12.05.1923
Efri deild: 60. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í D-deild Alþingistíðinda. (3465)

42. mál, ferðalög ráðherra

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Eins og hv. deild mun hafa tekið eftir, þá hefir hv. 4. landsk. þm. (JM) teygt umræðurnar töluvert út fyrir hinn upprunalega ramma. Hæstv. forseti beindi því að mjer, að jeg hjeldi mjer við efnið, en hefir eigi ámælt hv. 4. landsk. þm., þótt hann færi út fyrir málefnið.

Viðvíkjandi ræðu hæstv. forsrh. (SE) hefi jeg lítið að segja. Jeg lít svo á, að hann hafi eftir atvikum svarað spurningunni viðunanlega. Þó vildi jeg leyfa mjer að minnast á nokkur atriði í ræðu hans. Hæstv. ráðherra gat þess, að óhugsandi væri að fara að svara þeirri spurningu, hverjir þm. ættu hluti í Íslandsbanka. Blandar hann þeirri spurningu saman við það, hverjir menn skuldi í bankanum og hverjir eigi, en um það var eigi spurt. Hæstv. forsrh. hlýtur að sjá það, að þeir, sem eiga bankann, sem sje hluthafarnir, eru stjórnendur bankans samkvæmt skipulagi hans, og þess vegna getur hæstv. ráðherra eigi með neinum rjetti sagt það, að bankaráðið geti eigi gefið skýrslu um það, sem spurt er að. Þegar þm. eiga að greiða atkv. um lækkun vaxta eða kröfur um ýmislegt, sem gengur í öfuga átt við hagsmuni bankans, þá getur komið fram tvíveðrungur hjá sumum þeirra, ef þeir eru hluthafar, og þar sem það er almenn venja og krafa, að dómarar víkja úr sæti, er þeir eru hagsmunalega riðnir við þau mál, sem dæma á, þá er eigi óeðlilegt, að þeir þingmenn, sem eru hluthafar Íslandsbanka, sitji hjá, þegar dæmt er um þann banka með atkvæðagreiðslu hjer í þinginu. Í nýkomnum landsreikningum er ágreiningur um það milli Íslandsbanka og landsstjórnarinnar, hvort Íslandsbanka sje rjett að minka gjald sitt til ríkissjóðs, af því að hann hefir „afskrifað“ mikið af ársarðinum til þess að bæta með fyrri töp. Með öðrum orðum, hvort bankinn hafi rjett til þess að reikna út gjald sitt til ríkissjóðs af því einu, sem eftir er, þegar hann hefir tekið aðalgróðann til afskriftar á skuldum. Ef þetta yrði dómstólamál, þá væri óneitanlega óheppilegt, ef dómendur væru eigendur bankans. Jeg skil það eigi, að neinn dómari mundi kynoka sjer við að skýra landsstjórninni frá því, hvort hann ætti hluti í Íslandsbanka, sjerstaklega þegar einstakir dómarar hafa tilefnislaust sagt mjer frá því. Jeg segi fyrir mig, að jeg mundi tafarlaust gefa stjórninni skýrslu um það, ef jeg ætti hlut að máli og væri í þeirra sporum og að spurður. Jeg skal geta þess í þessu sambandi, að jeg veit það um einn núverandi ráðherra Dana, að það hefir verið rannsakað, hvort hann ætti hluti í Landmandsbankanum og hvort það gæti haft áhrif á pólitiska afstöðu hans til bankans, og hlutaeignir þeirra manna, sem við bankamálið eru riðnir, hafa allar verið birtar.

