10.04.1923
Neðri deild: 38. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í B-deild Alþingistíðinda. (670)

1. mál, fjárlög 1924

Bjarni Jónsson:

Jeg á hjer lítið erindi. Þó vil jeg þakka tveimur hæstv. ráðherrum fyrir að hafa mælt með brtt. mínum. Hæstv. atvrh. (KIJ) þakka jeg fyrir aðstoð hans viðvíkjandi útgáfu manntalsins frá 1703. Eins og kunnugt er, þá er hæstv. atvrh. mikill fræðimaður og veit góð deili á nauðsyn þessa verks. Þess má og geta, að skjal það, sem gefa á út, er hjer að láni, og það þykir tryggilegra um vísindarit að gefa þau út eftir frumritum heldur en eftir afskriftum, þó góðar sjeu, en enginn veit, hversu lengi þetta lán stendur.

Þá vil jeg þakka hæstv. forsrh. (SE) fyrir meðmæli hans með styrk til Kristjáns Jónassonar. Það er viðurkent af Kristjáni og mjer, að hann á enga lagalega kröfu, en það er sanngirniskrafa, að honum verði bætt það tjón, sem hann hefir beðið óverðskuldað vegna heilbrigðisráðstafana.

Þá vil jeg víkja að einu atriði, sem mikið hefir verið rætt hjer, að reisa loftskeytastöð í Grímsey. Jeg var þessu fylgjandi í nefndinni, því að afskektum eyjum og hjeruðum er nauðsynlegt að vera í sambandi við fjölmennari hjeruð, vegna lífsnauðsynja og til þess að ná í lækna eða aðra hjálp. Frá mínum bæjardyrum sjeð á helst að reisa þessar stöðvar með tilliti til Grímseyjar, því að hún er afskektust, og þarf því helst að komast í slíkt samband. Nú er það kunnugt, að Grímseyingar versla aðallega við Húsavík, og mæli jeg þess vegna með því, að landstöðin verði reist þar. Sjerstaklega á þetta við, ef sækja þarf lækni, því að á Siglufirði er oft mikið að gera fyrir lækni, og því erfitt að ná í hann þar, en á Húsavík mundi það oftast auðvelt. Með Siglufirði mælir ekki annað en það, að Siglfirðingar þurfa mest á veiðifrjettum að halda, en þær eru ekki eins nauðsynlegar eins og ef líf og heilbrigði er í veði. Jeg get því ekki fallist á, að stöðin verði á Siglufirði, nema gildari rök verði þar fram borin en gert hefir verið. Það má líka benda á það, að Siglufjörður er ekki eina veiðistöðin nyrðra, og er ekki víst, hve lengi hann hefir forustu á því sviði. Húsvíkingar þurfa líka á veiðifregnum að halda. Mjer virðist alt benda á Húsavík, og þá sjerstaklega ef tekið er tillit til Grímseyjar, og fyrir hana er stöðin aðallega reist. Þá má geta þess, að á milli Flateyjar og Siglufjarðar eru mikil fjöll, og má vera, að þau hefti að einhverju loftskeytasendingar. Mig brestur þekkingu á þessu atriði, og bendi jeg aðeins á það, mönnum til íhugunar, ef það kynni að vera rjett. Húsavík er einskonar höfuðstaður Norð-Austurlands, og hefir henni verið lítill sómi sýndur til þessa. Nú væri það vel fallið að auka veg hennar og reyna að örva þar viðskifti.

Næst Húsavík mæli jeg með Akureyri. Þar er einnig verslun Grímseyinga og auk þess er Akureyri stærsta kauptún Norðurlands, og því sjálfsagðari til þessa sóma en Siglufjörður. Þaðan er stutt leið til Húsavíkur, og yrði Grímseyingum það ekki mikið óhagræði.

Jeg mun því fyrst greiða atkvæði með Húsavík, en ef það verður felt, greiði jeg atkvæði með Akureyri, því að jeg hefi ekki heyrt þau rök, sem mæla svo sterklega með Siglufirði, að rjett sje að setja stöðina þar. Eins sje jeg ekki ástæðu til að fela símastjóra að úrskurða þetta. heldur er það þingsins verk.