14.04.1923
Neðri deild: 42. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í D-deild Alþingistíðinda. (3395)

32. mál, landsspítali

Forsætisráðherra (SE):

Jeg skal með leyfi hæstv. forseta lesa upp kafla úr svari mínu í þessu máli á þinginu í fyrra. Það hljóðar svo:

„Jeg vildi aðeins lýsa yfir því, fyrir hönd stjórnarinnar, að hún er öll á einu máli um það, að nauðsyn sje á því að koma landsspítalanum upp. En hvar á að fá fje til þess? Sannleikurinn er sá, að nú sem stendur er ekki fje fyrir höndum til þess. En hvernig það verður í framtíðinni, fer eftir fjárhorfunum þá. En undir eins og hægt er, tel jeg sjálfsagt að byrja á verkinu, en hve nær það verður, er ómögulegt að segja; það veit hvorki þing nje stjórn. Og önnur svör get jeg ekki gefið“.

Þetta svar er mjög á sömu leið og það, sem jeg hefi nú gefið. Og annað svar er jeg ekki fær um að gefa.

Mjer fanst annars koma fram óeðlileg bölsýni í orðum hv. fyrirspyrjanda (JB), er hann talaði um, að úr því stjórnin svaraði á þessa leið, væri ekki unt að eygja neina möguleika til að koma upp landsspítalanum á næstu árum. Svar mitt áðan hefði ekki átt að geta gefið tilefni til svo bölsýnna hugleiðinga. Jeg sagði aðeins, að ekki yrði hægt að byggja hann á næsta ári, og kvað yfirleitt annars ekki hægt að fastákveða, hve nær hann yrði bygður, þar sem það hlyti að fara mjög eftir efnalegum ástæðum ríkissjóðsins. Hitt tók jeg jafnframt fram, að jeg vonaði, að þetta gæti orðið innan stutts tíma og að stjórnin myndi gera alt, sem í hennar valdi stæði, til að það yrði sem fyrst.