Þá kem jeg að ræðu hv. 4. landsk. þm. (JM). Get jeg eigi annað en undrast, að hann — maður, sem kominn er á sjötugs aldur —, skuli þola svo illa almennar umræður um landsmál, t. d. það, hvernig ráðherrar hafi farið með fje landsins í stjórnartíð hans. Hv. þm. (JM) hefir búist við því, að betra væri að vera vel undirbúinn umræðurnar, því að hann kemur með skrifaða ræðu, auk punkta frá stallbróður sínum, 1. þm. Skagf. (MG). Jeg skal taka það fram, að jeg, sem er yngstur í þessari hv. deild, leyfi mjer .aldrei slík stóryrði, sem elstu menn þessarar hv. deildar viðhafa. þeir tala því miður of oft eins og illa mentir menn, þegar þeir eru í einu reiðir og ölvaðir, rjett eins og þeir væru að skrifa í Morgunblaðið. Jeg get eigi neitað því, að mjer virðast slíkar geðæsingar manna frekar bera vott um slæman málstað, enda hygg jeg, að svo muni oft vera.

Hv. þm. (JM) mintist á landsdóm inn. Jeg mintist á þessa ferð 1920, af því mjer blöskraði fjáreyðslan á þessu tímabili og jeg áleit, að rjett væri að gera athugasemdir við verstu liðina. Það er gagnslaust að vitna í samþykt landsreikninganna hjer á þinginu. Þingið framkvæmir aðeins töluendurskoðun. En ef rannsaka ætti krítiskt, þyrfti til þess nefnd með dómsvaldi. Ef til vill kæmist rannsóknarnefnd að sömu niðurstöðu og hv. 4. landsk. þm. (JM) um, að eyðslan hafi verið óhjákvæmileg. Mundi öllum vera gleði af því, ef fyrverandi stjórn gæti hreinsað sig af öllum grun um óspilunarsemi.

Þá kem jeg að því, er hv. þm. (JM) sagði, að jeg hefði dróttað að sjer óráðvendni í þessu sambandi. Þetta er hinn mesti misskilningur hjá hv. þm. Jeg tók það einmitt fram, að jeg áliti þetta eingöngu mikla eyðslu við ferðina. Jeg álít einnig, að þetta sje alt of lítil upphæð til þess, að nokkur ráðherra færi að hnupla henni. Það hefði verið skiljanlegra, ef upphæðin hefði verið miklu stærri. En jeg skal taka það fram, að jeg álít, að hv. þm. (JM) sje af þeim gamla skóla í landinu, sem er ólíklegur til að spekúlera með landsfje í eigin hagsmunaskyni. En jeg get eigi fallist á það, að eigi megi finna að eyðslu ráðherranna á ferðum þeirra í þjónustu landsins. Mun jeg minnast seinna á stærstu útgjaldaliðina í stjórnartíð hv. þm. (JM), t. d. móttöku erlendra gesta landsins, sem hafði geysilegan kostnað í för með sjer. Er eigi óhugsanlegt, að fara hefði mátt öðruvísi að þá, t. d. með því að eyða eigi miklu fje í það að reisa veisluskála við Iðnó o. fl.

Þá mintist hv. þm. (JM) á það, að ádeilur í blöðum á hann kæmu af persónulegri óvild minni. Jeg get sagt hv. þm. það, að jeg ber engan persónulegan kala til hans nje annara pólitiskra andstæðinga minna. Jeg held aðeins, að landsstjórnin, sem hann var formaður fyrir, hafi farið skakka leið í mörgum efnum, og jeg hefi eigi viljað láta það óátalið.

