02.05.1923
Neðri deild: 55. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í B-deild Alþingistíðinda. (378)

92. mál, hlunnindi

Frsm. minni hl. (Magnús Kristjánsson):

Hv. 1. þm. Reykv. (JakM) vildi eindregið ráða hv. deild til að fella brtt. mínar á þskj. 510. Þetta kom mjer ekki mjög á óvart, því að jeg bjóst við þessu. Háttv. þm. vill reyna að vera sjálfum sjer samkvæmur í málinu, og þó að hann hafi, að minni hyggju, tekið ranga stefnu, vill hann halda þá braut, hvar sem lendir. Getur verið, að hann hafi ekki athugað nógu rækilega, hvert leið liggur.

Annars furðar mig stórum, að hv. þm. skuli vilja halda því fram, að kjör þau, er meiri hl. nefndarinnar vill áskilja ríkissjóði til handa, sjeu aðgengilegri en gert var ráð fyrir á þingi 1920. Þetta vill hann rökstyðja með því, að þá var í nefndarálitinu gert ráð fyrir, að verja mætti 15% af arðinum til varasjóðs og hluthafaarðs. Jeg hygg, að hv. þm. muni veitast erfitt að sanna það reikningslega, að það hafi verið lakari kjör fyrir ríkissjóð en nú er gert ráð fyrir. En hann hefði mátt taka það fram, hefði hann viljað skýra málið samviskusamlega fyrir hv. deild, að sá arður, sem ríkissjóður átti þá að fá, eftir áðurgreindan frádrátt, var miklu hærri heldur en jeg fer fram á í brtt. minni. Mun háttv. þm. varla hafa áttað sig á þessu, því að mjer kemur ekki til hugar að halda því fram, að hann hafi vísvitandi skýrt rangt frá eða dregið undan.

Þá vildi háttv. þm. fullyrða, að meiri hluti fjhn. væri óskiftur á hans máli. Jeg veit ekki, hvaða heimildir hann hefir fyrir þessu, en jeg þykist mega fullyrða, að sumir háttv. nefndarmenn úr meiri hlutanum líti svo á, að brtt. mínar sjeu nær sanni en frv.

Um 2. og 3. brtt. á þskj. 510 sagði hv. þm., að einu mætti gilda, hvort þær yrðu samþyktar eða ekki; þær skiftu litlu máli. Jeg vænti þá þess, að hann sýni það í verki við atkvgr. Ef háttv. þm. ber bankann svo mjög fyrir brjósti, sem hann lætur í veðri vaka, ætti honum að vera ant um að auka traust hans sem mest inn á við og út á við, og geri jeg því ráð fyrir, að hann muni fallast á 2. og 3. brtt. mína. En um þetta er þarflaust að fjölyrða. Jeg ber svo mikið traust til dómgreindar og sanngirni meiri hluta þessarar hv. deildar, að hann geti aðhylst tillögur mínar, svo hóflega sem þar er farið. Ef svo skyldi fara, að vafi vaknaði með þjóðinni um það, hvort unnið hafi verið happaverk eða óheillaverk með veitingu þessa leyfis, mundu flutningsmenn þess og formælendur tvímælalaust standa miklu betur að vígi með því að samþykkja tillögur mínar, því að þær gera málið aðgengilegra frá sjónarmiði þeirra, sem vilja gæta hagsmuna þjóðarinnar.