11.04.1923
Neðri deild: 39. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 731 í B-deild Alþingistíðinda. (684)

1. mál, fjárlög 1924

Sveinn Ólafsson:

Jeg á hjer 2 brtt. við 14. og 15. gr. Sú fyrri er á þskj. 292 og lýtur að því að fá 6000 króna veitingu úr ríkissjóði, sem verja skal til viðbótarbyggingar alþýðu- og barnaskóla á Nesi í Norðfirði. Háttv. fjvn. treysti sjer ekki til að taka þessa brtt. á sína arma, að því er háttv. frsm. hennar (MP) sagði, af því, að hún bryti þá um leið princip sitt. Jeg veit nú að vísu ekki, í hverju það principbrot hefði verið fólgið, því jeg sje ekki betur en að þessi fjárveiting væri hliðstæð annari fjárveitingu til unglingaskóla, sem háttv. deild hefir samþykt. Jeg verð því að skýra frá því í fám orðum, hvernig á stendur um þetta mál.

Á Nesi er örlítill barnaskóli, sem mun hafa verið bygður fyrir 12 árum. Hann er ekki stærri en svo, að í honum eru aðeins 2 kenslustofur, og þó heldur litlar. Við þær hefir orðið að notast, en þar sem barnafjöldinn, sem skólann sækir, hefir nú tvöfaldast frá því bygt var, er þetta húsrúm orðið með öllu ófullnægjandi. Hinu verður þó ekki neitað, að það er brýn nauðsyn að geta haldið þarna uppi unglingaskóla, því á þann hátt er þó hægt að draga nokkurn hóp þessara ungu manna út úr smábæjarsollinum og gefa þeim kost á heilnæmu, andlegu viðfangsefni. Svo hafa þrengslin verið mikil þarna upp á síðkastið, að kenna hefir orðið allan daginn í þessum stofum, þannig að sumir nemendurnir hafa sótt tíma á morgnana, aðrir um miðjan daginn og svo enn nokkrir á kvöldin. Nú mun háttv. þingdm. kunnugt um það, að talsverð upphæð hefir jafnan verið veitt í fjárlögum árlega til byggingar barna- og unglingaskóla, að undanteknu þessu ári. Þessi skóli hefir þó enn sem komið er orðið útundan og ekki notið neins af þessu fje. Hreppurinn mun að vísu hafa sótt um styrk til skólans áður, en orðið að sitja á hakanum fyrir öðrum. Síðasta ár drógu hlutaðeigendur sig líka alveg í hlje og sóttu ekki um neinn styrk, með því þeim var kunnugt um örðugan hag ríkissjóðsins. En nú hafa þeir tekið höndum saman við 2 fjelög þarna í þorpinu, málfundafjelag og kvenfjelag. Þessi fjelög ráða yfir þó dálitlu fje, og eru þau fús að taka sinn þátt í byggingarkostnaðinum, ef álma verði bygð út úr skólahúsinu, fyrir fundarsal, sem þau hafi not af til fundarhalda sinna. Sá hreppsnefndin, að þarna var vegur til að koma þessu í framkvæmd, með því að leggja þannig fram sameinaða krafta þessara aðilja til að koma upp húsinu. Sá styrkur, er þeir hafa beiðst af þinginu, er 8000 krónur. Hefi jeg, með hliðsjón af fjárhagsörðugleikunum, fært hann niður í 6000. Jeg hefi og í annari brtt. minni farið fram á 25 þúsund króna lán úr ríkissjóði til þessa fyrirtækis, í stað 40 þúsunda, sem Norðfirðingar hafa beiðst eftir. Jeg hefi nú skýrt frá öllum ástæðum þessa máls, og þarf jeg ekki að fjölyrða meira um þessa till. að sinni.

Hin till. mín á við 15. gr. Hún fer fram á, að veittar verði 1500 krónur Fræðafjelaginu í Kaupmannahöfn, til að gefa út stjörnufræði Þorvalds heitins Thoroddsens. Hann óskaði þess, að þetta rit hans kæmist sem fyrst á prent, en það hefir dregist, af auðskildum ástæðum, eins og svo margt annað. Þetta rit er mjög vandað að frágangi, með uppdráttum og myndum, og telja þeir Finnur Jónsson og Bogi Melsted, sem sækja um styrkinn vegna fjelagsins, að ritið sje mjög vandað og vel samið, en auk þess verður það mjög ódýrt, þar sem ráðgert er, að stærðin verði um 15 arkir og verðið 5–6 kr. Það stendur nú svo á, að við eigum ekkert slíkt rit á voru máli, nema Ursins stjörnufræði, sem Jónas Hallgrímsson lagði út og löngu er úrelt orðin, og svo örlítinn vísi að stjörnufræði, mjög ófullkominn, sem út var gefinn fyrir fáum árum í Sjálffræðaranum. Væri því mjög fýsilegt að fá slíkt rit sem þetta. Jeg býst að vísu við, að um það kunni að verða skiftar skoðanir. hvort við höfum brýna þörf á að gefa út slíkt rit sem þetta. En þótt stjörnufræði verði ekki látin í askana, þá ber að líta á það, að hjer er um að ræða eina elstu íþróttina, er Íslendingar hafa tamið sjer, göfuga og vekjandi íþrótt, ef svo mætti segja, fræðigrein, sem athugulir sveitamenn hafa mestu mætur á. Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta, en aðeins bæta því við, að jafnvel þótt hjer væri ekki um neitt nauðsynjarit að ræða, þá tel jeg þinginu skylt, vegna sóma síns, en verðleika höfundarins, sem ritið samdi, að gefa það út hið fyrsta. Bæði halda til þess hin ágætu ritverk höfundarins og dánargjöfin mikla, sem hvorugt verður fullþakkað. Jeg tel því vafalaust, að háttv. þingdeild taki vel í þetta mál.