21.03.1923
Neðri deild: 25. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í B-deild Alþingistíðinda. (560)

24. mál, fjáraukalög 1922

Jón Baldvinsson:

Mjer finst það algerlega óþarft að vera að veita fáeinum mönnum styrk til að halda uppi frjettastofn, svo sem frv. gerir ráð fyrir, að verslunarráðinu sje veitt, ekki síst er stjórnin sendir öll plögg frá opinberum embættismönnum og stjórnarskrifstofunni í Kaupmannahöfn til þessarar skrifstofu til afnota, og það er að mínu áliti nægilegur styrkur. Þó álít jeg það fyrirkomulag alls ekki sem best, því öll þessi plögg liggja þarna grafin fyrir almenningi og þeim, er þurfa þeirra við og ekki eru í fjelagi kaupmanna. Væri nær, að stjórnin kostaði því til að birta öll hin þýðingarmeiri skjöl og skýrslur í blöðunum en grafa þau þannig á skrifstofu Verslunarráðsins.

Jeg vil ekki láta því ómótmælt, er háttv. fjárveitinganefnd segir í nefndaráliti sínu um fjáraukalögin, um tilraun þá, sem gerð hefir verið til nýbýlaræktunar í Mosfellslandi. Það getur verið, að fjárhagur ríkisins sje nú allóhægur, en þetta er eitt af því, sem jeg tel sjálfsagt. Menn getur greint á um það. hvort þetta svæði, sem tekið hefir verið, sje heppilega valið eða eigi, en ekki um það, að slíkar tilraunir eigi að gera. Hvernig ætti annars að fara að því að dreifa fólkinu aftur burt úr kauptúnunum og kaupstöðum yfirleitt; því það er alment viðurkent, að það horfi til vandræða, hvernig fólkið streymir þangað. Annars ætla jeg mjer ekki að fara út í nýbýlamálið að þessu sinni, en jeg álít allar tilraunir, sem miða að því að halda fólkinu kyrru í sveitunum, til bóta. Og hjer er ekki um svo stórar fjárupphæðir að ræða, að nokkru nemi. Jeg sje því enga ástæðu til, að hv. þingmönnum þurfi að vaxa slíkt í augum.