12.04.1923
Neðri deild: 40. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í B-deild Alþingistíðinda. (711)

1. mál, fjárlög 1924

Hákon Kristófersson:

Jeg á eina brtt. á þskj. 292, sem er eigi mjög frábrugðin till. nefndarinnar að efni til, og þá síst í útgjaldaáttina. Um fyrri lið till. ætla jeg eigi að fara mörgum orðum; þar er aðeins um orðamun að ræða. Jeg vildi aðeins með brtt. fá það skýrt fram, að landsstjórnin ætti að láta lánið standa afborgunarlaust, en eigi aðeins veita henni heimild til þess. Háttv. frsm. (MP) tók það fram, að þessi till. mín væri eigi til þess að auka tekjur ríkisins. Það er alveg rjett. En hún eykur heldur eigi útgjöld þess. Með till. er aðeins farið fram á það, að afborgunarlaus greiðslufrestur sje lengdur um 5 ár, eða upp í 10 ár. Jeg hefi skýrt hv. fjvn. frá högum hreppsins. Mjer var að vísu falið að fara fram á eftirgjöf á láninu að meira eða minna leyti, en það hefi jeg nú eigi sjeð mjer fært að gera, sökum hins erfiða fjárhags, en hins vegar bjóst jeg við góðum undirtektum um framlenging lánsins afborgunarlaust á meðan hreppurinn er að losa sig við skuld þá, sem hann er í við sparisjóð Arnfirðinga, er var upprunalega 15000 kr. og á að endurgreiðast á 15 árum. Hv. fjvn. hefir eigi sjeð sjer fært að veita greiðslufrest lengur en í 5 ár. Eins og jeg þegar hefi skýrt hv. fjvn. frá, þá tekir það hreppinn 15 ár að losa sig við sparisjóðinn, og hafði jeg því upprunalega hugsað mjer að fara fram á jafnlangan greiðslufrest, en nefndin hefir eigi sjeð sjer fært að veita frestinn lengri en til 5 ára. Þetta hefir mjer þótt alt of stuttur tími, og því hefi jeg komið fram með þá brtt., að í stað 5 ára komi 10 ár. Jeg skal svo eigi fjölyrða um þessa brtt. að sinni; málið liggur alveg ljóst fyrir, enda er þinginu kunnugt um þetta mál frá því áður, og jeg vænti fastlega, að hv. deild aðhyllist till. mína.

Þá vildi jeg minnast nokkrum orðum á brtt. á þskj. 273, frá minni hl. fjvn., meðal annars um það að bæta við eftirlaun Sigurðar prófasts Jenssonar. Jeg vildi leyfa mjer að þakka háttv. þm. Dala. (BJ) fyrir þessa tillögu, bæði vegna þess, að þessi valinkunni sómamaður. Sigurður Jensson, á hlut að máli, og auk þess vegna þess, að hv. þm. hefir með till. sinni tekið af mjer ómakið að bera slíka till. fram. Háttv. þm. tók það rjettilega fram, að prestur sá, sem um er að ræða, er nú kominn á efri ár, heilsulaus með öllu og hefir orðið fyrir svo miklu áfalli, að hann getur sjer svo að segja enga björg veitt. Hann hefir þjónað erfiðu prestakalli um 40 ár og gert það eins og annað, sem hann hefir að sjer tekið, með mesta sóma. Býst jeg við, að hv. deild muni vilja veita þeim manni, sem áður hefir setið hjer á rökstólunum um langt árabil, þá viðurkenningu, sem honum rjettilega ber, sjerstaklega þegar þess er gætt, að maður þessi verður eigi aðnjótandi þeirra hagsbóta, sem af bættum launakjörum leiddi, því einmitt um það leyti lagði hann niður prestsskap. Þessi sæmdarmaður var enn fremur um langt skeið prófastur í Barðastrandarsýslu og gegndi því embætti sínu með mesta skörungsskap, og hefi jeg um þá hæfileika hans eigi veigaminni umsögn en biskupsins, sem hefir gefið honum hin bestu meðmæli sín í sambandi við þetta mál.

Jeg skal viðurkenna það, að jeg er yfirleitt mótfallinn því að auka eftirlaun embættismanna landsins, en jeg vil, að allrar sanngirni og mannúðar sje gætt í þessu efni sem öðrum, þannig, að gömlum og merkum prestum eða öðrum embættismönnum sje eigi fleygt út á gaddinn, þegar ellin hefir sett á þá innsigli sitt, og þá einkum og sjer í lagi þegar þess er gætt, að þeir gegna þeim stöðum í þágu hins opinbera, sem minstar tekjur gefa, eins og fullyrða má í þessu tilfelli að hafi verið. Jeg skal taka það fram, að það er eigi laust við að jeg hafi heyrt, að viðkomandi prestur sje sæmilega efnum búinn. En eftir því, sem jeg þekki til, þá býst jeg við, að hann sje heldur fátækur. Hann á að vísu að nafninu til nokkur hundruð í Flatey, en sú eign hans er öll veðsett, eftir því sem jeg best veit, og hvað hina eignina hans snertir, sem sje Múla, þá vildi jeg ekki eiga hana, þó að mjer væri hún gefin, því að á henni hvílir sú kvöð að byggja upp kirkjuna, og sá kostnaður yrði meiri en jarðarverðinu nemur. Maður þessi er meðal annars búinn að starfa í þjónustu landsins sem þingmaður um 20–30 ár, og hefir hann leyst það starf vel og samviskusamlega af hendi. Geri jeg ráð fyrir, að hv. þingmenn líti eigi svo smáum augum á þá hlið málsins, að þeim þætti hún eigi nokkurs virði.

Jeg vona svo, að hv. deild líti svo á þessa till., að hún samþykki hana, því að hún er eigi nema sanngjörn í alla staði.

Um einstakar till. aðrar sje jeg eigi ástæðu til að tala, en mun sýna afstöðu mína til þeirra við atkvgr.