilla fyrir Loðmfirðingum með þeim orðum, sem jeg sagði um Brekkusímann.

Vonast jeg til þess, að hv. deild sýni frv. þessu velvild og lofi því að ganga áfram.