Jeg veit það líka, að hv. 4. landsk. þm. (JM) er það kunnugt, engu síður en mjer, að þeir erlendir menn, sem til Íslands koma úr stórborgunum og hinu hæsta fjelagslífi þar, dettur eigi í hug að ætlast til þess, að jafnfáment og fátækt land sem Ísland er hafi upp á glaum og glys stórborganna að bjóða. Þeir koma hingað sjer til andlegrar og líkamlegrar hressingar, til þess að endurnæra sig við fjallaloftið og hina einföldu fegurð landsins. Konungar og stórmenni gista Sviss árlega og búa þar í einföldum íburðarlausum gistihúsum. Konungur vor hefir sýnt það, hvernig hann lítur á þessi mál. Danir ætluðu á silfurbrúðkaupsdegi þeirra hjóna að gefa þeim fagran búgarð, en konungur og drotning sendu þau skilaboð, að af því, hversu erfiðir tímarnir væru fyrir þjóðina, þá kysu þau heldur, að þeirra væri minst á einfaldari hátt. Og öll framkoma þeirra hjer bendir í sömu átt. Drotningin klæddi sig mjög íburðarlaust, og þau hjónin óskuðu þess, að á móti þeim væri tekið á sem einfaldastan hátt, því þau vissu, að landið er fátækt. Það hefði verið betra að láta nægja hina gömlu góðu íslensku gestrisni, eins og hún kemur fram í bestu mynd sinni, en vera eigi að draga mörg hundruð Reykvíkinga úr bænum til Gullfoss og Geysis.

Við eigum að koma fram yfirlætislaust sem sú þjóð, sem við erum, en eigi vera með barnalegan uppskafningshátt.

Það má vel vera, að hv. þm. (JM) kalli þetta róg. Jeg get ekki gert að því, þótt honum svíði svo alt umtal um gerðir hans í almennum málum.

Dýra ferðin 1920 útskýrir alt, sem okkur ber á milli. Það er blærinn við athafnir þessa hv. þm. og fylgifiska hans, en ekki hinar einstöku tölur, sem er mesta ágreiningsatriðið. Það má vel vera, að jeg taki þetta einhvern tíma síðar betur til meðferðar, og minnist þá á ýmislegt, sem stendur í sambandi við það, eins og t. d. frægu dönsku ræðuna: „Vejret har været“ o. s. frv.(JM: Hvað á hv. þm. við?). Kannast ekki hv. þm. (JM) við ræðu þá, er hann hjelt við Ölfusárbrú við komu hans hátignar konungsins ? Þegar hann fór að þakka hans hátign konunginum fyrir góða veðrið, en hinn tigni gestur varð að taka fram í og segja, að það væri annar hærra uppi, sem rjeði veðurfari. Svona fúlt smjaður er óþekt erlendis síðan á einveldistímunum. Jafnvel gestirnir sjálfir verða að mótmæla framkomu ráðherrans.

Þá er það rangt hjá hv. þm. (JM), að fyrverandi fjrh. (MagnJ) hafi gefið mjer nokkrar upplýsingar viðvíkjandi ferðalögum ráðherranna. En það hefir viljað koma fyrir fyr en nú, að ýmislegt hefir borist út úr stjórnarráðinu. Jeg get t. d. nefnt viðvíkjandi þeirri litlu stofnun, sem jeg stend fyrir, að í stjórnartíð þessa hv. þm. (JM) voru reikningar og aðrar upplýsingar gefnar úr stjórnarráðinu, sem notaðar vora svo af andstæðingum mínum og samvinnuskólans til persónulegra árása á einstaka samvinnumenn. Gæti þetta vegið salt á móti þeim upplýsingum, sem jeg hefi nú fengið.

Jeg tók þetta ferðalag sem dæmi upp á eyðslu, og stendur það ómótmælt. Tölurnar eru óhrekjandi. Tveir ráðherrar hafa siglt jafnlangar ferðir, til því nær sömu staða, og eytt mjög misjafnlega miklu, annar 3700 kr., en hinn liðlega 9 þús. kr.

Hv. þm. (JM) gat um það, að ekki væri rjett að nefna hjer undirráðherra, sökum þess, að allir væru jafnt settir. Jeg skal ekki deila um það, en jeg veit þó til, að þetta er svo talið í Englandi, sbr. nöfn ráðherranna, t. d. Undersecretary of State o. fl., og svipað mun vera í Svíþjóð. Mjer virðist nú líka, að hjá oss hafi ekki svo lítið húsbóndavald gert vart við sig hjá forsætisráðherrunum, sbr. úrskurðinn fræga, eða valdaránið, sem allir þekkja.

