20.04.1923
Neðri deild: 46. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í D-deild Alþingistíðinda. (3128)

130. mál, tryggingar fyrir enska láninu

Magnús Guðmundsson:

Við umr. um þetta mál hefir verið rætt töluvert um samábyrgð og múr, sem sleginn sje um Íslandsbanka, og það látið skína í gegn, að þetta sje gert vegna h.f. Íslandsbanka eða hinna erlendu hluthafa. En þetta er ekki í fyrsta skifti, sem svo er talað hjer á þingi. Það hefir verið í hvert skifti, sem um þetta mál hefir verið rætt hjer. Og það er gaman að líta á, hverjir hafa myndað þennan múrvegg. Það hefir fyrst og fremst venjulega verið meiri hluti þings, og altaf stjórnin, hver sem hún var, og nú hefir bæst við nýliði í múrinn, og það er Landsbankinn. Getur nú nokkur trúað því, að allur þessi múr sje myndaður aðeins vegna hinna útlendu hluthafa? Hver trúir því, að meiri hluti þings, landsstjórnin, hver sem hún er, og stjórn Landsbankans, þyki svo vænt um þetta hlutafjelag, af því að meiri hluti hlutafjárins er útlendur? Jeg er þess fullviss, að það, sem liggur á bak við, er að vernda viðskiftin í landinu, því að meiri hluta þings var það ljóst, hversu viðskiftin eru viðkvæmt málefni, og til þess að bjarga þeim við, var eina ráðið að hlaupa undir bagga með bankanum. Þetta er hin sanna ástæða, og það er árangurslaust að reyna að fá aðra til að trúa því, að þetta hafi verið sjerstaklega gert fyrir hina útlendu hluthafa.

Það hefir verið sagt, að Landsbankinn hafi hjálpað Íslandsbanka í síðastliðnum aprílmánuði. Jeg held, að meiningin hafi ekki verið að hjálpa bankanum sjerstaklega, heldur viðskiftalífinu. Landsbankinn hafði mikið fje í sjóði í seðlum Íslandsbanka. Þá var um tvær leiðir að velja, annaðhvort að setja sjálfur seðlana í umferð eða láta Íslandsbanka fá þá; þriðja leiðin var að vísu til, sem sje að kreppa að viðskiftunum. Nú gat Landsbankinn vitaskuld valið, hvora leiðina helst skyldi fara, og hann tók þá að taka ekki á sjálfan sig áhættuna við að lána út fjeð, því að hann taldi ekki hyggilegt að taka við viðskiftamönnum Íslandsbanka, heldur að láta þann banka hafa fjeð. Það má náttúrlega deila um, hvort þetta hafi verið rjett valið, en um hitt er ekki hægt að deila, að bankastjórnin ræður þessu, lögum samkvæmt.

Það vantaði seðla í umferð, en það var eðlileg afleiðing löggjafarinnar, þar sem seðlaútgáfan er takmörkuð og samkvæmt lögunum verður Íslandsbanki að draga inn 1 miljón á ári. En þessa þurfti ekki í bili, af því að seðlarnir lágu í Landsbankanum. Jeg sje þess vegna ekki, hvers vegna Landsbankinn ætti að vera ámælisverður fyrir að hafa komið þessum seðlum í umferð og lánað út fje, sem lá hvort sem var alveg rentulaust, eða þá stjórnin fyrir að hafa stuðlað að því.

Það er eitt atriði í þessu máli, sem jeg er óánægður með, en af því að það er viðkomandi þeim ráðherra, sem er nýfarinn frá, ætla jeg ekki að fara út í það.

Hv. 2. þm. Reykv. (JB) mintist á tryggingarnar, en það er misskilningur, að Landsbankinn hafi fengið nokkra tryggingu hjá Íslandsbanka eða stjórninni, aðra en þá, að stjórnin leyfi honum að gefa út seðla, ef þá vantaði í umferð. Því hefir verið haldið fram, að fjármálaráðherra hefði ekki aðgang að handveðinu frá Íslandsbanka fyrir enska láninu. Mjer finst undarlegt, að nokkrum skuli detta slík fjarstæða í hug. Tryggingarnar eru handveð, sem fjármálaráðherra hefir sjerstaklega fengið, og svo á sami ráðherra ekki að hafa aðgang að þeim tryggingum. Þær liggja yfir í Íslandsbanka í sjerstökum innsigluðum kassa, með innsigli stjórnarinnar, og í þann kassa getur einmitt enginn farið, nema fjrh. eða maður með fullu umboði stjórnarinnar. Það er því svo langt frá því, að hann hafi ekki aðgang að skjölum þessum, að hann þvert á móti er sá eini, sem hefir aðgang að þeim.

Hv. 1. þm. S.-M. .(SvÓ) sagði, að það væri skylda Íslandsbanka að halda seðlunum í gullverði. Þá er farið að heimta meira af þeim banka en nokkur önnur þjóð heimtar af sínum bönkum, því að það vita allir, að seðlar flestra landa eru fyrir neðan gullverð.

Hv. 2. þm. Reykv. (JB) sagði, að tryggingin hefði verið of lítil í byrjun, þar sem hún var ekki hærri en lánsupphæðin. Má vera, að svo hafi verið, en þá er rjett að taka tillit til þess, að ríkissjóður skuldaði bankanum um 1 miljón króna, svo að það var ekki nema sanngjarnt, að bankinn ljeti sína skuld koma á móti.

Þá þótti hv. sama þm. (JB) ilt, að forsætisráðherra skyldi hafa umboð fyrir erlenda hluthafa. Jeg sje ekki, hvað því ætti að vera til fyrirstöðu; hann er þó maður, sem þingið hlýtur að bera mikið traust til, því að annars gæti hann ekki komist í þá stöðu, og það ætti því ekki að vera hættulegt, þótt hann fari með rjett erlendra hluthafa. það er ómögulegt að gera þetta tortryggilegt, nema að gera fyrst ráð fyrir, að forsætisráðherra sje á bandi útlendu hluthafanna.