07.04.1923
Neðri deild: 36. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í B-deild Alþingistíðinda. (619)

1. mál, fjárlög 1924

Eiríkur Einarsson:

Háttv. þm. hafa tekið sanngjarnlega í þetta mál, þar sem þeir telja sjálfsagt, að spítalinn verði tekinn til einhverra nota og gert svo gott úr málinu sem unt er, úr því sem komið er. Jeg skal líka taka undir það með háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ), að þetta er vandræðamál og ekki til þess fallið að ræðast á eldhúsdegi. En tilefni þess, að jeg tók til máls, var ekki það, að jeg ætlaði að halda langa ræðu gegn stjórninni, heldur vildi jeg gefa skýrslu um afstöðu sýslunefndarinnar í Árnessýslu til spítalamálsins, því að mjer fanst hæstv. forsrh. (SE) gefa þar villandi svör og bera sýslunefndina óverðskulduðum ámælum. Það hefir verið vitnað í skeyti til oddvita sýslunefndarinnar í Árnessýslu og svo skeyti frá oddvitanum til stjórnarráðsins í haust; enn fremur í ályktun aukafundar sýslunefndarinnar, sem haldinn var síðastliðið haust. Þessi yfirlýsing, sem gefin var í haust, er mjer kunnug af viðtali við oddvita sýslunefndarinnar. Oddviti tjáði mjer, að stjórnin hefði sent sjer símskeyti um, að ekkert væri því til fyrirstöðu að borga úr ríkissjóði þetta 80 þús. kr. tillag, ef sýslunefndin heimilaði Eyrarbakkahreppi að taka að sjer rekstur spítalans. Í skeytinu gekk stjórnin fram hjá fjárhagsafstöðu sýslunnar til spítalans. Eingöngu sökum þessa eina skilyrðis, sem stjórnin setti, samþykti fundurinn síðastliðið haust áðurnefnda ályktun, alveg án tillits til framlags sýslunnar. Þessa skýrslu gef jeg hjer eftir oddvita sýslunefndar og einnig samkvæmt framburði margra merkra sýslunefndannanna, sem samþyktu ályktunina eingöngu af því að ekkert annað skilyrði var sett fyrir útborgun ríkissjóðstillagsins en heimild handa einum hreppi til spítalarekstrar. Þótti þeim viðurhlutamikið að neita Eyrarbakkahreppi um heimild til að taka við húsinu, úr því útborgun úr ríkissjóði virtist undir því einu komin. Þannig skildi sýslunefndin þetta; hvort sem undirstöðuatriði þessa máls eru rjett eða röng, þá er það svona og var svona lagt fyrir nefndina. Það var eðlilegt, að þeim Árnesingunum rynni blóðið til skyldunnar, fyrst fyrirtækið gat átt kost á 80 þús. króna framlagi, og vorkunnarmál, að nefndin samþykti skilyrðið um ábyrgð eins hreppsfjelags á móti. Hitt segi jeg ekkert um, hvort rjett hafi verið að leyfa fátæku hreppsfjelagi að taka að sjer spítalann eða ekki, sem vitanlega var honum ofurefli. Það er sjerstakt mál, sem jeg ætla ekki að forsvara nje dæma um.

Mjer þykir það grálega mælt, þegar sagt er, að Árnessýsla smokri sjer undan að uppfylla gefin loforð. Í því sambandi er eitt, sem ekki má þegja um, þegar málið er skýrt, en hæstv. forsætisráðherra þagði um, og stendur það óhrakið. Jeg á við skilyrði það, sem sýslunefndin setti upphaflega fyrir stærð spítalans; hún hefir altaf vitnað til þess síðan. Hygg jeg að hæstv. forsrh. (SE) sje svo mikill lögfræðingur, að hann virði það mikils sem forsendur í málinu. Annað skilyrði, sem sýslunefndin setti fyrir framlagi úr sýslusjóði til spítalans, var, að það skyldi greitt þegar fjárhagsástæður sýslufjelagsins leyfðu. Þetta sýnist máske vera loðið. En það er eðlilegt af hendi sýslunefndar, eins og ástatt var; gefur nefndin með þessu ótvíræða bendingu um, að hún vilji hafa fulla íhlutun um hve nær byrjað verði að byggja spítalann og nota hann. Skilyrðin hafa altaf fylgt í málinu, með þessum orðum eða öðrum, sem þýða bið sama, og get jeg vísað til sýslufundargerðanna um það, sem eru staðfestar til í stjórnarráðinu. Þegar tillit er tekið til hámarks upphæðarinnar. 40 þús. kr., fara að verða skiljanleg skilyrði sýslunefndarinnar um stærð spítalans og íhlutun um hve nær hann verði tekin til starfrækslu.

Jeg viðurkenni, að mjer var nauðugt að skýra frá þessu máli hjer, en jeg komst ekki hjá því, vegna þess, sem fram hefir komið frá öðrum í umræðunum.

Það er rjett, að pólitík hefir blandast í þetta spítalamál, en ekki venjuleg pólitík, heldur læknapólitík, sem er nú kanske síst betri. En því mótmæli jeg, að ræða mín bæri vott um nokkurn hita eða illindi. Jeg hefi ekkert skift mjer af þessari læknapólitík og hefi staðið fyrir utan þetta mál, að öðru leyti en því, sem jeg hefi átt sæti í sýslunefndinni. Finn jeg svo ekki ástæðu til að fara um það fleiri orðum.

Það, sem hæstv. forsrh. (SE) sagði, að sýslunefndin yrði að fullnægja kvöðinni um 40 þús. kr. greiðslu til spítalans, gefur mjer ástæðu til að mótmæla þessu — mótmæla því, að nokkur slík kvöð hvíli á sýslunni um þetta, og það af ástæðum, sem jeg hefi skýrt frá.