Hv. þm. (JM) sagði, að ef nokkur einn maður væri fær um að taka að sjer fjármálastjórn landsins og koma fjármálunum í lag, þá væri það hv. 1. þm. Skagf. (MG). Enda þótt sá hv. þm. hafi ráðist á einn af vinum mínum, Tryggva Þórhallsson ritstjóra, í Nd., þá ætla jeg nú ekki að gjalda honum í sömu mynt. En undarlegt þykir mjer, að sá maður, sem Morgunblaðið breiðir svo faðminn út á móti, skuli ekki svara í því blaði, heldur nota þinghelgina til að svara blaðagreinum með persónulegum skömmum. Það er þó venja að svara þingmönnum á þingi og blaðagreinum í blöðum. Er ekki hægt að leggja þessa aðferð hans út á annan veg en að hann skorti mjög á velsæmistilfinningu og smekk. Jeg býst við, að það verði erfitt að koma þjóðinni í skilning um, að þessi maður sje færastur um að bjarga henni nú út úr fjármálaógöngunum, eða hafi verið hinn besti af öllum hugsanlegum fjármálaráðherrum 1920–21.

Þetta lof verður skoðað sem fyndið öfugmæli. Þótt þessi maður geti verið góður og gegn sýslumaður, þá vantar hann flesta kosti og hæfileika, sem fjármálaráðherra þarf að hafa. Rökstyð jeg þessi orð mín með því, hvernig fór þessi ár, sem hann hafði fjármálastjórnina á hendi. Það er ekki gott að verja það, að fjáraukalögin fyrir árin 1920–1921 skyldu fyrst lögð fyrir þingið nú í vetur. þjóðin varð líka hissa, er þetta bláa plagg kom fram. Auðvitað mátti búast við því, að dýrtíðaruppbót o. fl. frá þeim árum mundi einhversstaðar koma fram, en svona háum tölum átti enginn von á, enda er engu líkara en að stjórnin hafi lifað eins og engin fjárlög væru til.

Þá mintist hv. 4. landsk. þm. (JM) á krossana. Kvað hann mig hafa beint því algerlega að sjer, að þeir hefðu komist á. Jeg skal ekki fullyrða, hver var fyrsti upphafsmaðurinn í því máli, en hitt er víst, að það var hv. 4. landsk. þm. (JM), sem bar málið fram til sigurs á örmum sínum. Var það og einmitt á þeim tíma, sem margt nytsamt fyrirtækið var ógert látið sökum efnaskorts ríkissjóðsins. Má þar meðal annars j benda á byggingu Eiðaskólans. Hjer við bætist svo, að ljettúðarfull útbýting krossanna hefir hjálpað til að gera þessa ráðstöfun hlægilega. Verð jeg að hallast að skoðun Vesturheimsmanna í því, að krossar verði yfirleitt ekki til að örva hinar æðri hvatir manna eða ala fólk upp til manndóms, heldur geti þeir jafnvel oftar orðið til þess að gefa hjegómagirni og öðrum ættsmærri hvötum mannsins byr undir báða vængi. Tel jeg af þessum sökum óheppilegt, að íslenska ríkið skyldi taka upp krossaframleiðslu. Ættu krossarnir að minsta kosti ekki að vera notaðir nema til að launa með björgun úr eldi og sjó, eða önnur slík afreksverk. Þá gætu þeir ef til vill haldið gildi sínu. En að veita þá mönnum án nokkurra verulegra verðleika, eftir vináttu eða flokksfylgi, getur ekki orðið til annars en að draga stofnunina niður og gera krossana einkisverða. Einnig virðist mjer vel geta komið til mála, að krossarnir yrðu aðeins veittir útlendingum, sem unnið hafa einhver afrek í þágu þjóðarinnar. En nú er það ekki gert. Að vísu fekk einn danskur maður kross í sumar, en engum er mögulegt að geta sjer til, fyrir hvað honum veittist sú æra. Annars mætti benda á fleiri en einn erlendan fræðimann, sem hafa unnið Íslandi ómetanlegt gagn með skrifum sínum, og veit jeg þó ekki til, að neinum hinum merkustu þeirra hafi verið veitt þessi sjálfsagða viðurkenning.

