17.04.1923
Neðri deild: 44. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í B-deild Alþingistíðinda. (422)

83. mál, fræðsla barna

Pjetur Ottesen:

Jeg heyrði það á ræðu háttv. 1. þm. N.-M. (ÞorstJ), að honum var ekki enn runnin reiðin frá síðasta þingi. Hann hafði þá ekki tækifæri til að svala sjer á háttv. Ed., og þess vegna brýst reiðin út nú. Hann valdi lögunum ýms hæðileg orð. En jeg og ýmsir aðrir líta nú öðruvísi á. Jeg álít, að breytingarnar, sem gerðar voru á fræðslulögunum í fyrra, sjeu spor í rjetta átt og að rjett sje, að haldið verði lengra síðar í þá sömu átt. Jeg tel nú komið í ljós, að þær hafi gefist vel, og vænti, að það eigi eftir að koma betur fram.

Út af orðum þessara tveggja háttv. guðsmanna hjer í deildinni — það er þeirra einu prestvígðu manna hjer í deildinni — um að prestunum bæri engin skylda til eftirlits með barnafræðslunni samkvæmt fræðslulögunum, vil jeg geta þess, að þetta er nú ekki rjett vel sannleikanum samkvæmt, og því ekki prestslega mælt. enda ríður það beinlínis í bág við þeirra eigin ummæli um það hjer í deildinni. þegar rætt var um stofnun á nýju prestsembætti í Bolungarvík hjerna um árið. („MJ: Kemur það nú aftur!) Já, kemur það nú aftur! Töluð orð og bókfest verða nú ekki aftur tekin og það verður ekki umflúið, og getur háttv. 4. þm. Reykv. (MJ) sjálfum sjer um kent. Það var lesið yfir hausamótunum á honum hjer í deildinni um daginn. við 1. umr. þessa máls, og sjest á því, að hann hefir nú algerlega komist í mótsögn við sjálfan sig. Hið sama hefir einnig hent samherja hans. háttv. þm. N.-Ísf. (SSt).

Það ætti í rauninni að vera óþarft að vera að margendurtaka það, að sjálfsagt sje að krefjast þess, að prestarnir geri skyldu sína og vinni án sjerstakrar aukaborgunar það, sem á þeim hvílir lögum samkvæmt, og eitt af því er að hafa eftirlit með fræðslu barna. Það hvílir sem sje sú skylda á þeim að lögum að fara tvær húsvitjunarferðir um sókn sína til eftirlits með uppfræðslu barna. En ætli þeir sjeu nú ekki fáir, sem uppfylla þessa lagaskyldu þar, sem þetta er í besta lagi, mun vera húsvitjað einu sinni á ári. En hitt er víst, að sumstaðar eru húsvitjanir alveg vanræktar. Ástæðan máske sú, að þeir fá ekki greiddan sjerstakan ferðakostnað fyrir húsvitjanirnar. Það lægi máske næst að draga þá ályktun af orðum þessara tveggja háttv. samherja hjer. Það er þessi hugsun, sem allmikið bólar á, að telja að þetta og þetta sje óviðkomandi embættinu, og því eigi þeir að fá sjerstaka aukaborgun fyrir það, jafnt þó það sje skýlaust skyldustarf og fullborgað með embættislaununum. Þar sem húsvitjunarferðirnar eru nú svo af hendi intar, sem jeg hefi nefnt, en eftirlit með barnafræðslunni hvílir tvímælalaust á prestunum, þá sjá allir, að það er ekki nema rjett og sanngjarnt, að þeir hafi á hendi prófdómarastarfið án nokkurrar frekari greiðslu en í launum þeirra felst. Nú er búið að hækka laun þeirra eins og allra annara embættismanna.

Háttv. 4. þm. Reykv. (MJ) sagði, að þeir þdm., sem greiddu atkvæði á móti þessu frv., mundu vilja losna við prestana fyrir prófdómara; og þessu halda þeir báðir fram. háttv. þm. N.-Ísf. (SSt) og hann, því að yrði frv. þetta felt, mundu afleiðingarnar verða þær. Væri slíkum getsökum beint að minni stjett, bændunum, þá hefði mjer fallið það þungt og þótt ómaklega mælt. En þó það standi nú öðrum nær en mjer að svara getsökunum í garð prestanna, þá verð jeg þó að segja það, að mjer virðist, að prestunum svona yfirleitt sje gert rangt til með þessari ályktun. Jeg þykist vita, að margir prestar telji þetta skyldu sína og sjeu fúsir að fullnægja henni. Jeg held, að prestar yfirleitt taki þetta ekki svo, að meta prófdómarastarfið aðeins eftir peningunum, og jeg held yfirleitt, að þessi hugsunarháttur sje ekki almennur í fari þeirra presta, sem búa úti í sveitum, að minsta kosti.

Háttv. 4. þm. Reykv. (MJ) segir, að þetta sje borið fram að tilhlutun Prestafjelagsins, og sje þetta almenn krafa presta landsins. Álít jeg, að það stafi af því, að þeir hafi orðið fyrir áhrifum í þá átt hjer í Revkjavík. t. d. á synódus; þangað mun það eiga rót sína að rekja. Þessa hugsunarháttar, sem á bak við þessa kröfu liggur, að gera skyldu sína aðeins vegna peninganna, gætir ekki mikið úti í sveitum. Þar leggja prestarnir mikil störf á sig heima fyrir í þarfir opinberra mála í sveitunum, eins og alþýða manna verður að sætta sig við að gera. En hitt þekkir maður, að hjer í Reykjavík vilja embættismenn, eða margir þeirra, fá aukaborgun fyrir hvað eina, og það er út frá þeim hngsunarhætti, sem hjer ríkir, sem mælt er með þessu frv. Og tel jeg óhætt að fella þetta frv., vegna þess að prestarnir munu samt gæta skyldu sinnar og gegna prófdómarastarfinu, þó áð þeim verði ekki lagðir peningar í lófa fyrir það sjerstaklega.