09.05.1923
Neðri deild: 60. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í D-deild Alþingistíðinda. (3269)

156. mál, atkvæðagreiðsla alþingiskjósenda um útsölustaði áfengisverslunarinnar og vínveitingaleyfi

Flm. (Jón Baldvinsson):

Hæstv. forsætisráðherra (SE) er óþarflega hræddur í þessu máli og lítur áreiðanlega skakt á það. Við höfum látið undan aðalkröfum Spánverja, og þá er þeim fullnægt. Hitt kemur þeim ekki við, hvernig við komum þessum málum fyrir hjá okkur innanlands. Það er meira að segja beinlínis gefið undir fótinn með það í lögunum, að þröngt eigi að vera um söluna innanlands, þar sem aðeins er talað um það, að „ekki megi gera að engu“ innflutningsleyfið á vínum. Í þessu liggur, að sterkar takmarkanir megi gera. Það, sem stjórnin hefir gert í þessu efni, er ekki annað en reglugerðarákvæði, sem hún getur breytt aftur, ef hún vill. Spánverjar skifta sjer ekkert af því, hvað margir útsölustaðir eru hjer, og það er því eðlilegast að lofa hverju hjeraði fyrir sig að ráða þessum málum, eins og var áður en bannið kom og jeg tók fram í fyrri ræðu minni. Og þetta er því sanngjarnara, sem margir líta svo á, sem stjórnin hafi farið lengra en hún þurfti, og eru því óánægðir með reglugerðina og framkvæmd hennar.