09.04.1923
Neðri deild: 37. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í B-deild Alþingistíðinda. (658)

1. mál, fjárlög 1924

Lárus Helgason:

Það var einkum út af ræðu hæstv. atvrh. (KIJ), að jeg vildi segja nokkur orð. Mjer skildist á ræðu hans, að nú væri horfið frá því ráði að tengja saman símalínuna sunnanlands. Þetta kom mjer á óvart; þetta getur ekki verið rjett, því lög um það efni eru ekki úr gildi numin. Þegar reist var loftskeytastöð á Síðu, var þar um bráðabirgðaráðstöfun að ræða, til þess að bæta úr símaleysinu þar eystra, það sem fjárhagur landsins leyfði ekki að koma þá þegar símalínunum saman.

Áður en loftskeytastöðin var reist í Kirkjubæjarklaustri, var á almennum fundi þar ákveðið að halda fast við það, að símalínan sunnanlands yrði tengd saman.

Vil jeg svo fá að heyra frá hæstv. atvrh. (KIJ), hvað stjórnin hugsar um þetta og hvort hún ætlar sjer að vinna að því eða ekki, að fyrirhuguð símalína verði lögð, þegar kringumstæður leyfa.

Jeg hefi alls ekki á móti því, að reist verði stöð í Öræfum, því að þar eru búendur illa settir og eiga allra manna erfiðast með að ná til læknis og bjarga sjer á annan hátt. Með loftskeytastöð þar væri miklum erfiðleikum ljett af þeim, er þar búa. Öræfingar gætu þá fengið lækni á móti sjer, þegar mikið lægi við, og leiðin þannig styst á milli Síðu og Öræfa. Af þessum ástæðum og fleirum, er brýn nauðsyn á stöð í Öræfum, og þó að stöðvar þessar í Klaustri og Öræfum verði að nokkru gagni, þá er samt brýn nauðsyn á símalagningu um þetta svæði, þrátt fyrir þessa bráðabirgðaráðstöfun.

Háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) gat þess, að reisa þyrfti loftskeytastöð á Austurlandi í sambandi við þessar. En jeg geri ekki ráð fyrir, að það sje meiningin, heldur að símasamband komi bráðlega sunnanlands, milli Austfjarða og Reykjavíkur.