12.03.1923
Efri deild: 15. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í B-deild Alþingistíðinda. (475)

18. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Frsm. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Þessar tvær brtt. á þskj. 106. frá allsherjarnefnd, sem hjer liggja fyrir, eru mjög lítilvægar.

Um brtt. við 2. gr. frv. er það að segja, að hún er fram komin til þess að leiðrjetta setningu, sem átti að standa í greininni, en hefir annaðhvort fallið úr við prentun eða aldrei verið skrifuð inn.

Brtt. við 8. gr. er engin efnisbreyting, en það er eðlilegra að skipa þannig máli og hugsun greinarinnar; hún verður á þennan hátt skýrari.

Vel getur samt verið, að sumir líti svo á, að þetta sje efnisbreyting, því í þriðju málsgrein er tekið fram, hvernig skuli haga sjer, þegar unglingar innan 16 ára eigi í hlut. En það, sem meint er í 2. málsgr., er ætlast til, að gildi einnig um unglinga.

Þá vil jeg geta þess, að hæstv. forsætisráðherra (SE) hefir tilkynt nefndinni, að hann muni sjá um, að brtt. við hegningarlögin, að því er snertir þetta mál, muni lögð fyrir þetta þing.

Þá vil jeg snúa mjer að brtt. á þskj. 111, við 16. gr. Þar er farið fram á, að stjórninni sje heimilað að verja alt að 1500 kr. á ári í ritlaun og til birtingar fræðandi greinum um þessi efni.

Jeg finn enga ástæðu til að lögfesta þetta, því jeg get ekki betur sjeð en í 16. gr. standi þetta, að svo miklu leyti, sem þörf er á því, og skal jeg í þessu sambandi benda á, að læknarnir Guðmundur Hannesson og Steingrímur Matthíasson hafa báðir ritað pjesa um þetta mál, og í þeim er allur sá fróðleikur, sem almenningi er nauðsynlegur um þessi efni. Jeg tel því lítil líkindi til, að það bæti mikið um að fara að verja fje til þess að skrifa frekar um þetta, því að pjesarnir eru báðir til enn þá; enda vafasamt hvort heppilegt sje að rita um þessi mál í blöðin. Legg jeg því til fyrir nefndarinnar hönd, að tillaga þessi verði ekki samþykt.