Hv. 4. landsk. þm. (JM) kvað það undarlegt að vera að finna að byggingaframkvæmdum á Vífilsstöðum, en geta ekki neitt um Hvanneyri, þar sem kostnaður muni þó hafa verið öllu tilfinnanlegri. Hv. þm. missýnist hjer eins og oftar. Á Hvanneyri býr í húsi þessu fjöldi fólks, kennarar og starfsfólk. En á Vífilsstöðum var bygt fyrir 175 þús. yfir eina fjölskyldu.

Annars láðist hv. þm. að koma fram með skýringu á því, sem jeg spurði einkum að, en það er, af hverju ekki hafi strax verið bygt nýtt hús fyrir barnadeildina á Vífilsstöðum, í stað þess að fara að breyta bústað læknisins í barnadeild og eyða til þess sjer í lagi um 20 þús. kr.

Um hv. 1. þm. Skagf. (MG) og fjáraukalögin er það að segja, að það er þýðingarlaust fyrir hv. 4. landsk. þm. (JM) að vera að reyna að verja það mál. Þeir fjelagar lögðu lögin ekki fram af þeirri einföldu ástæðu, að þeir óttuðust, að það kynni að hafa slæm áhrif á landskosningarnar, sem þá stóðu fyrir dyrum, ef landsmenn fengju að sjá, hve sukk þeirra var mikið. Þetta var náttúrlega rjett reiknað út frá hagsmunum flokksins og hv. 4. landsk. þm. (JM), en það var ekki að sama skapi heppilegt fyrir þjóðina. Henni hefði sannarlega ekki veitt af því að fá þá í tíma að sjá plöggin hjá þessum ráðagóðu ráðsmönnum sínum.

Þá kom hv. 4. landsk. þm. (JM) með það, að jeg bæri fram þessa „kritik“ mína á kostnaði við ferðalög ráðherra af því að jeg væri persónulegur fjandmaður hans. Þessu mótmæli jeg. En jeg verð að viðurkenna, að því verður alls ekki neitað, að þessi hv. þm. (JM) virðist sýna mjer fjandskap í meðferð þjóðmála. Hann hefir svo að segja ætíð verið á móti öllum mínum tillögum, svo þar liggur nær grunurinn um persónulega óvild. Til dæmis vil jeg nefna frv. mitt um friðun Þingvalla, þar sem allir sæmilegir menn í landinu eru í aðalatriðum samþykkir frv. En þessi aðferð er gersamlega ólík minni aðferð. Jeg mæli með mönnum og málefnum án tillits til flokka eða hverjir að þessu eða öðru máli standa. En meðal flokksmanna hv. 4. landsk. þm. (JM) er þetta daglegur siður, að blanda saman mönnum og málum. Þannig rjeðist t. d. 1. þm. Skagf. (MG) á 1. þm. Rang. (GunnS) í Nd. í gær með persónulegum skömmum fyrir alls engar sakir, og beið að lokum herfilegan ósigur, sem rjettlátt var. Það er því rangt hjá hv. 4. landsk. þm. að álíta, að mismunandi skoðanir í stjórnmálum sjeu hjá öllum sprottnar af persónulegum ástæðum. Jeg er jafnpersónulega ókunnur hv. 4. landsk. þm. og núverandi ritstjóra Morgunblaðsins. Það líður varla sá dagur, að eigi komi þar meira eða minna fjandsamleg „kritik“ á mjer og mínum gerðum. En þegar jeg hitti ritstjóra Morgunblaðsins, leggjum við niður herklæði og vopn, göngum saman eða fáum hressingu á gildaskálum. Þannig eiga stjórnmálamenn að breyta, og það gera flestir, nema þeir, sem eru mjög haturssjúkir, eins og mig grunar, að hv. 4. landsk. þm. sje. En stuðningsmenn hv. 4. landsk. þm., kaupmenn, búa við Tímans menn að fordæmi hv. 4. landsk. þm. Hefir t. d. nú nýlega verið haft eftir einum þeirra, að rjettast væri að drepa mig fyrir dánarminning, sem jeg ritaði eftir Hallgrím heitinn Kristinsson forstjóra. Þegar slík persónuleg heift gerir vart við sig hjá mótstöðumönnum okkar, er eigi nema ofureðlilegt, þótt við samvinnumenn látum bleyðimenni þessi stundum kenna á hvössum vopnum.

