18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í B-deild Alþingistíðinda. (756)

1. mál, fjárlög 1924

Jakob Möller:

Það eru aðeins örfáar athugasemdir, sem jeg þarf að gera. Það er fyrst út af því, sem hæstv. atvrh. (KlJ) sagði viðvíkjandi brtt. minni um uppbót á launum starfsmanna landssímans og talsímakvennanna við bæjarsímann. Hann virtist leggja aðaláhersluna á það, að bætt yrðu kjör bæjarsímakvennanna. Það er vitanlega alveg rjett, að á því er brýnust þörfin, en samkvæmt tillögum landssímastjórans á mestur hluti þessarar upphæðar að renna til þeirra. eða, að mjer telst, um 12000 kr. Það, sem umfram er, er aðeins lítilfjörleg uppbót á aldursbót nokkurra annara starfsmanna símans.

Öðru held jeg, að jeg þurfi ekki að svara, nema þá helst því, sem háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) var að geta til, að jeg væri með IX. tölulið á þskj. 369 að falast eftir hrossakaupum. Jeg verð að játa, að jeg bjóst ekki við neinni slíkri tilgátu frá honum, því að yfirleitt hefi jeg lítið fengist við þá kaupsýslu, og hygg jeg, að hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) sje hneigðari til slíkrar verslunar en jeg. Hinu gat jeg búist við, eins og jeg sagði, að hann teldi brtt. illgirnislega. Það geta ekki verið hrossakaup, eða tilboð um hrossakaup, þó að farið sje fram á, að eitt sje látið ganga yfir alla. Nær lagi mun þá að telja það hrossakaup hjá þingmönnum á undanförnum þingum, að veita aðeins fje til skólabygginga utan kaupstaðanna. Jeg hygg, að sú venja sje til orðin einmitt fyrir hrossakaup háttv. sveitaþingmanna. En þó að slíkri reglu hefði verið fylgt, þá er hún alls ekki bindandi fyrir þingið nú. Það yrði þá að sýna fram á einhverjar ástæður, sem lægji til grundvallar fyrir því misrjetti sem þar kæmi fram. En það gerði háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) ekki. Það er langt frá, að kaupstaðirnir standi betur að vígi en kauptún landsins með slíkt. Mun t. d. hvergi vera dýrara að byggja nú en einmitt hjer í Reykjavík. Fæ jeg heldur eigi sjeð, að hverju leyti Seyðisfjörður ætti að vera færari að byggja skóla upp á eigin spýtur en t. d. Nesþorp í Norðfirði, sem nú mun álíka stórt orðið, eða stærra. Ekki getur kaupstaðarnafnið eitt valdið þeim mismun.

Þá mintist þessi sami hv. þm. (SvÓ) á það, hve mikið væri flutt út úr Suður- Múlasýslu. Sýnir það ekki annað en að sú sýsla muni vera þeim mun færari að standa straum af þeim byggingum, sem hún þarfnast, og þá ekki síst Nes í Norðfirði, sem mun vera eitt af allra mestu uppgangsplássum á öllu landinu, og þaðan mun einmitt útflutningur vera mestur af öllum Austfjörðum.