30.04.1923
Neðri deild: 53. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

92. mál, hlunnindi

Frsm. minni hl. (Magnús Kristjánsson):

Jeg skal hlífast við að halda langa ræðu, en háttv. þm. Ísaf. (JAJ) gaf mjer tilefni til fáeinna athugasemda.

Hann tók það fram, að hann væri hlyntur því, að útlent fje væri flutt inn í landið til þess að versla með. Í fljótu bragði virðist þetta máske rjett ályktað. En svo er um þetta sem um flesta hluti, að þá má of dýrt kaupa, og á það ekki síst við hjer. Enda þótt þeir vilji flytja inn nokkrar miljónir til þess að hjálpa atvinnuvegunum, þá er það þó of dýrt keypt, ef látin eru fyrir öll þau hlunnindi, sem farið er fram á í frv. þessu.

Háttv. þm. (JAJ) var að vísu sammála mjer í því, að nú væri svo komið ýmsum atvinnuvegum, að óvarlegt væri að ganga lengra í bili með það að auka þá, með því að kaupa ný framleiðslutæki ærnu verði og fyrir útlent lánsfje. Þetta er einmitt það, sem bankarnir hafa sjeð, og af því stafar tregðan, sem verið hefir undanfarið um lánveitingar hjá þeim. En svo bætti háttv. þm. því við, að sjálfsagt væri að halda áfram atvinnuvegunum, enda þótt ekki væri hægt að auka þá. Þetta er nú auðvitað rjett, en þá er það líka skylda þeirra banka, sem styrkt hafa atvinnuvegina hingað til, að halda því áfram, auðvitað gætilega. Og það væri siðferðilega rangt, ef bankarnir brygðust nú skyldu sinni, þegar erfiðir tímar koma, og köstuðu henni yfir á nýja stofnun. Það er ekki mikið, sem okkur ber hjer á milli, en jeg vona, að háttv. þm., sem er bankastjóri, og aðrir bankastjórar hjer skorist ekki undan þessari skyldu sinni.

Háttv. þm. gat því næst um það, að við borð lægi, að sjávarútvegurinn hlyti að stöðvast sökum skorts á rekstrarfje. En þetta er ofsagt, því fyrir skömmum þegar sjávarútvegurinn þurfti á rekstrarfje að halda, þá lá í sjóði hjá bönkunum um 4 miljónir króna, og þegar svo er ástatt, en þörfin brýn fyrir rekstrarfje, ætti að skylda bankana til að láta fjeð af hendi. Nei, það er alls ekki skortur á veltufje, sem hjer veltur á. Þetta skilur háttv. þm., og er því óþarfi að vera að leggja áherslu á það.

Enn fremur gat háttv. þm. um það, að óþarfi væri að setja fastar skorður fyrir því, hvað háa vexti bankinn mætti taka, því þjóðbankinn hefði í hendi sjer að varna því, að þetta verði misnotað. Svo á það náttúrlega að vera, en þjóðbankinn hefir sýnt, að hann er ekki fær um þetta, því að jeg veit ekki betur en Íslandsbanki hafi leyft sjer að taka alt að 11/2% hærri vexti en Landsbankinn. Þetta eru því alls ekki nægilegar hömlur.

Annars skal jeg taka það fram, að það ber keim af barnaskap, ef ætlast er til, að þjóðbankinn fari að leika stórveldi, þ. e. að hans hlutverk eigi aðeins að vera að veita seðlalán til annara banka í landinu. Þetta er hreinn misskilningur á ætlunarverki bankans. Við erum ekki þess megnugir að fara að láta hann apa eftir þjóðbönkum stórveldanna, með tugi eða hundruð miljóna íbúa. Okkar banki verður að gera svo vel, þó að seðlaútgáfan komist í hans hendur, að standa í beinu sambandi við einstaklinga eftir sem áður, en ekki að hugsa eingöngu um að hafa náðugt, lána öðrum bönkum og nota þá sem milliliði.

Þá er jeg hræddur um, að háttv. þm. hafi misskilið mig, annað hvort viljandi eða óviljandi, þegar jeg talaði um, að menn hefðu verið alt of bjartsýnir í mótorbátakaupum undanfarið. Það var fjarri mjer að ætla á nokkurn hátt að beinast að hans kjördæmi í þeim efnum. Álít jeg þvert á móti, að þeir hafi verið fremur hepnir með sín kaup, því þeir keyptu svo snemma. En eins og háttv. þm. er kunnugt, hafa menn víða á landinu skaðast mjög á mótorbátunum o. fl. þesskonar tækjum.

Finn jeg svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta að þessu sinni.