Þá talaði hann um aðfinslurnar við stjórnarráðskvistinn, og það gladdi mig, að hann taldi það orðið of fornt til þess að koma fyrir landsdóm. En upplýsingar hans fóru í þá átt, sem jeg bjóst við, að þar var skilað aftur rangfengnu fje. Held jeg, að þarna hafi einmitt linleikur stjórnarinnar komið fram. Smiður þessi reiknaði vitlaust og landið stórtapaði á því; en þegar rannsókn var búin að leiða þetta í ljós, skilaði maðurinn aftur hinum illa feng. Slík sætt er ekki heppileg fyrir dómsmálaráðherra, þótt hún hafi verið góð fyrir smiðinn. Dæmi þetta sannar, að orð þau, er hann las upp úr umburðarbrjefi Tímans, eru eigi mælt að ófyrirsynju.

Þá kem jeg að „legátunum“. Þar er ekki í grafgötur farandi; á þeim ber hv. 4. landsk. þm. ábyrgðina, að minsta kosti þeim, sem er í Danmörku. Jörundur Brynjólfsson, núverandi bóndi í Skálholti, mótmælti þessu í fyrstu, en þegar hv. 4. landsk. þm. tjáði honum, að loforð hefði verið gefið um þetta og Danir myndu reiðir verða, ef það yrði rofið, ljet Jörundur undan síga. Jörundur hefir sjálfur sagt mjer þetta, og veit jeg því, að þetta er satt. Veit jeg og, að hv. 4. landsk. þm. (JM) hefir álitið þetta mjög nauðsynlegt, og ber hann því ábyrgð á stofnun þessa embættis, þótt þingið samþykti það fyrir hann. Það er og eigi sanngjarnt af hv. 4. landsk. þm. (JM) að áfellast þá, sem vildu lækka laun þessa manns, því að úr því embættið er stofnað, er vandinn meiri, og ef maðurinn getur ekki lifað, verður að bæta honum það. Sannast hjer sem oftar, að sá veldur miklu, sem upphafinu veldur.

Jeg hefi ávalt verið á móti þessu og hygg það best að taka upp aftur gamla fyrirkomulagið með skrifstofuna, eins og hún var áður en fullveldið fæddist. Það er ekki neitt ósamræmi hjá mjer, þótt jeg teldi erindrekann í London hafa meiri rjett á sjer, því jeg álít það hafa meiri þýðingu fyrir oss að hafa mann þar, og svo var fyrirkomulagið á því embætti meir að mínu skapi. Þar var engin sundurgerð eða tildur. Maðurinn vann sín verk þar hispurslaust í þjónustu síns lands.

Þá er það og legátinn í Genúa. Jeg skal ekki neita því, að það kunni að hafa verið vorkunn, þótt stjórnin sendi hann, en það, sem aðallega er aðfinsluvert, var ekki að hann var sendur, heldur var það rekistefnan eftir á og kostnaðurinn við þetta embætti, sem á endanum dó úr hor og brugðnum heitum. Jeg veit til þess, að Gunnar Egilson hefir sent langt kæruskjal út af meðferð þeirri, er hann varð fyrir frá hálfu fyrverandi stjórnar; t. d. fekk hann aldrei erindisbrjef. Suðurganga Gunnars varð þess vegna þýðingarlaus, nema hvað hún kostaði landið mikið.

