09.04.1923
Efri deild: 35. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í B-deild Alþingistíðinda. (577)

24. mál, fjáraukalög 1922

Forsætisráðherra (SE):

Út af ummælum háttv. frsm. (EÁ) um húsagerðarmeistarann vil jeg taka fram, að mjer er t. d. kunnugt um, að hann hefir unnið fyrir Landsbankann, og er gert ráð fyrir, að borgun verði tekin fyrir það, og verður þá greiddur af því skrifstofukostnaður og aðstoð, eftir því sem það hrekkur. Framvegis mun og tekin borgun fyrir ýms önnur störf, sem húsagerðarmeistari vinnur fyrir aðra að fyrirlagi stjórnarráðsins.

Það er sjerstaklega um eitt atriði í nál. hv. fjvn., sem jeg vildi fara nokkrum orðum. Hv. nefnd kveðst eigi geta verið sammála ummælum í nál. hv. fjvn. Nd., er lúta að því að hvetja landsstjórnina til að setja upp utanríkismálaskrifstofu til að líta eftir verslunar- og markaðshorfum í útlöndum. Jeg vildi aðeins taka það fram, að það er altaf mjög varhugavert fyrir hvaða þjóð sem er, og þá engu síður íslensku þjóðina en aðrar þjóðir, að vera of andvaralaus um utanríkismál sín. Álít jeg það algerlega óhjákvæmilegt fyrir þjóðina að senda menn út á skrifstofur utanríkisráðuneytis Danmerkur, eða annara landa, til þess að afla sjer nauðsynlegrar þekkingar á þesskonar málum.

Því er nú svo varið, að sem stendur höfum vjer trúnaðarmann í utanríkisráðuneytinu danska, sem sje Jón Krabbe. Er það alveg sjerstaklega góður maður í slíka stöðu, og vandfenginn maður með annari eins þekkingu og skilningi á málum vorum, er út vita. Er mjer sönn ánægja að segja þetta hjer á þessum stað. En einhvern tíma rekur að því, að maður þessi láti af þessum störfum, og álít jeg það hina mestu óhæfu, ef eigi er þá til neinn maður með þjóðinni, er næga þekkingu hefir á málum þessum til þess að geta tekið við þeim. Er það hið mesta hirðuleysi um hag landsins, að veita eigi fje til þess, að einhver fær maður afli sjer sjermentunar á þessu sviði. Álít jeg alveg bráðnauðsynlegt að hafa mann til að annast þessi mál í Danmörku, en jeg álít það jafnnauðsynlegt að hafa slíkan sjerfróðan mann hjer heima. En nú sem stendur er hjer enginn slíkur maður. Stjórnin hefir gert alt, sem hún hefir getað, til þess að halda utanríkismálunum sem mest út af fyrir sig, og hefir í því efni haldið áfram í sömu áttina og þegar var byrjað á, en hún hefir því miður eigi haft á að skipa manni með sjerþekkingu á þessum málum til þess að annast þau.

Tek jeg þetta fram út af ummælum hv. fjvn. í greinargerð hennar, svo að Alþingi geri sjer það ljóst, hversu afarþýðingarmikið mál þetta er fyrir íslensku þjóðina, eigi síður en aðrar þjóðir.