Ef til vill er mesti og óþarfasti kostnaðurinn, að sendiherranum í Kaupmannahöfn sleptum, bundinn við erindrekana í Vesturheimi. Því var haldið fram, að allsendis óþarft væri að hafa þar tvo sendimenn, en sú ónauðsynlega ráðstöfun bakaði landinu 50–100 þús. kr. aukakostnað. Annars hefði jeg haldið, að ekki væri gróði að vekja upp þetta sendiherramál fyrir þá, sem að því standa. Mun það sönnu næst, að um flest þeirra hafi meir komið til tildur en brýn nauðsyn, og víst er um það, að þjóðinni hafa þau orðið dýr.

Þá segir sami hv. þm. (JM), að sjer hafi verið fundið til foráttu, að hann hafi ráðið fjölda manns að áfengisversluninni. Jeg get tekið það fram, að jeg hefi ekkert sagt í þá átt, en vel má vera, að einhverjir aðrir hafi borið honum slíkt á brýn. Upplýstist það og við ræðu hans, að hann hefir ráðið lyfsala austan af Seyðisfirði til að veita versluninni forstöðu, og hefir sá maður verið þegar farinn að starfa og taka kaup, er núverandi stjórn tók við völdum. (JM: Jeg rjeði hann ekki til þriggja ára). Það er lítið atriði; hann var orðinn fastur starfsmaður og ekki annað eftir en festa samninginn á pappírnum. Er þetta því engin efnisvilla. Þá býst jeg við, að það gæti heldur bent í þá átt, að ekki hafi verið sparlega á haldið, að skrifstofustjóri einn úr stjórnarráðinu er ráðinn eftirlitsmaður við verslunina með 2500 kr. þóknun. Þótt þetta sje ekki stór póstur, þá hefði samt ekki farið illa á því, að endurskoðunarmanni landsverslunarinnar hefði verið falið þetta starf, án þess það hefði þurft að hafa mikinn aukakostnað í för með sjer. En nú vill þessi hv. þm. (JM) ekki taka á sig nema lítinn hluta af því ólagi, sem öllum kemur saman um, að hafi verið á áfengisversluninni, og er þó ekki hægt að bera á móti því, að sá, sem upphaflega valdi forstjóra verslunarinnar, hlýtur að bera ábyrgðina af því, ef um eyðslusemi í mannahaldi er þar að ræða, og verður þá álasið um óreglu þá, sem af því leiðir, að bitna mjög á honum. Og svo er því nú varið, að ekki mun öllu meira mannahald við annað fyrirtæki í bænum en þetta. Þó skal tekið fram, að forstjórinn mun ekki hafa ráðið alla mennina, en hann hefir að minsta kosti ekki beitt sjer á móti því, að láta stjórnina bæta við mönnum, eins vel og honum bar. Og enn get jeg ekki látið hjá líða í þessu sambandi að minnast á það, að hv. 4. landsk. þm. (JM) tókst að fella frv. um það, að pakkhús landsins, Nýborg, yrði tekið undir áfengisverslunina, og var það með þeim rökstuðningi, að ekki væri hægt að nota húsið án leyfis byggingarnefndar. Sköðuðumst vjer þar um mikla fjárhæð, með því að stjórnin hafði ekki litið svo á, að hún gæti breytt húsinu í trássi við byggingarnefnd, en varð í þess stað að leigja húsnæði fyrir of fjár.

Þá mintist hann á sjálfan sig sem ráðherra í sambandi við bannlögin. Jeg vænti þess, að ekki sje of fast kveðið að, þótt jeg segi, að hann hafi enginn skörungur þótt í gæslu bannlaganna. Hefi jeg áður minst á Blöndahlsdóminn. Jeg þykist vita, að hann hafi reynt að gera skyldu sína eftir fylstu getu, en bannmenn voru víst oft óánægðir með það, hvað getan var lítil. Að minsta kosti mun jeg ekki einn um þá skoðun.

Enn kom hann með þær frjettir, að ritstjóri Tímans hefði sent rógbrjef um hann út um land fyrir kosningamar síðast. Jeg held, að hv. 4. landsk. þm. (JM) hafi ekki gætt fyllilega tungu sinnar, er hann talaði um rógburð í þessu sambandi. Og kafli sá, sem hann las upp úr þessu brjefi, fanst mjer aðeins hógvær og rjettmæt lýsing á manninum. Veit jeg ekki einu sinni, hvort kaflinn var rjett til færður, þótt mjer þyki líklegt, að svo sje. En sje um meiðyrði að ræða í brjefinu, þá er hægur nærri að skjóta þeim til dómstólanna. Annars finst mjer lítil ástæða til að vorkenna hv. þm. (JM) þá gagnrýni, sem hann varð fyrir við kosningamar í sumar. Mig minnir, að jeg hafi líka fengið að heyra sitt af hverju frá stuðningsblöðum hans, og kannske engu færra en hann, en mjer hefir aldrei til hugar komið að kvarta undan því.

Loks kom svo það, að hv. 1. þm. Skagf. (MG) hafði sagt, að ritstjóri Tímans hefði boðið sjer að vera ráðherra. Jeg hafði ekki heyrt þetta áður, en hjá hlutaðeigandi manni fekk jeg að vita, að þetta er uppspuni, svo sem vænta mátti. Og hvað þýddi líka, að utanþingsmaður byði slíkt? Til að vera ráðherra þarf stuðning þingsins. Þetta er því hin fáránlegasta lokleysa um leið og það er rangt. Hitt er mjer kunnugt um, að einn maður innan Framsóknarflokksins, sem tengdur var kunningsskaparböndum við Magnús Guðmundsson, hefði, eftir atvikum, getað sætt sig við að hafa hann fyrir ráðherra. En nú er ekki kunnugt, að nokkur sje sá í flokknum lengur, sem tæki í mál að styðja hann, eftir að fjáraukalögin eru komin í dagsbirtuna, og eru litlar líkur fyrir, að það útlit batni fyrir honum.

Þá hefir hv. 4. landsk. þm. (JM) í ræðum sínum, bæði nú og áður, minst á, að jeg teldi mig líklegan til að mynda nýtt tímabil í sögu landsins. Jeg hefi aldrei gefið honum tilefni til slíkra ummæla. (JM: En „Komandi ár“?). „Komandi ár“ eru pólitiskar hugleiðingar, sem jeg vænti, að taki allmikið fram því, sem hv. 4. landsk. þm. gæti lagt til slíkra mála, en í þeim greinum er hvergi að finna neitt yfirlæti.

Að síðustu finst mjer ekki illa til fundið, að þar sem hv. 4. landsk. þm. (JM) hefir kosið að snúa fyrirspurninni upp í skilnaðarsamsæti og víkkað svo mjög umræðuefnið, þá sje þó rjett að endurtaka enn, að hann hefir eytt 9–10 þús. kr. í ferðakostnað, þar sem annar ráðherra gat komist af með 3–4 þús. kr. jafnlanga ferð. En þessi eyðsla þm. er víst hans hugsjónir, hans „komandi ár“. En jeg vil enda mál mitt á því, að eins og jeg óska, að allir ráðherrar, sem aðrir starfsmenn ríkisins, gættu hinnar fylstu sparsemi og hógværðar, veit jeg og fullvel, að hv. 4. landsk. þm. hefir haft gott af aðhaldi blaðanna og þessum umræðum. Ef það á fyrir honum að liggja að verða ráðherra aftur, þá endurfæðist hann í nýrri og bættri útgáfu.